Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 14. desember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 75/1988, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Það er alveg ljóst með þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram, að það er ætlunin að auka enn skatta á almenning í landinu sem þegar var farinn að sligast undir þeim álögum sem lagðar hafa verið á fólkið undanfarin ár.
    Ræða hæstv. fjmrh. fyrr í dag minnti á grímudansleik þar sem gríman er notuð til að hylja andlitið. Ég átti von á því að hann mundi grímulaust halda því fram að ef þetta frv. yrði samþykkt væri hér orðin skattaparadís eins og í Svíþjóð þótt Svíar séu núna að vísu að snúa frá villu síns vegar, ekki hvað síst með tilliti til Efnahagsbandalags Evrópu þar sem reynt er að skapa sambærilegar skattalegar aðstæður í þeim löndum sem hafa hugsað sér að keppa á sviði verslunar og viðskipta við þessi lönd. En ég spyr hæstv. ráðherra: Ef það er rétt, sem stendur í Dagblaðinu, að þeir ætli að fá 2,2 milljarða í tekjur af þessu frv. til ríkissjóðs, í aukna skatta á fólkið í landinu, þá væri gaman að fá við því svar frá hæstv. ráðherra hvort það sé ekki nægilegt að endurreikna vaxtaþáttinn í fjárlagafrv. vegna þess að þar er gert ráð fyrir um 7 milljörðum í vexti og lauslega reiknað sýnist mér að innlendi þátturinn gæti lækkað um 2 milljarða sem væri þá nægilegt til að ná endum saman. Þá þarf ekki að leggja á þessa skatta. Hæstv. ráðherra getur sparað sér að leggja á þessa skatta, ef hann endurreiknar vaxtaþáttinn í frv., nema hann hafi ekki trú á því að þeir vextir sem núna eru komnir í bönkunum haldist lengi og hann gerir ráð fyrir því að þeir hækki í 35%. En ég held að þarna sé sá liður sem lækka mætti og þar með væri óþarft að leggja þetta skattafrv. á, enda nægilega mikið komið af sköttum á fólkið í landinu.
    Það er nokkuð ljóst að hér er um gífurlegar álögur að ræða og ekki nokkur vafi á að það mun valda miklum óróa í þjóðfélaginu. Hvað munu t.d. verkalýðsfélögin gera? Hvað mun Alþýðusamband Íslands gera? Hvað mun BSRB gera? Hvað mun BHM gera? Ég hef ekki trú á því að þessi félög muni sleppa ríkisstjórninni eftir að hún er búin að leggja þessa auknu skatta á.
    Í þessu frv., eins og hefur komið hér fram, er reiknað með þremur meginbreytingum við álagningu tekjuskatts einstaklinga. Í fyrsta lagi er reiknað með hærra skatthlutfalli, í öðru lagi er breytt útreikningi á persónuafslætti og barnabótum og í þriðja lagi breyting á skattlagningu launa- og fjármagnstekna.
    Hér er farið mjög mikið inn á þau svið sem áður hafa verið skattlaus. Ég vil í fyrsta lagi ræða um 2. gr. frv. þar sem er rætt um að fella niður 3. mgr. 1. tölul. 31. gr. Í þessum tillögum þýðir það að til líknarstarfsemi, kirkjufélaga og vísindalegra rannsóknarstarfa verður ekki hægt að leggja fram fé með núverandi hætti þannig að það sé hægt að draga það frá tekjum af atvinnurekstri. Gjafir til menningarmála og þessarar starfsemi munu því

væntanlega lækka allverulega í framtíðinni. Það er ekki nokkur vafi á að hér er um mjög slæmt mál að ræða því að margir hafa fengið fjárstuðning frá fyrirtækjum, bæði líknarfélög, vísindafélög og kirkjufélög og þetta hefur þýtt að þau hafa fengið miklu hærri og meiri framlög en annars hefði orðið. Einnig hafa íþróttafélög notið þessa. Hér er um verulega breytingu á þessu að ræða og er sennilega tilkomin vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur orðið að hætta við hinn svokallaða happdrættisskatt. Nú ætlar hann að snúa sér að því að koma þessu inn um bakdyrnar og fella niður skattafrádrátt með þessum hætti til að koma í bakið á þessari starfsemi.
    Þá er í 3. gr. rætt um fyrningar og er reglum um fyrningar breytt þannig að þær eru lækkaðar um 20% á tveimur stöðum og 25% á þriðja staðnum. Þetta þýðir að það verða auknir skattar á fyrirtækjunum. Þau geta ekki reiknað fyrningarnar með sama hætti og áður, það tekur lengri tíma, og það er ekki til bóta.
    Í 4. gr. er rætt um að færa kostnaðarverð á lausafé, fyrningarákvæði. Það á að fella þessa grein niður sem er um að það megi færa fyrningarfé á lausafé sem hefur skemmri tíma en þrjú ár að fullu til gjalda á því ári þegar eignanna er aflað og þær teknar í notkun. Það verður ekki lengur heimilt. Það eru mörg slík tæki sem eru þannig til komin að það er mjög mikilvægt að nota þau í rekstri og þetta ákvæði þýðir að það hækkar í raun rekstur fyrirtækjanna og verður mjög erfitt að mæta því eins og ástandið er sagt vera í þjóðfélaginu.
    Í 5. gr. er ákveðið að 41. gr. falli niður. Þar var áður heimilt og er heimilt þegar kostnaðarverð eigna eða eignasamstæðu er undir tilteknu lágmarki, 1988 var það 108 þús. kr., að færa það til gjalda að fullu á því ári þegar þeirra er aflað þótt endingartími sé lengri en þrjú ár. Þetta er einnig með sama hætti mjög bagalegt og bæði þessi ákvæði eiga sammerkt að þau hafa áður verið í gildi með þeim hætti sem hér er lagt til og ollu þá miklum deilum á milli fyrirtækja og skattstjóra hins vegar og voru tilefni til mikilla bréfaskrifta, vinnu og eilífra kæra og deilna um þetta. Þessi skipan þýðir að það mun áfram ríkja óvissa í þessum málum og það mun kosta mikinn tíma væntanlega í framtíðinni eins og var áður að deila um þessi atriði.
    Þá er í 6. gr. rætt um kostnað við rekstur fólksbifreiðar og það mætti spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta taki ekki örugglega líka til kostnaðar við rekstur á ráðherrabílum. Ég vil gjarnan fá að vita hvort það sé ekki alveg öruggt að það taki líka, þetta ákvæði, til kostnaðar við rekstur á ráðherrabílum þannig að það verði þá alveg ljóst að ráðherrarnir verða að greiða meira til ríkissjóðs en áður.
    Í 7. gr. er rætt um hlutafélög sem hafa veitt eigendum og stjórnendum veruleg peningalán. Ég held að ég geti verið út af fyrir sig sammála því að auðvitað á það ekki að vera með þeim hætti sem hefur verið hægt, en vil benda hæstv. ráðherra á að það væri e.t.v. skynsamlegt að skattleggja lántaka í þessu tilfelli þannig að það væri hægt að ná þeim

með þeim hætti, ef fyrirtæki vill lána einhverjum geti sá sem fær lánið orðið skattskyldur.
    Í 8. gr. er verið að breyta því ákvæði sem fjallar um hámarkstillag í fjárfestingarsjóði og er nú breytt í 15% úr 30%, en var breytt úr 40% í fyrra. Þetta ákvæði var upphaflega hugsað til að efla sparnað innan fyrirtækjanna og hefði, ef maður lítur til lengri tíma, getað orsakað að fyrirtæki vildu heldur leggja í að ávaxta t.d. í ríkisskuldabréfum en leggja út í dýrar fjárfestingar eins og verslunarhús og ýmist húsnæði sem hefur þotið upp um allt land á undanförnum árum og hefði þá verið betur komið að þeir hefðu tekið þetta sem ríkisskuldabréf ef þetta ákvæði hefði verið í gildi lengur. Ég held að það sé ekki til bóta að lækka þetta hlutfall heldur hefði átt að halda því áfram inni.
    Í 9. gr. er rætt um sameiningu eða samruna félaga. Það er verið að tala um að fjárfesta í tapi, fyrirtæki sem kaupa hvort annað upp, hafa of mikinn hagnað og kaupa annað fyrirtæki til að mæta því. Um það er hægt að segja í stuttu máli að auðvitað er betra að fyrirtæki sem vel gengur kaupi annað sem hefur verið rekið með miklum halla. Þá verði það fyrirtæki í framtíðinni rekið hallalaust og reksturinn haldi áfram í stað þess að félagið detti út úr rekstri eða fari á hausinn. Þetta hefur nokkrum sinnum komið fyrir. En það er álitamál hve langt á að ganga í því.
    Þá er rætt um það sem kemur við fólkinu í landinu einna mest, þ.e. um hækkun á prósentum á tekjuskatti. Ég get sagt út af fyrir sig að eins og ástandið er hlýtur að vera slæmt að hækka þetta hlutfall núna. Hitt er annað mál að það hefur verið rætt um hátekjuþrep og ég er sammála því sem hér hefur komið fram um það að það er ekki til bóta að fjölga þessum þrepum. Hitt er að það má ná sama árangri í skattlagningu ef menn vilja ná til hátekjuhópanna með því að hækka persónufrádráttinn meira og hlutfallið sem slíkt á móti. Það má ljóslega sjá þetta á skattakúrfum. Það er hægt að ná því með þeim hætti. Og það má auðvitað gera með þeim hætti að hækka persónufrádráttinn enn þá meira og ná þannig til þeirra hópa sem eru með svo há laun að það er enginn vandi hjá þeim að greiða heldur meira. Því er ég út af fyrir sig sammála. En eins og ástandið er núna í efnahagsmálum held ég að sé ekki rétt að hækka skatta því að ég held að það muni valda erfiðleikum í þjóðlífinu og auka þann samdrátt sem hefur verið stefnt að og kalli á að það muni verða erfitt í þjóðlífinu vegna þessarar gegndarlausu skattlagningar. Ég minni á í þessu sambandi að áður fyrr var talað um velmegun í staðinn fyrir spennu. Ég vil heldur spennu og velmegun en að það verði allt sett niður þannig að það verði samdráttur og atvinnuleysi. Ég held að ég mundi velja frekar þá leiðina að það verði velmegun og spenna en það verði samdráttur og atvinnuleysi.
    Í 11. gr. er rætt um persónufrádráttinn. Ég held að hann mætti hækka töluvert eins og ég hef bent á hér. Ég vil sérstaklega taka fram að á síðasta ári fluttum við borgaraflokksmenn frv. um að sá persónuafsláttur

sem fellur til heimavinnandi húsmóður eða karlmanns er hér ætlaður 80% af óráðstöfuðum hluta persónuafsláttar annars maka. Ég hefði viljað að þetta væru 100%. Ég held að heimilisstörf séu ekkert minna virði en önnur störf og það muni á margan hátt bæta ástandið hjá þeim sem eru heimavinnandi og hjálpa til við að ná endum saman.
    Í næstu greinum á eftir er rætt um sjómannaafslátt og er hann hækkaður og síðan barnabætur og barnabótaauka og húsnæðisbætur. Ég hef að svo komnu ekki haft tíma til að skoða þetta mjög náið, en út af fyrir sig hef ég ekkert meira að segja um það.
    En þá komum við að þeirri grein sem fjallar um skatthlutfallið á fyrirtæki sem hækkar úr 48% í 50%. Það er býsna mikil hækkun eða 4,2% hækkun á milli ára á þessu hlutfalli og það er töluvert mikið. Ég held að það sé ekki til bóta frekar en flest í frv.
    Þá komum við að 19. gr. og það er e.t.v. sú grein sem snertir flesta og kemur verst við ef frá er talinn tekjuskatturinn. Það má nánast segja að þessi skattur sé hæstur á Reykjanesi og í höfuðborginni þannig að það er ekki lengur sambærilegt að búa á höfuðborgar- og Reykjanessvæðinu miðað við víða úti á landi. Menn sem búa í svokölluðum Arnarnesklassa, svo að ég noti orð hæstv. fjmrh., úti á landi bera jafnvel sáralítil fasteignagjöld og enga eignarskatta, en hér verða menn að greiða gífurlega mikla peninga bæði í fasteignagjöld og eignarskatta af sínum húseignum. Ég held nefnilega að við
séum komnir á mjög hættulega braut vegna íbúðarhúss sem menn búa í og leigja ekki út frá sér eða nota til annars. Það eiga að vera mjög lág gjöld á þessu húsnæði. Nú er gert ráð fyrir því að annars vegar hækki gjöld á þessu húsnæði frá 3,5 millj. upp í 6 millj. um 26,3% og hins vegar þar fyrir ofan um 57,9%, álögur á eignir. Þetta eru gífurlega háar álögur og erfitt að samþykkja þær og ekki hægt.
    Það er alltaf verið að tala hér um að þeir sem eigi svona eignir séu ekkert of góðir að borga til samfélagsins o.s.frv., en þetta er í rauninni töluvert miklu meira mál en menn tala um vegna þess að margir hafa í gegnum árin eignast þetta með sparnaði og ráðdeild og komið sér upp góðu og fallegu húsi og nú er verið að verðlauna þá sem hafa í staðinn, e.t.v. með sömu tekjur, notað sína fjármuni í eyðslu og haldið illa á fjármálum. Þeim sem hafa farið vel með er refsað. Við getum tekið hér dæmi um að það er ekki óalgengt að fólk sem á stórar eignir, hefur búið þar allt sitt líf, hefur ekki miklar tekjur endilega, en vill gjarnan búa í þessari fallegu eign og með fallegu innbúi. Nú á að leggja svo háa skatta á þetta fólk að það á erfitt með að rísa undir því og vafalaust getur það það ekki í sumum tilfellum. Það eru mörg dæmi þess, svo að við tökum dæmi af eldra fólki sem býr eitt í stórum og miklum eignum, hefur litlar ráðstöfunartekjur, að jafnvel þó að hluti af persónuafslætti komi þar á móti nægir það ekki til að þetta fólk standi undir þessu. Það er mjög slæmt og ekki hvað síst ef maður lítur til framtíðar að skattleggja íbúðarhúsnæði með þessum hætti. Það var

mjög mikil nauðsyn á því að fólk byggði stór og myndarleg hús og byggi í þeim á þessu landi þar sem menn eru bundnir veðráttunni, verða að vera innan dyra mestan hluta ársins, njóta ekki þess eins og í suðrænum löndum að geta verið úti við mestan hluta ársins þess vegna. Hér er því komið að mjög stóru máli sem ætti ekki að reiknast með þessum hætti.
    Ég vil skjóta því hér inn, af því að hér eru menn sem sífellt tala um landsbyggðina, að það sé verið að ráðast á landsbyggðina, hvort þeir vilji ekki standa með Reyknesingum og Reykvíkingum í því að það sé ekki ráðist á þá sérstaklega með þessari skattlagningu. Það er alveg ljóst að þetta er fyrst og fremst skattur á þetta svæði. Þá má hugsa sér að það væri lagt á sérstakt rúmmetragjald um allt land. Þá væru menn jafnir fyrir lögunum. Er það ekki það sem menn eru að tala um alltaf? Það væri gaman að sjá þingmenn landsbyggðarinnar ef það væri lagt jafnhátt gjald á jafnstórar fasteignir þar og lagt er á hér. Það mundi kannski heyrast hljóð úr horni. Ég er ekki viss um að þetta frv. fengi mikinn stuðning ef þeir sem telja sig landsbyggðarþingmenn þyrftu að standa frammi fyrir þeim sköttum sem fasteignir bera á Reykjanessvæðinu og höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að Seltirningar fá að greiða heldur betur í þessu sambandi. Það er ekki eðlilegt að menn borgi fyrir sams konar húsnæði gífurlegar fjárhæðir á þessu svæði en ekkert fyrir sams konar húsnæði úti á landi. Það er ekki eðlilegt og hlýtur að verða að hugsa upp þær reglur sem hér eru með öðrum hætti.
    Það er nokkuð ljóst að hér mun verða nokkurs konar eignaupptaka. Það er verið að taka mikla skatta af eignum sem þegar hafa verið greiddir skattar af, bæði í tekjusköttum og í neyslusköttum eins og af byggingarefni og vinnu þar að lútandi. Hér er verið að skattleggja það sem er margbúið að skattleggja og aðeins vegna þess að sumir hafa kannski lagt meira upp úr því að byggja sér falleg og góð hús en aðrir og þó hafa kannski sömu tekjur staðið á bak við einstaklingana, en sumir hafa kosið að nota það e.t.v. í eyðslu, utanlandsferðir og ýmislegt annað þannig að þeir eru ekki skattlagðir og þar á meðal þeir sem hafa kosið að setja sína fjármuni í verðbréf. Hér er því um gífurlega mismunun að ræða.
    Ég held að það verði ekki komist hjá því að skoða þessi mál. Ég mundi óska eftir því að fjh.- og viðskn. fengi lista yfir hvað þetta þýðir í mismunun í sköttum eftir landsvæðum og hvað muni verða í sambærilegum eignum skattstofninn t.d. í Reykjavík, í Hafnarfirði, í Kópavogi og á stöðum úti á landi. Í þessu sambandi væri fróðlegt að sjá hvað bændur greiði í skatta af sínum eignum og hvað fólkið á mölinni verður að borga. Þetta er hlutur sem við komumst ekki hjá að ræða. Við hljótum að verða að spyrja þeirrar spurningar: Er eðlilegt að fólk á Reykjanesi borga miklu hærri skatta fyrir sambærilegar eignir? Launin hér eru ekkert hærri en víða annars staðar. Þeir hafa sömu laun og geta ekki hlaupið og heimtað hærri laun út af þessum hækkunum. Þarna er um verulegar hækkanir að ræða og það hlýtur að verða að svara

þeirri spurningu: Af hverju á þetta að leggjast sérstaklega á Reyknesinga og Reykvíkinga fremur en aðra landsmenn? Það hlýtur að liggja til grundvallar eitthvert skattmat vegna þess að tekjur á þessu svæði eru ekkert meiri en annars staðar, en það eru auðvitað launin sem fólk borgar af. Það hefur bara minni ráðstöfunartekjur eftir. Það er verið að taka ráðstöfunartekjurnar af fólkinu með þessu. Það þýðir að það er að greiða meira til samneyslu en aðrir á landinu. Hér hefur margoft í þingsölum verið talað um jafnrétti milli landshluta og ég segi: Við á þessu svæði, Reyknesingar og Reykvíkingar, krefjumst þess að það sé
jafnrétti á landinu og það sé það sama sem við hér þurfum að greiða og aðrir. Þetta er spurning sem verður að svara. Það er ekki hægt að ganga frá þessum lögum öðruvísi en svo að þetta verði brotið til mergjar því að auðvitað er ekki eðlilegt að leggja miklu hærri skatta á mann sem hér býr í sams konar húsi og er úti á landi.
    Þetta er fyrst og fremst íbúðarhúsnæði. Ef þetta væri húsnæði sem menn væru að byggja til að hefja rekstur í eða leigja út mætti hugsa sér aðrar reglur um það. Hér er verið að ganga mjög á hlut Reyknesinga og Reykvíkinga og það verður ekki þolað. Því verður að breyta.
    Í 20. gr. er verið að hækka eignarskattshlutfall úr 0,95 í 1,2 eða um 26,3% eins og ég sagði áðan. Þetta er mikil hækkun og það sýnir sig að þessar hækkanir eru langt fram yfir það sem getur eðlilegt talist því að þetta kemur ofan á aðrar hækkanir sem ég hef nefnt hér, kemur ofan á verðmætaaukningu vegna verðbólgu. Við erum kannski að tala um 50% hækkun á þessum sköttum á milli ára. Í sumum tilfellum erum við að tala um allt upp í 390% hækkun, sýndist mér, ég reiknaði út eitt dæmi sem því svarar, á sköttum. Hér eru því gífurlegar skattahækkanir á ferðinni og er alveg einsýnt að það verður að leggja fram miklu ítarlegri skýrslu um hvað hér er verið að leggja til. Það verður líka að sjá til þess að lög um verðstöðvun séu haldin því að auðvitað falla þessi lög innan þeirra marka sem verðstöðvunin nær til því að ekki er hægt að hækka það gjald sem hér er til ríkisins frekar en önnur gjöld. Hér er því ríkisstjórnin að brjóta niður sínar eigin gerðir. Það hlýtur að verða svo að þessi lög geta ekki tekið gildi fyrr en verðstöðvun er hætt.
    Þær hækkanir sem hér er um að ræða eru gífurlega miklar. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann gert ráðstafanir til þess að heimilin í landinu fái tekjuaukningu á móti þeirri skattaaukningu sem þau þurfa að þola? Ætlar hann að velta þessum vanda yfir á heimilin í landinu? Ætlar hann að sjá til þess að heimilin beri þá óstjórn sem hefur verið í ríkisfjármálum á undanförnum árum og þær hækkanir sem hafa orðið? Á að velta þeim vanda yfir á fólkið í landinu? Þessu hlýtur ráðherrann að verða að svara. Það er merkilegt, eins og kom fram í upphafi máls hæstv. ráðherra, að hann talaði lítið um skattaaukningu hér vegna þess að hann vildi auðvitað fela það og talaði um hvað menn væru að hugsa um á einhverjum

öðrum sviðum um frekari skattahækkun.
    Þessar skattahækkanir koma í fyrsta lagi niður á fólkinu í landinu sem verður að fá auknar tekjur til að standast þessar auknu álögur. Það verður að fá meiri tekjur. Í öðru lagi er þessu velt yfir á fyrirtækin sem þegar standa á mjög veikum grunni mörg hver, eru í rekstrarörðugleikum og eiga ekki völ nema eins kostar, að velta þessu út í verðlagið. Þau hljóta að verða að hækka sínar vörur til samræmis við þessar auknu álögur. Og hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að peningamagnið í umferð verður minna, neysluskattar til ríkisins minnka, tekjur ríkisins munu minnka og þar með mun á næsta ári verða enn frekari halli á ríkissjóði eitt árið enn í staðinn fyrir að reyna að halda sköttum í skefjum þannig að peningarnir fái að flæða um þjóðfélagið og komi svo til baka inn í ríkiskassann þegar þeir hafa margfaldast í meðförum. Þetta er mjög mikilvægt að gerist. En með þessum hætti er stefnt að enn frekari halla á ríkissjóði á næsta ári og enn frekari samdrætti, atvinnuleysi og verri afkomu á þeim tíma sem er með því hagstæðasta í sögu landsins hvað varðar þjóðartekjur.
    Það hefur komið í ljós, eins og ég sagði í ræðu í síðustu viku, að sjávarafli á þessu ári er mesti aflinn í sögunni. Hann er meiri en í fyrra það sem af er á þessu ári. Og hvað þýðir það? Það þýðir miklar tekjur. Og aflaverðmætið víða hefur hækkað. Þó að það fari upp og niður eins og eðlilegt er hefur það víða hækkað. Nú síðast var dollarinn að hækka tímabundið og til lengri tíma, eins og komið hefur fram, er verðið á dollaranum slíkt að það er eitthvert það hagstæðasta sem þekkist á gjaldmiðli. Það er því nærri jafnhagstætt, verðið á dollaranum, yfir tíu ára tímabil og á þýska markinu. Þjóðsagan um dollarann er því röng. Ytri aðstæður fyrir þjóðarbúið eru því afskaplega góðar og eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. í Ed. í gær eru hér nú allt aðrar aðstæður en voru 1983 þegar olíuverð var í 25 dollurum og var geysilega erfitt fyrir þjóðarbúið vegna þess að það eru milljarðar sem það eykur á kostnað við rekstur fyrirtækja, sérstaklega í sjávarútvegi. Núna er eitt allægsta olíuverð sem verið hefur um árabil, mikill afli og háar tekjur. Það þýðir auðvitað að það eru hagstæð skilyrði fyrir þjóðlífið. Við eigum að vera bjartsýn og við eigum að reyna að lækka skattana. Við eigum heldur að reyna að skera, hæstv. fjmrh., fjárlögin og lækka þau. Ég er tilbúinn sjálfur að standa að því að lækka fjárlögin, skera þau niður. Þar eru margir liðir sem væri hægt að fara mjög ítarlega í gegnum og hugsa sér að skera niður á 3--4 árum. Þá mætti lækka ákveðna liði þar jafnframt því sem ríkissjóður væri rekinn með halla eða sá hluti sem næðist með sparnaði. Ég vil enn ítreka spurningar mínar um vextina sem ég held að séu ofreiknaðir um 2 milljarða í fjárlögunum þannig að það er ekki langt frá því að við getum náð endum saman með því einu í fjárlögum. Ég held að þessar hækkanir séu þess vegna alveg
ónauðsynlegar og það verði að taka á þessum hlutum með öðrum hætti. Það verða heldur ekki lagðir skattar

á með þeim hætti sem hér, því hér er verið að mismuna fólki á ýmsum sviðum og það gengur ekki til lengdar. Sérstaklega minni ég á þá grundvallarreglu að við höfum stefnt að því að fólk keypti sitt eigið húsnæði, byggði sitt eigið húsnæði. Til fjölda ára hefur fólk staðið í ströngu, það hefur fórnað miklu fyrir þetta og hefur lagt jafnvel líf sitt í sölurnar fyrir að eignast gott húsnæði og sparað og nurlað saman. Nú á að fara að leggja á þetta alveg sérstakan bónus, á þetta fólk, vegna þess að það hefur sparað og byggt sínar eignir og á þokkaleg hús. Það á að fara að mismuna fólki líka eftir landshlutum í þessu. Þetta gengur ekki, hæstv. ráðherra. Það hlýtur að verða að koma því til leiðar að þetta fólk þurfi ekki að greiða þessi háu gjöld. Það verður að lækka eignarskatta ef eitthvað er.
    Það er alveg ljóst að þetta mikla skattafrv. ásamt öðrum sem liggja hér fyrir mun valda verulegum auknum erfiðleikum sem munu þýða að ríkissjóður verður í enn meiri vanda á næsta ári en hann er núna. Það þýðir að fólkið í landinu mun ekki geta staðið undir þeim álögum sem hér er verið að leggja til. Það verður að ná þessu með einhverjum öðrum hætti eins og ég hef bent á og það verður ekki gert með auknum sköttum.
    Sú stefna var hér áður fyrr í heiðri höfð að reyna að hafa á a.m.k. íbúðarhúsnæði sem lægstan skatt og síðan var fólkið hvatt til að byggja og koma sér upp þaki yfir höfuðið. Nú er það að snúast við. Nú vilja menn skattleggja þessar eignir alveg sérstaklega og hegna þeim fyrir sem hafa lagt verðmæti í húseignir sem munu þó standa til framtíðar. Þetta eru ekki hús sem verða flutt úr landi eða verða ónýt í bráð. Þetta eru ekki forgengilegir hlutir sem verða keyptir erlendis, þetta er ekki gjaldeyrir sem er hent út úr landinu. Þetta eru eignir sem standa fyrir sínu og koma komandi kynslóðum að notum. Það er því mjög mikilvægt að skattleggja ekki íbúðarhúsnæði með þessum hætti og hlýtur að verða að gera mun á því hvort það er íbúðarhúsnæði sem menn nota til eigin nota eða sem þeir nota til að leigja út eða í einhverjum öðrum tilgangi. En til þess húsnæðis sem menn búa í sjálfir hlýtur að verða að taka tillit. Þeir sem eru t.d. einhleypingar fá mjög háan skatt af þessu, en krafan er auðvitað sú að þeir séu ekki eins og vinnukonur fyrri ára, búi í einu herbergi út af fyrir sig með eina plötu til að elda á eða slíkt. Einstaklingar gera þær kröfur að þeir búi í íbúð eins og hjón gera. En með þessu er gert ráð fyrir því að það sé bara hjónaafsláttur á þessu. Þetta er líka eitt af því sem er mjög óréttlátt í frv. Það er ekki eðlilegt að lagt sé á með þessum hætti. Ég ítreka að allar þessar hækkanir, sem eru allt upp í 57,9% á milli ára, eru svo gífurlegar að það tekur engu tali og það getur enginn með góðri samvisku samþykkt að leggja á þessa skatta. Þetta er einhver mesta skattahækkun sem ég hef séð síðan ég kom á þing.
    Hér hefur verið talað um að þetta séu tekjuöflunarfrv. En þetta eru auðvitað ekki tekjuöflunarfrumvörp. Þetta eru skattafrumvörp. Það er

rangnefni að tala um tekjuöflun. Þetta er auðvitað skattlagning. Þessi aðferð, að auka skattana svo gífurlega sem hér er, stenst náttúrlega ekki. Það verður að verða breyting á peningastefnu ríkisins. Það verður að vera sú stefna að leggja á sem minnsta skatta og það verður að vera sú stefna að reyna þá að spara og hagræða í kerfinu. Það verður að fara fram með þeim hætti að tekinn sé fyrir hver málaflokkur fyrir sig, hann skoðaður ofan í kjölinn og séð hvort það sé virkilega ekki hægt að spara á þeim sviðum. Það verður líka að athuga að við erum ekki nema 250 þúsund og við getum aldrei haldið uppi sömu þjónustu með 250 þúsund íbúa eins og milljóna þjóðfélög. Við verðum að sætta okkur við að á sumum sviðum getum við ekki haft eins mikla þjónustu og gerist annars staðar. Það verður að fara ofan í þá málaflokka sem eru stærstir, ég á við heilbrigðismál, ég á við menntamál og ég á við tryggingamál, og skoða þessi mál mjög náið.
    Það var í kvöldfréttum í gær mjög sláandi dæmi um tannlæknaþjónustu í Reykjavík, að 20% af nemendum í Reykjavík borguðu jafnhátt fyrir hana og hin 80% sem voru hjá skólatannlæknum. Auðvitað eru slík dæmi rannsóknarefni. Nú getur vel verið að þetta eigi sér eðlilegar skýringar eins og borgarlæknir benti á, að það séu erfiðar aðgerðir og kannski tannsmíði sem ekki séu unnar hjá skólatannlæknum, en þetta eru dæmi um að það verður að skoða allt okkar kerfi upp á nýtt. Það eru ýmis önnur dæmi bæði úr heilbrigðis- og menntamálageiranum sem verður að skoða. Það er eitt sem ætti líka að skoða hér, að þegar verið er að koma með viðamikil frumvörp til samþykktar á þessum sviðum ætti að liggja fyrir hver kostnaðurinn við þau er því að það er augljóst að það þýðir ekki að samþykkja öll þessi frumvörp og auka síðan skattana á eftir. Það hlýtur að verða að leggja fram hvað þau kosta í viðbót við rekstur ríkisins þannig að menn sjái hvað þeir eru að samþykkja.
    Ég vil sérstaklega ítreka að við hljótum að verða að halda fastar á peningamálum. Við verðum að reyna að spara í okkar kerfi hvernig sem við gerum það og fara mjög ítarlega í gegnum hvern málaflokk fyrir sig. Eins er þetta með framkvæmdir á landinu. Hér hafa menn farið fram úr í framkvæmdum á
einstaka liðum svo milljörðum skiptir og enginn gerir neitt í því. Það er ekki farið ofan í hvað hefur gerst og hvað er að gerast. Það hlýtur að verða að gera þær kröfur til þeirra sem standa fyrir framkvæmdum á vegum hins opinbera að þær standist áætlanir. Einnig hljótum við að skoða hvort við eigum ekki að byggja hagkvæmara og ódýrara en við höfum gert á mörgum sviðum því að það er alveg augljóst að við ráðum ekki við allt það sem hér er verið að gera og menn vilja gera. Það er hægt, og ég hef sjálfur staðið að því, að framkvæma miklu ódýrara, byggja miklu ódýrara og það er líka hægt að spara í rekstri, það er hægt að hagræða í rekstri, það er hægt að stokka upp á nýtt og það er hægt að ná sama árangri og jafnvel miklu betri þjónustu á mörgum sviðum án þess að auka tilkostnað og jafnvel lækka hann. Ég hef starfað

að þessu og veit vel að þetta er hægt. Þetta kostar vinnu og þetta kostar skipulag og þetta kostar það að menn verða að leggja sig alla fram, en þetta er hægt. Þetta er hægt á mörgum sviðum og er því óeðlilegt að ríkið gangi á undan með því fordæmi, sem hér er, að ef stjórnun ríkisfjármálanna fer úr böndunum komi fjmrh. og segi: Við leggjum á meiri skatta af því að við höfum ekki stjórnað ríkinu nógu vel. Við skulum bara leggja á meiri skatta. Þetta er ekki eðlilegt. Fjmrh. hlýtur að passa upp á sín fjármál og segja: Þetta er það sem við ætlum að eyða og fram úr þessu fer það ekki. Það kostar hörku og það kostar vinnu, en þetta er hægt. Við getum ekki velt vandanum, eins og ég sagði fyrr, yfir á heimilin. Það er ósköp hægur vandi að koma og segja: Okkur vantar þetta marga milljarða. Við leggjum bara á meiri skatta. Þetta er tekjuöflun. Þetta eru auðvitað skattar. Og þetta er alveg röng stefna í fjármálum. Fjmrh. á að koma og segja: Við ætlum að draga útgjöldin saman og veita þó sömu þjónustu. Við eigum að endurskipuleggja þetta. Við eigum að stokka upp heimilishaldið hjá ríkinu. Við verðum að skoða heimilisbókhaldið. Hinar hagsýnu húsmæður gætu kannski eitthvað hjálpað honum við það.
    En það er alveg ljóst að þetta, sem hér hefur verið lagt fram ásamt öðrum skattafrumvörpum, gengur í ranga átt og mun verða til þess að ríkissjóður mun standa enn verr á næsta ári. Það mun auka vandamálið og með því að velta þessum vanda núna yfir á heimilin í staðinn fyrir að reyna að ná endum saman bæði með sparnaði og líka með því að endurskoða hluta af frv. sem ég tel að sé rangt reiknaður, t.d. vextirnir, og jafnvel um 2 milljarða. Ég veit það ekki. Það væri gaman að fá þá útreikninga hjá hæstv. fjmrh. Einnig á að gera einhverja áætlun í fjármálum ríkisins í hverjum málaflokki fyrir sig þar sem verður skoðaður hver málaflokkur og farið ofan í hann þannig að það væri hægt að spara og endurskipuleggja á sem allra flestum sviðum. Það gengur ekki að hér séu samþykkt lög ofan í lög þar sem er sagt: Þetta á að borga og hitt á að borga o.s.frv. --- og engin áætlun yfir hvað það kostar né heldur að nokkur viti hvernig hann ætlar að fá tekjur til að greiða það. Það er einnig ekki nógu gott að hér séu afgreidd hver lögin á fætur öðrum sem eru með þeim hætti að þegar kemur til framkvæmdanna kemur í ljós að ekki er hægt að framkvæma þau vegna þess að kostnaðurinn er svo mikill. Það er líka röng stefna. Það er þá betra að láta vera að samþykkja þau lög. Núna liggja fyrir ákvæði um að reyna að láta ákveðin lög ekki koma til framkvæmda og það er ekki óeðlilegt að það sé gert, en það sýnir að vinnubrögðin eru ekki nógu góð ef menn samþykkja lagafrv. og ætlast svo til að tekjurnar detti af himnum ofan. Það er ekki nógu gott og betra að láta það vera og samþykkja ekki frumvörpin þannig að slíkt komi ekki fyrir.
    Um þetta frv. að öðru leyti vil ég segja að það er mjög mikilvægt að það sé tekið til ítarlegrar skoðunar í hv. fjh.- og viðskn. og mörg atriði sem ég hef

drepið hér á verði skoðuð mjög rækilega, bæði einstök ákvæði um niðurfellingu á mörgum hlutum sem þarna er gert ráð fyrir og ég taldi að væru til bóta og eins bæði skattahlutfall, persónufrádrátt og eins að hér er gert ráð fyrir nýrri vísitölu sem heitir skattavísitala, hvað sem það þýðir nú, þannig að menn viti nákvæmlega hvað um er að ræða og ekki verði á hverju ári sífellt tekið meira af tekjunum frá fólki vegna þess að það sé búin til vísitala sem sérstaklega er hönnuð til að taka af mönnum meiri skatta.
    Það var alveg ljóst þegar staðgreiðslukerfi skatta var lagt á að það mundi verða launþegum erfitt á margan hátt. Það er til bóta að menn standi eftir hvern mánuð uppi með það að þeir séu búnir að borga skattana. En það lá einnig ljóst fyrir að með þessari breytingu yrði sókn í að auka þessa skatta ár frá ári einfaldlega vegna þess að þetta eru öruggar tekjur. Þarna er mjög erfitt að skjóta fé undan. Þetta hlaut að verða til þess að það væri tilhneiging til þess að hækka þá skattaprósentu sem lögð er á fólk. Þetta er nú þegar að koma í ljós í frv. aðeins einu ári eftir að þessi breyting var tekin upp og sú hefur orðið raunin annars staðar þar sem staðgreiðsluskattar hafa verið teknir upp.
    Það er líka alveg ljóst að áður borguðu menn skattana af launum eftir á þannig að þau voru í rauninni hagstæðari árið eftir vegna verðbólgu en þegar skattar voru lagðir á þannig að fólk komst heldur betur út úr sköttunum að því leyti til líka. Það voru því raunverulega betri skattalög að því leyti til. Og
svo megum við ekki gleyma því að þeir tveir mánuðir sem menn voru skattlausir, höfðu skattfrjálsa, það voru ekki teknir af mönnum skattar tvo mánuði á ári, voru afskaplega hagstæðir fyrir fólk að því leyti til. Ég held að það verði að passa að staðgreiðslukerfið verði ekki til þess að menn auki skattana ár frá ári vegna þess að það er í rauninni miklu betra í framkvæmd. Ég held að það verði líka að sjá til þess að þeir eignarskattar sem hér er verið að ræða verði ekki svo háir að menn hreinlega flýi land. Ég held að það verði líka að hugsa um þessa hluti í heild þannig að menn líti á fjármagnsflæðið í þjóðfélaginu. Ef tekið er allt of mikið af sköttum verður meiri samdráttur. Það er þegar orðinn samdráttur og því er óþarfi að auka hann. Það hlýtur að vera mikils um vert að halda sem mestu fjármagni úti í þjóðfélaginu því það gefur ríkinu miklu meiri tekjur. Sú hefur orðið raunin á. Ég vil benda á að þegar formaður Borgfl., 5. þm. Reykv., var fjmrh. var þetta gert og það sýndi sig á þremur árum að tekjur ríkisins fóru vaxandi þrátt fyrir að það voru mjög harðar aðhaldsaðgerðir og skattar voru lækkaðir. Hallinn var nær að hverfa þegar hann hætti sem fjmrh. Það eru því fordæmi fyrir því og menn hafa séð það margoft að slík stjórn hefur gefist vel. Það er þess vegna von mín að hæstv. fjmrh. hugsi um þessa hluti á nýjan leik og sjái til þess að skattamálum verði skipað með öðrum hætti en nú er.