Skýrsla OECD um efnahagsástandið á Íslandi
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Úr þessu eru að verða hinar athyglisverðustu umræður. Ég þakka viðskrh. fyrir hans greinargóðu svör. Hann tekur alveg af skarið með það í sínu svari að þeir sem halda uppi fullyrðingum eins og ég hef vitnað til og hafðar eru eftir forsrh. séu haldnir ókunnugleika á því hvernig þessum málum er komið eða vanmati á OECD. Ég fæ ekki betur séð en með þessum hætti sé viðskrh. að bera á forsrh. og efnahagsráðherra landsins að hann þekki ekki nógu vel til hjá OECD. (Gripið fram í.) Já, en ekki kannski á sviði efnahagsmála. En ég er heldur ekki að gera þessi orð að mínum. Ég er að segja að þetta er það sem viðskrh. sagði. Hann þekkir að vísu mjög vel til, hæstv. viðskrh., því að hann mun vera formaður ráðherraráðs OECD um þessar mundir þannig að það er ekki að undra þó að hann taki það illa upp þegar það er borið upp á hans starfsmenn hjá OECD að þeir sitji við þýðingar upp úr íslenskum efnahagsplöggum og setji það síðan hrátt inn í skýrslur um ástand efnahagsmála á Íslandi.
    Nei, ég skil vel að viðskrh. beri slíkt af sér og sínum starfsmönnnum hjá OECD og afneiti þessum viðhorfum forsrh. Það er kominn hér upp mjög athyglisverður ágreiningur milli þeirra tveggja þó að í þessu máli skilji leiðir á milli okkar hv. 8. þm. Reykv. að því leyti til að ég tek málstað viðskrh. í þessu efni þó að hann hafi stillt sér upp við hlið forsrh.
    En hitt er svo aftur athyglisvert, sem fram kom í ræðu forsrh., að hann telur að upplýsingarnar í OECD-skýrslunni séu úreltar miðað við efnahagsástandið í dag. Þær úreldast auðvitað fljótt, upplýsingar um efnahagsástandið á Íslandi, þegar þannig er haldið á málum sem gert er, en þar ræður mestu að alþýðubandalagsforustan með formann flokksins hæstv. hefur tekið öll völd á sviði efnahagsmála. Þar fá hvorki framsóknarmenn né alþýðuflokksmenn neitt að gert þó þeir sjálfsagt fegnir vildu.