Vestmannaeyjaferja
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. samgrh.: ,,Hvað líður athugun á smíði nýrrar ferju milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar?``
    Ég hygg að nefnd hafi verið sett á laggirnar til að kanna og fara ofan í þær hugmyndir sem stjórn Herjólfs hf. hafði á prjónunum. Nefndin hafði fyrst og fremst gert tillögu um að skoða aðra kosti en nýsmíði. Fróðlegt væri að heyra í máli ráðherra, hvernig sú leit gekk og hvort þær gömlu ferjur sem á annað borð voru til sölu hafi ekki sýnst vera bæði dýrir kostir og ófullnægjandi.
    Nú er mikilvægast að sem fyrst verði boðin út smíði nýrrar ferju á þessa þjóðleið. Í því sambandi verða menn að horfa til langrar framtíðar, 20 ár minnst. Á næstu 20 árum mun margt breytast hér á landi. Þegar núverandi Herjólfur kom til sögu um miðjan síðasta áratug var fjarri því að menn sæju fyrir þá öru þróun sem fram undan var.
    Vestmannaeyjaferja er meira en skip. Hún er þjóðbraut á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Ferjan er bæði fólksflutninga- og vöruflutningaleið, þjónustuleið við 5000 manna byggðarlag. Ferjan má dag hvern fara sjóleið þar sem úthafsaldan brotnar bæði þung og há. Sé öryggisþátturinn hafður í huga og þær bilanir og það óöryggi sem núverandi ferja býr við þykir mörgum hægt miða við að komast að niðurstöðu um með hvaða hætti núverandi skip verður endurnýjað. Um hitt deila menn ekki að á því er full þörf.
    Nú eru fimm ár síðan farið var að ræða um nýjan Herjólf. Núverandi Herjólfur er að eldast og þessu skipi verður ekki breytt svo það þjóni þeim markmiðum sem þjónustan krefst við íbúa Vestmannaeyja. Það má kallast heppni að ekkert stórkostlegt hefur komið upp á í siglingum á þessari leið þar sem Herjólfur hefur aðeins eina aðalvél, eina skrúfu og eitt stýri. Enn fremur vita það allir að bæta þarf aðbúnað um borð í skipinu, auka þægindi farþega og kojupláss.
    Menn urðu fljótt sammála um það hvaða kröfur þyrfti að gera til nýrrar ferju, en það er í fyrsta lagi að það væri gott sjóskip, í öðru lagi að öryggismálum yrði fullnægt, í þriðja lagi að bílaþilfar yrði gegnumekið eins og kallað er, ganghraði yrði 16 1 / 2 --17 sjómílur, í fimmta lagi að skipið gæti farið tvær ferðir á dag, í sjötta lagi að skipið tæki 400--500 farþega, 60--70 bíla, 6--7 dráttarvagna og kojur fyrir 60--70 farþega, í sjöunda lagi að skipið fullnægi þörf næstu 15--20 ára.
    Eins og ég sagði áðan var þarna skipuð nefnd og hún hefur tekið þetta til skoðunar, en það er skýlaus krafa að stjórnvöld gangi til liðs við stjórn Herjólfs hf. og bæjarstjórn Vestmannaeyja um að hefja þegar smíði á hentugu skipi til siglinga á þessari leið. Við viljum sjá nýtt skip á þessari leið innan --- ja, ég segi tveggja ára.