Eindagi söluskatts
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Virðulegi forseti. Nú hefur Nd. einróma samþykkt að gildistaka laga um virðisaukaskatt skuli vera 1. jan. 1990 og ég held að samstaða sé um það einnig í Ed. Ég tel eðlilegan aðdraganda að því að eindagi söluskatts verði á næsta ári færður fram yfir mánaðamótin til að stíga skrefið til hálfs þannig að það tekjutap sem ríkissjóður verður fyrir af þessum sökum dreifist á tvö ár. Ég ítreka að miðað við það verðbólgustig sem nú er er kostnaður ríkissjóðs af því að færa eindaga söluskatts fram yfir mánaðamótin einhvers staðar á milli 50 og 100 millj. kr. Við erum þess vegna ekki að tala um miklar fjárhæðir.
    Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. vilji greiða fyrir þessu máli vegna þess að það mundi gera hvort tveggja í senn: stuðla að heilbrigðari viðskiptaháttum en nú er, draga úr hallarekstri matvöruverslana kannski fyrst og fremst og kostnaði og þannig hafa bein áhrif til þess að lækka neysluvörur heimilanna, nauðþurftarvörurnar sem ég held að sé sannarlega ekki vanþörf á eins og nú er komið, eins og málefnum þjóðarinnar er komið.