Eindagi söluskatts
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að bera upp þessa fsp. Hins vegar gætir einhvers misskilnings hjá hv. þm. þegar hann í ræðu sinni óskaði eftir því að fjmrh. tæki til hendinni varðandi þetta mál vegna þess að fjmrh. hefur þegar tekið ákvörðun í þessu máli og tilkynnt hana og hún hefur verið samþykkt og staðfest af ríkisstjórn. Ég veit að vísu að hv. þm. hefur verið önnum kafinn, en í gær var sagt frá því að fjmrh. hefði ákveðið að breyta eindaga söluskatts frá og með áramótum til 2. hvers mánaðar eða næsta virks dags þar á eftir. Þannig yrði eindagi söluskatts fyrir desember 1988 þann 2. febr. 1989. Eindagi söluskatts fyrir nóvember á hverju ári verður þó 25. desember eins og verið hefur að undanförnu.
    Fyrir nokkrum vikum bar hv. þm. Guðmundur Ágústsson fram hliðstæða fsp. og ég sagði þá að ég væri með málið til athugunar. Sú athugun hefur nú þegar leitt til ákvörðunartöku sem tilkynnt hefur verið og gefin út reglugerð þessa efnis. Ég hélt í gær fund með forsvarsmönnum verslunarinnar, bankakerfisins og greiðslukortafyrirtækjanna sem öll lýstu mikilli ánægju sinni með þessa ákvörðun og voru sammála mér um að hún mundi leiða til lækkunar vaxta, lækkandi vöruverðs og heilbrigðari viðskiptahátta. Ég tel því að þessu máli sé lokið og vonandi þingheimur og aðrir ánægðir með niðurstöðu þess. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að áætla má að kostnaðarauki fyrir ríkissjóð í vaxtagjöldum verði á bilinu 70--100 milljónir, en þó má leiða rök að því að með lækkandi vöxtum verði þessi upphæð minni.