Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Fimmtudaginn 15. desember 1988

     Ólafur G. Einarsson:
    Herra forseti. Þessi ágæta röksemdafærsla hv. þm. Árna Gunnarssonar hlýtur að leiða til þess að hann greiðir atkvæði með brtt. á þskj. 240 þar sem gert er ráð fyrir að skatturinn verði áfram 1,1%.
    Herra forseti. Ég sakna hæstv. forsrh. við þessa umræðu. Ég hef orðið þess var að honum hlýnar um hjartaræturnar þegar hann verður þess var að einhver saknar hans og honum veitir náttúrlega ekkert af hlýlegu orði þessa síðustu daga, en fjarvera hæstv. forsrh. þarf ekki að koma í veg fyrir að ég flytji mína ræðu. ( Forseti: Hv. ræðumaður. Ég vil taka fram að það hafa verið send boð til hæstv. forsrh. Hann hefur fengið skilaboð um að nærveru hans sé óskað.) Já, takk fyrir. Ég get sem sagt haldið áfram minni ræðu, en tel nauðsynlegt að hæstv. forsrh. verði hér við áður en umræðunni lýkur. Það er vegna þess að það er komið að atkvæðagreiðslu um eitt af skattafrumvörpum hæstv. ríkisstjórnar og það er fyrsta frv. sem kemur til afgreiðslu á þingi því sem nú situr. En mörg eru eftir. Þetta er að vísu eitt þeirra frumvarpa sem ríkisstjórnin getur víst verið örugg með að fái samþykki vegna yfirlýsts stuðnings Kvennalistans og e.t.v. óbeins stuðnings einhverra annarra stjórnarandstöðuþingmanna. Ég vil af þessu tilefni minna á að sjálfstæðismenn lýstu sig reiðubúna til viðræðna um afgreiðslu mála í hv. þingdeild vegna hinnar naumu stöðu ríkisstjórnarinnar svo ekki sé fastara að orði kveðið. Það tilboð fól ekki í sér fyrirheit um aðstoð við að koma skattaáformum ríkisstjórnarinnar í höfn einum og sér heldur í samhengi við afgreiðslu annarra mála og þá sérstaklega afgreiðslu fjárlagafrv. og þeirrar efnahagsstefnu sem þar er fylgt og við viljum fá breytingar á.
    Hæstv. forsrh. virtist hafa nokkurn áhuga á samningaviðræðum við stjórnarandstöðuna um framgang mála í þinginu og fól reyndar fjmrh. sínum að hefja viðræður við stjórnarandstöðuna, enda enginn vafi á því að menn þyrftu að mætast á miðri leið, eins og haft var eftir hæstv. forsrh. í blaðaviðtali. Ég hlýt að lýsa því yfir við 2. umr. um þetta frv., þegar komið er að atkvæðagreiðslu um fyrsta skattafrv., að hæstv. fjmrh. hefur ekki hlýtt þessu kalli forsrh. síns, enda sjálfsagt óþarfi. Fjmrh. hefur tekið að sér að stjórna hér öllum efnahagsmálum og fjármálum og ég tala nú ekki um öllum málflutningi stjórnarliða, a.m.k. í hv. Nd. Það kom mjög glöggt í ljós í gær í nærri tólf tíma umræðu um frv. til l. um tekju- og eignarskatt. Lengst af var reyndar hæstv. fjmrh. einn í salnum af stjórnarliðum. Lengst af, segi ég. Það kom fyrir að einn og einn stjórnarliði slæddist í salinn, en þeir tóku auðvitað ekki til máls, enginn óbreyttur a.m.k.
    Fyrir nokkrum dögum varð hér umræða um þingsköp þar sem greint var frá því að sífelldar fréttir um samráðsfundi milli stjórnar og stjórnarandstöðu væru rangar. Það var ekki nóg með að það bærust öðru hverju fréttir af þessu heldur voru skrifaðar lofgreinar í sum blöð stjórnarflokkanna um þessi nýju

vinnubrögð hæstv. fjmrh. Það hefði aldrei átt sér stað áður að svona samráð væri haft fyrir fram við stjórnarandstöðuna. Ég held að það sé alveg ljóst að fréttirnar voru ekki fundnar upp af fréttamönnum. Það var reynt að koma því svo fyrir að menn tryðu því að hæstv. fjmrh. hefði einhverja sérstaka forgöngu um samráð við stjórnarandstöðuna. Það var ljóst eftir þessa þingskapaumræðu, það var alveg á hreinu að ekkert samráð hafði verið haft við stjórnarandstöðuna um afgreiðslu mála. Því var lýst yfir af fulltrúum Sjálfstfl., Borgfl. og Kvennalista. Hins vegar kom það skýrt fram að venjulegir kynningarfundir hefðu verið haldnir um frumvörp ríkisstjórnarinnar. Þau hefðu verið kynnt alveg eins og siður hefur verið um mörg undanfarin ár svo lengi sem ég man. Það var sem sagt ekkert nýtt þarna á ferðinni.
    Hæstv. fjmrh. varði sig hins vegar í þessari umræðu með því að segja að við sjálfstæðismenn hefðum viljað sjá öll skattafrumvörpin á borðum framlögð áður en farið yrði að semja um afgreiðslu mála og þetta var vissulega alveg rétt.
    Ef ég man rétt var þennan sama dag lagt fram síðasta skattafrv. ríkisstjórnarinnar. Því var lýst yfir af hæstv. fjmrh. að frv. til l. um tekju- og eignarskatt, sem þá var lagt fram, væri síðasta skattafrv. sem ríkisstjórnin hygðist fá samþykkt, sem um leið þýddi að ýmis önnur áform sem hæstv. fjmrh. hafði greint frá um skattlagningu voru lögð til hliðar. En þrátt fyrir að þessir dagar hafa liðið síðan öll skattafrumvörp hæstv. fjmrh. hafa litið dagsins ljós hafa engar samningaviðræður farið fram um afgreiðslu mála. ( Fjmrh.: Þið hafið aðallega verið hér í salnum þá.) Já, við höfum aðallega verið hér í salnum, en menn hefðu sjálfsagt getað séð af tíma til að tala saman ef það hefði verið einhver áhugi á því. Nú er sem sagt komið að fyrstu afgreiðslunni.
    Við sjálfstæðismenn hljótum að líta svo á að hæstv. fjmrh. telji sig ekki þurfa á neinu samkomulagi við stjórnarandstöðuna að halda, a.m.k. ekki við þingmenn Sjálfstfl. Afgreiðsla á einu frv. áður en stofnað er til viðræðna hlýtur að þýða að hæstv. fjmrh. telur sig ekki þurfa neitt við stjórnarandstöðuna að tala um afgreiðslu sinna frumvarpa og við hljótum að líta svo á að hæstv. fjmrh. tali hér í nafni allrar ríkisstjórnarinnar eins og hann hefur reyndar gert að undanförnu. Við þingmenn í stjórnarandstöðu erum að sjálfsögðu og höfum verið óbundnir þessari ríkisstjórn og ég vona að við munum gera allt sem við megum til að koma í veg fyrir skattahækkunaráform ríkisstjórnarinnar. Þetta á a.m.k. við um okkur sjálfstæðismenn.
    Ég vil taka fram að hið venjubundna samráð milli forseta þingsins og þingflokksformanna fer fram þessa dagana eins og ævinlega. Að vísu með dálítið öðrum hætti, ég verð að viðurkenna það. Fundir hafa verið færri og voru ekki teknir upp fyrr en í fyrradag. En ég tek fram að hæstv. forseti þessarar deildar, Kjartan Jóhannsson, leggur sig sérstaklega fram um að eiga gott samstarf við okkur þingmenn stjórnarandstöðunnar.

    Ég vil nú óska hæstv. fjmrh. alls hins besta í erfiðu starfi, ekki síst næstu daga, við að koma málum sínum gegnum þingið og að hann geti gert þetta allt með annarri hendinni og án þess að þurfa nokkuð að leita til okkar í stjórnarandstöðunni. Ég hlýt hins vegar að treysta því að meiri hluti finnist í hv. þingdeild að létta verstu skattaklyfjunum af þegnum þessa lands sem ætlunin er að leggja á og það gerum við með því að greiða atkvæði gegn þessum hugsjónamálum hæstv. fjmrh.
    Þessi orð mín verða eflaust lögð þannig út að þau lýsi ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar. Eins og menn vita hafa menn reynt hér, bæði innan þings og utan, að snúa öllu við, koma ábyrgðinni á öngþveitinu sem þessi ríkisstjórn hefur skapað yfir á stjórnarandstöðuna, nú reyni fyrst á hana. Þar hafa þeir ráðherrar Alþb., a.m.k. tveir, gjarnan lesið upp úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Þeim reynist það vonandi notadrjúgt eitthvað áfram að glugga í þau skrif, en ég bendi þeim í leiðinni á að lesa leiðara Moggans í dag fyrst þeim er orðið svona tamt að leita í því blaði huggunar. ( Fjmrh.: Hann er mun virðulegri, þessi.) Heldur en leiðarinn? ( Fjmrh.: Já.) Já, þessu verður væntanlega komið til skila.
    Ég þarf ekki að hafa þessi orð mín fleiri, hæstv. forseti. Ég læt í ljós þá von að meiri hl. greiði atkvæði með brtt. á þskj. 240. Við sjálfstæðismenn munum styðja þá brtt. Við höfum lýst því yfir að við séum tilbúnir að styðja að skatturinn verði óbreyttur vegna bágrar stöðu ríkissjóðs, en lengra getum við ekki gengið.