Fjárlög 1989
Föstudaginn 16. desember 1988

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það hefur nú komið glöggt í ljós að sú hugmynd sem Kvennalistinn hreyfði við stjórnarmyndunarviðræður fyrr í haust var mjög raunhæf. Þá stungum við upp á því að tekið yrði á þeim bráða vanda, sem við atvinnuvegunum og þjóðinni blasti, af stjórn allra flokka, eins konar þjóðstjórn. Það hefur nú komið á daginn að hennar er brýn þörf því að sá vandi sem að steðjaði í haust hefur reynst mun viðameiri og alvarlegri en á horfðist og styrkur þessarar ríkisstjórnar til að taka á honum og leysa hann svo lítill að hún leitar nú ákaft stuðnings og samstöðu stjórnarandstöðuflokkanna til þess að koma málum sínum fram í samvinnu við þá. Skynsamlegra og hreinlegra hefði verið að mynda strax þá stjórn sem Kvennalistinn lagði til þannig að allir flokkar gætu staðið saman að lausn vandans. Mér þykir það reyndar merkilegt að þrátt fyrir fjölda örugglega vel menntaðra sérfræðinga og stofnana í hagfræði og hagsýslu virðast í raun vera mjög fáir marktækir mælikvarðar á þróun ástands atvinnuveganna. Stjórnvöld komast því æ ofan í æ í bráðan vanda í þeim efnum án þess að hafa getað fylgt eftir þróuninni þannig að þau geti gripið fram í feril hennar og reynt að forða vandræðum. Það er með ólíkindum að það skuli ekki vera hægt að fylgjast betur með til að koma í veg fyrir vanda eins og þann sem við horfum fram á nú. Ég hvet hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnina til þess að koma sér upp einhvers konar eftirliti eða mælistikum í þessum efnum, þróa þau með embættismannakerfinu og hjá stjórnvöldum þannig að við lendum ekki í svipuðum aðstæðum aftur.
    Eins og fram kom í máli fulltrúa Kvennalistans í fjvn., hv. 7. þm. Norðurl. e. Málmfríðar Sigurðardóttur, munum við ekki flytja neinar brtt. nú en hreyfa ýmsum málum sem okkur þykja brýn og nauðsyn að ræða eins og þær stöllur mínar hafa gert á undan mér, hv. þingkonur Kristín Einarsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ég mun víkja lítillega að heilbrigðiskerfinu og þá þeim niðurskurði sem þar er fyrirhugaður og vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að þó að vissulega sé brýn nauðsyn á hagræðingu í þeim efnum eins og öðrum og einnig sparsemi og ráðdeild er afar varhugavert að vinda ofan af svo flóknu kerfi í einu vetfangi. Það hlýtur að þurfa að gera með samræmdum aðgerðum og þróun í langan tíma.
    Það er þá fyrst að leiða hugann að því að gerð fjárlaga samkvæmt þeirri aðferð eða þeim aðferðum sem hafa verið notaðar er í sjálfu sér íhaldssöm og hefur tilhneigingu til þess að viðhalda þeim verkefnum og stofnunum sem þegar eru fyrir. Hún hvetur menn ekki til sparnaðar eða endurskoðunar því að sá sem mætir óskum stjórnvalda um slíkt með því að fækka stöðugildum í einni grein eða minnka eyðslu á það á hættu að geta ekki endurheimt stöðugildi aftur í sömu grein eða annarri grein síðar við breyttar aðstæður. Einnig sjá aðrir aðilar um frekari niðurskurð þannig að flestir fara fram á meira en þeir í raun þurfa til þess að enda e.t.v. með viðunandi útkomu. Það má

líka velta því fyrir sér hve skynsamlegt það er að forgangsröðun og fjárveitingar skuli í mörgum tilvikum ákveðnar af hagsýsluaðilum og misvitrum stjórnmálamönnum en ekki fyrst og fremst af faglegum aðilum sem hafi ákveðið fé til umráða, hver innan síns sviðs eða geira. Þróun mála hefur stundum verið of tilviljanakennd í heilbrigðismálunum og ráðist af tímabundnum þrýstingi í ákveðnar áttir, e.t.v. á kostnað almennrar þróunar. Stofnanir, verkefni og jafnvel einstaklingar hafa í skjóli áhrifa sinna, og þá stundum pólitískra áhrifa, getað náð því að snúa fjármagnsstreymi til sín sem þá tefur eða hindrar framkvæmdir annars staðar og það er sígildur vandi að byrjað er á nýjum framkvæmdum án þess að ljúka við þær eldri þannig að hægt sé að koma þeim í gagnið. Þær standa e.t.v. ónotaðar, og dæmi má taka af ýmsu húsnæði sem stendur hálfinnréttað eða nærri því innréttað en ekki er hægt að taka í notkun vegna fjárskorts.
    Ágætislög um heilbrigðisþjónustu og heilbrigðismálefni eru síðan ekki framkvæmd að fullu og er þá skemmst að geta uppbyggingar heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu því að enn eina ferðina horfum við fram á það að gildistöku þessara laga er frestað hvað varðar höfuðborgarsvæðið. Það er náttúrlega óviðunandi því að hér ríkir skortur á heilsugæslu og við verðum að muna eftir því að hér býr nær helmingur íbúa þjóðarinnar hvort sem okkur líkar það betur eða verr og þeir verða að eiga völ á heilsugæslu eins og aðrir íbúar þessa lands. Mig langar af því tilefni að vitna í bréf sem mér barst í dag og trúlega öðrum þingmönnum Reykjavíkur líka og fá að lesa erindi þess, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Á fundi borgarráðs í dag var samþykkt svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Alþb., Alþfl., Framsfl., Kvennalista og Sjálfstfl. [og það er trúlega ekki oft að fulltrúar allra þessara flokka eru sammála í borgarstjórninni]:
    Á fundi fulltrúa Reykjavíkurborgar með þingmönnum kjördæmisins og talsmönnum fjvn. í síðustu viku kom fram að ekki er gert ráð fyrir neinu framlagi til byggingar heilsugæslustöðva í Reykjavík í tillögum fjvn. um skiptingu stofnframlaga. Á fundinum var upplýst að um 230 millj. væru til
skiptanna í þessum málaflokki, en Reykjavíkurborg hefur sótt um 100 millj. til að ljúka framkvæmdum við þær heilsugæslustöðvar sem nú eru í byggingu, þ.e. við Vesturgötu og Hraunberg. Borgarráð lýsir furðu sinni á þessari tillögugerð sem hlýtur að leiða af sér stöðvun framkvæmda og skorar á alla þingmenn Reykjavíkur að beita sér fyrir eðlilegum fjárveitingum til umræddra heilsugæslustöðva á fjárlögum 1989, en alkunnugt er að Reykjavík hefur fengið hlutfallslega mun lægri framlög til heilsugæslustöðva á liðnum árum en önnur kjördæmi.``
    Þetta er undirritað af Davíð Oddssyni.
    Þrátt fyrir það að flestum finnist þeir aldrei fá nægilegt fé til sinna mikilvægu verkefna fara þó tæp 40% fjárlaga til heilbrigðis- og tryggingamála á núverandi fjárlagafrv. og er það reyndar svipað og

áður hefur tíðkast. Útgjöld ríkisins vegna heilbrigðismála hafa farið vaxandi á sl. áratugum. Þessi kostnaðaraukning hefur orðið fyrst og fremst í rekstri sjúkrahúsa og annarra stofnana heilbrigðisþjónustunnar. Hins vegar hefur í raun orðið hverfandi lítil hækkun á framlagi ríkisins til heilbrigðisfræðslu og fyrirbyggjandi aðgerða þrátt fyrir þá vitneskju að miklu hagkvæmara sé að koma í veg fyrir sjúkdóma en að lækna þá. Það er því löngu orðið tímabært að taka afdráttarlaus skref til að snúa þessari þróun við og leggja ríkari áherslu á heilbrigðisfræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðir en áður. Það er vert að geta þess að það eru ýmis raunhæf verkefni á sviði forvarna sem blasa við þar sem ætla má að markvissar aðgerðir mundu skila verulegum árangri. Þann árangur má bæði mæla í mannslífum, auknu heilbrigði, bættri líðan og miklum fjárhagslegum sparnaði. Ég vil sérstaklega geta þess að þegar á að fara að beita niðurskurði á stofnanir heilbrigðiskerfisins er afar brýnt að stíga ákveðin markviss skref til forvarna og heilbrigðisfræðslu til að vega upp á móti þannig að það sé samhengi og skipulag í þessari þróun og hún hlíti ákveðinni stefnumörkun.
    Mig langar til að taka nokkur dæmi þar sem um raunhæf verkefni til forvarna er að ræða.
    Fyrst má nefna slysavarnir. Á Íslandi er lægstur ungbarnadauði í heimi. Hins vegar höfum við hæstu tíðni barnaslysa af öllum löndum Evrópu. Þar eru algengust slys bæði í umferð og þó sérstaklega í heimahúsum þar sem eitranir eru algengastar. Umferðarslys eru hér allt of algeng og valda ómældri mannlegri þjáningu og sorg auk þess mikla kostnaðar sem af þeim hlýst. Önnur tegund slysa, sem er algengari hér en í nágrannalöndum, er sjóslys. Öllum þessum málum hefur þegar verið sinnt í einhverjum mæli, en þarna er í raun enn mikið verk óunnið.
    Annað dæmi mætti taka um reykingar. Talið er að engin ein ráðstöfun mundi skila meiri árangri til að bæta heilsufar manna og fækka ótímabærum dauðsföllum en einmitt að draga verulega úr tóbaksnotkun. En hvað erum við að hugsa í raun og veru í þessum efnum? Ef við trúum því í raun að minnkuð tóbaksnotkun sé ráðstöfun sem mundi skila meiri árangri til að bæta heilsufar manna og fækka ótímabærum dauðsföllum, því í ósköpunum er ekki veitt meira fé til fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerða í þessum efnum?
    Enn mætti minnast á önnur verkefni. Tannskemmdir eru t.d. algengari í íslenskum börnum en börnum annars staðar á Norðurlöndum. Hér hafa börn bæði fleiri viðgerðar og skemmdar tennur en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum og stafar það að miklu leyti af sykuráti sem hér er meira en víða annars staðar, en einnig af lélegri tannhirðu. Þetta hefur leitt til gífurlega aukins viðgerðarkostnaðar í tannlæknaþjónustu sem spara mætti með bættri tannhirðu, minna sykuráti og öðrum fyrirbyggjandi aðgerðum. Þetta vita allir þm. hér inni, svo oft hefur það verið rætt í þingsölum. Og einhvern tíma og

einhvers staðar verðum við að byrja að stíga fyrstu skrefin til þess að koma í veg ekki bara fyrir þessa fjárhagslegu sóun heldur líka að byggja upp betra heilbrigði.
    Síðan vík ég aðeins að leit að sjúkdómum á byrjunarstigi sem getur bæði aukið lífslíkur og komið í veg fyrir mikla vanlíðan auk þess sem það getur sparað mikla sjúkrahúsa- og stofnanaþjónustu síðar. Nægir að minna á starf Krabbameinsfélagsins í þeim efnum. Ég hygg að fjárframlög til Krabbameinsfélagsins hafi verið hækkuð að einhverju leyti, en ég veit jafnframt að þar er þörf á meira fé til þess að geta staðið við þær skuldbindingar og áætlanir sem gerðar voru um brjóstaskoðun kvenna með röntgenmyndun. Þar mun fækka verulega þeim konum sem verða skoðaðar ef ekki fæst til þess meira fé.
    Að lokum má nefna þann vágest sem nýlega hefur vakið ótta manna og umtal, en það er eyðni. Það er kannski ekki úr vegi að minnast á eyðni þegar talað er um forvarnir því að þar er e.t.v. dæmigerðasti sjúkdómurinn þar sem varnirnar eru einu meðulin, ef maður getur sagt sem svo, sem duga og þeim verður að beita ef hindra á vaxandi útbreiðslu sjúkdómsins. Hann hefur sannarlega aukist hér á landi, jafnmikið og jafnvel meira en menn áætluðu fyrir einu til tveimur árum. En hvað erum við að hugsa í þessum efnum? Þá langar mig til að taka nokkur dæmi af því að ég ætla ekki að lengja mál mitt um þessi efni þó að af nógu væri að taka.
    Í fyrra voru veittar rúmar 10 millj. kr. vegna kynsjúkdóma og eyðni og það var mun ríflegra framlag en áður hafði fengist til kynfræðslu. Þrátt fyrir aukna tíðni eyðni og vaxandi vanda af þeim sökum meðal þessarar þjóðar eins og annarra hefur þetta framlag nú verið lækkað niður í 5 millj. 890 þús. kr. Ég sé ekki samhengið í þessu. Hverju eru menn að bjóða heim? Hvernig ætla þeir að mæta þessum vanda? Hér þarf virka og áleitna fræðslu til þess að hún nái til þeirra sem líklegastir eru til að breiða út þennan sjúkdóm. Ég vek líka athygli á því og minni þá hæstv. ráðherra tvo sem hér sitja, fjmrh. og heilbrmrh., á það að í lok síðasta kjörtímabils var samþykkt þáltill. frá Kvennalistanum um að auka skyldi kynfræðslu í skólum. Hún var e.t.v. ekki síst samþykkt vegna þess að eyðni hafði komið til sögunnar. Áður höfðu unglingsstúlkur átt við vanda að stríða vegna þess að allmargar þeirra urðu þungaðar á unga aldri. Sumar fæddu sín börn, aðrar gengust undir fóstureyðingu. Hvorugt er ákjósanlegt fyrir svo ungar stúlkur. Besta vörnin í þessum efnum er auðvitað kynfræðsla. Við fögnuðum því þess vegna að þessi tillaga var samþykkt á sínum tíma. Það varð hins vegar skammgóður vermir. 10 millj. sem að mestu leyti fóru í gerð eins bæklings og síðan ekki söguna meir, og nú er framlagið næstum því skorið niður til helminga. Hvað eru menn að hugsa, þau stjórnvöld sem nú sitja, um stefnumörkun í heilbrigðismálum? Það er hlutverk þeirra að marka samræmda og skipulega stefnu sem er í takt við þá heilbrigðisáætlun sem hér hefur verið lögð fram í

tvígang á Alþingi? Ef menn ætla að standa við hana verða þeir að vinna að henni og leggja til þess nokkurt fé sem mun bæði skapa betra heilbrigði í landinu og jafnframt spara mikið fé. Þar sem ég er svo heppin að hafa tvo hæstv. ráðherra hér fyrir framan mig í salnum langar mig að beina fyrirspurnum til þeirra varðandi þessi mál sem ég hef rætt nú þegar og biðja þá að svara því hvernig þeir ætli að standa að þessum málum.