Þinghald milli jóla og nýárs o.fl.
Laugardaginn 17. desember 1988

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Vegna fyrirspurna hv. 1. þm. Suðurl. finnst mér eðlilegra að slíkar fyrirspurnir séu bornar fram þegar forsrh. er viðstaddur. Það munu verða deildafundir í dag þar sem nefnd frumvörp eru á dagskrá, nefnd bráðabirgðalög. Mér þykir eðlilegra að umræða sem þessi, ef hún er þá á annað borð nauðsynleg, fari fram þá, en auðvitað er ljóst að það er nauðsynlegt að halda sem fyrst fund þingflokksformanna og forseta þingsins til að ræða þessi mál eins og venja er. Ég hygg að það sé næsta útilokað að fá niðurstöðu í það sem hér er rætt nema á slíkum fundi. Ég vildi fara þess á leit við hv. 1. þm. Suðurl. að hann geymi þessa umræðu þar til forsrh. er viðstaddur.