Framhaldsskólar
Laugardaginn 17. desember 1988

     Frsm. meiri hl. menntmn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Á þskj. 255 liggur fyrir nál. meiri hl. menntmn. þessarar hv. deildar um frv. til l. um breytingu á lögum um framhaldsskóla. Nefndin fjallaði um þetta frv. og á fund hennar komu Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri menntmrn., og Hermann Jóhannesson, deildarstjóri í menntmrn., svo og Ingvar Ásmundsson, formaður Félags skólameistara, og Elna Jónsdóttir, formaður Bandalags kennarafélaga.
    Sú breyting sem þetta frv. gerir ráð fyrir er að fresta gildistöku kostnaðarákvæðakafla framhaldsskólalaganna og ákvæðanna um skólanefndir. Það kom skýrt fram í framsögu hæstv. menntmrh. fyrir málinu að nauðsyn er að fresta gildistöku þessara ákvæða laganna af ýmsum ástæðum. M.a. er vinna við reglugerðir tiltölulega skammt á veg komin. Það var kannað og ég kannaði það sérstaklega í nefndinni hvort unnt væri að fresta gildistöku kostnaðarákvæðanna einna en láta ákvæðin um skólanefndir taka gildi. Við því fengust mjög skýr svör að það væri ekki tæknilega unnt.
    Það er skylt að geta þess að formaður Félags skólameistara, Ingvar Ásmundsson, lagðist í nafni þess félags eindregið gegn þessari frestun og einnig leitaði nefndin álits Sambands ísl. sveitarfélaga sem hefur gert samþykkt um málið sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þar sem fram hefur komið í umræðum að til álita komi að fresta gildistöku laga um framhaldsskóla sem samþykkt voru á síðasta þingi vill stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga árétta að sveitarfélög landsins hafa ekki gert ráð fyrir öðru en ríkið standi við sinn hlut kostnaðar við framkvæmd laganna á næsta ári miðað við þá kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga við byggingu og rekstur framhaldsskóla sem lögin gera ráð fyrir. Þetta tilkynnist hv. þingdeildarnefnd hér með.``
    Nú er þess auðvitað að geta að sveitarfélögin ganga yfirleitt ekki frá sínum fjárhagsáætlunum fyrr en á fyrstu mánuðum ársins og ég hygg að flestir sveitarstjórnarmenn hafi haft hugboð um að á þessa leið mundu mál skipast. Það hefur líka verið talið eðlilegt að þessi breyting gerðist nokkurn veginn samhliða þeirri breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem nú er á döfinni og enda þótt bæði skólameistarar og Samband ísl. sveitarfélaga leggist gegn þessari breytingu var meiri hl. menntmn. þessarar hv. deildar samt þeirrar skoðunar að svo veigamikil rök mæltu með því að fresta gildistökunni og samþykkja frv. óbreytt eins og það liggur fyrir að meiri hl. nefndarinnar var alveg sammála um það. Undir nál. rita auk þess sem þetta mælir hv. þm. Jón Helgason, Skúli Alexandersson og Valgerður Sverrisdóttir.
    Það var líka rætt í nefndinni hvort ástæða væri til að breyta dagsetningunni þannig að ekki væri miðað við áramót heldur upphaf skólaárs, en meiri hl. nefndarinnar fann ekki þau rök sem réttlættu að gera þá brtt. Það er þá hugsanlega hægt að taka það mál upp aftur síðar, en meiri hl. nefndarinnar leggur til að

frv. verði samþykkt óbreytt.