Framhaldsskólar
Mánudaginn 19. desember 1988

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín spurningu og spyr um hvaða afskipti félmrn. hafi haft af bréfi því sem hann las upp frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og hvaða viðræður hefðu átt sér stað milli ráðuneytisins og sambandsins um þetta mál. En í bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga er gerð grein fyrir ákveðinni samþykkt sem lýtur að gildistöku laga um framhaldsskóla.
    Því er til að svara að félmrn. hefur ekki haft nein afskipti af þessu bréfi eða samþykkt Sambands ísl. sveitarfélaga, enda væri það óeðlilegt, og engar viðræður hafa átt sér stað milli sambandsins og félmrn. um þetta mál. Hinu vil ég þó við bæta að eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt um liggur hér fyrir frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og þar er gert ráð fyrir að ríkið taki á sig útgjöld sem nema 225 millj. kr. vegna framhaldsskólanna þegar verkaskiptafrv. kemur til framkvæmda ef það verður samþykkt sem lög frá Alþingi. Það sem undrar mig kannski nokkuð í því sambandi er að ekki er gert ráð fyrir að gildistakan í því frv. verði að veruleika fyrr en 1. janúar 1990. Og í tilefni fyrirspurnar hv. þm. vil ég benda á að fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga hafa að fullu tekið þátt í því starfi að semja frv. um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hafa ekki haft neina fyrirvara á því sem þar kemur fram, m.a. að gildistakan verði 1. janúar 1990.
    Að því er varðar þá samþykkt að sveitarfélögin hafi gert ráð fyrir gildistökunni strax á næsta ári og gert ráð fyrir því í sínum fjárhagsáætlunum, þá vil ég ekki leggja neitt mat á það sem fram kemur í þessari samþykkt, en mér er þó kunnugt um að yfirleitt gera sveitarfélögin ekki sínar fjárhagsáætlanir eða ganga ekki frá þeim fyrr en í byrjun næsta árs.
    Ég vænti þess að ég hafi svarað fyrirspurninni sem hv. þm. beindi til mín.