Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 19. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frv. til l. um aðgerðir í efnahagsmálum sem er 20. mál Alþingis. Þetta mál hefur verið til umræðu, umfjöllunar og afgreiðslu í hv. Ed. og hefur þá fylgt 8. máli þingsins, sem er mjög skylt þessu máli sem hér er til umræðu. Það er eðlilegt að umræður um þessi tvö mál tengist með ýmsum hætti og það er jafnframt afar eðlilegt að umræður verði um stefnu eða stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar þegar þessi mál eru til umræðu því að þessi staðfestingarmál á bráðabirgðalögum eru í raun frumvörp sem lýsa svokölluðum fyrstu aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar, þeim aðgerðum sem farið var af stað með í upphafi og áttu að gagnast atvinnuvegum þjóðarinnar með þeim hætti að ekki stefndi í atvinnuleysi og lokun atvinnufyrirtækja um land allt.
    Það er full ástæða til þess að rifja það upp, virðulegur forseti, að núv. ríkisstjórn er mynduð eftir að stjórnarflokkar fráfarandi ríkisstjórnar komu sér ekki saman um þau úrræði sem grípa skyldi til til þess að koma til móts við eðlilegar þarfir atvinnuveganna vegna versnandi árferðis á þessu ári og síðasta ári. Það er full ástæða til þess, virðulegur forseti, að rifja það upp að meginágreiningurinn, efnislegi ágreiningurinn sem var fyrir hendi í fyrrv. hæstv. ríkisstjórn, stóð kannski fyrst og fremst um það að einn stjórnarflokkanna þáverandi, Sjálfstfl., vildi fremur beita svokölluðum almennum aðgerðum sem lýstu sér þá fyrst og fremst í breytingum á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendri gjaldmynt, en hinir þáv. stjórnarflokkar lögðu meiri áherslu á að halda genginu stöðugu en beita þess í stað millifærslum til þeirra útflutningsgreina sem verst voru settar.
    Ég tel að ágreiningurinn sem varð á milli þáv. stjórnarflokka hafi í reynd verið þessi, fyrst og fremst, þegar talað er um efnislegan ágreining. En ég fer ekki dult með það að ástæðan fyrir því að sú ríkisstjórn gat ekki starfað lengur var sá draugagangur sem var í þáv. ríkisstjórn og lýsti sér í því að einn flokkurinn fyrst og fremst og þá kannski fyrst og fremst formaður þess stjórnmálaflokks, hæstv. forsrh., virtist hafa vaxandi áhuga á því að tengjast fremur svokölluðum félagshyggjuflokkum og reyna með nýjum lausnum að ná tökum á þeim vandamálum sem upp höfðu komið í þjóðfélaginu. Það bar nokkuð á þessu snemma á þessu ári. Síðan fóru þessi viðhorf hæstv. forsrh. að blasa betur við og loks gat hann ekki lengur setið á strák sínum þegar halla fór á septembermánuð og kom þeim viðhorfum til skila til íslensku þjóðarinnar með hjálp ákveðinna blaða sem gefin eru út hér í bæ að líklega þyrfti að grípa til félagshyggjuúrræða ef vel ætti að fara. Þegar síðan hæstv. forsrh. hafði tekist að sprengja fyrrv. ríkisstjórn og ná saman nýrri stjórn --- sem reyndar var gert með þeim einkennilega hætti að hæstv. forsrh. fékk umboð til þess að mynda meirihlutastjórn, en niðurstaðan varð sú að mynduð var ríkisstjórn sem ekki var a.m.k. á yfirborðinu hægt að sjá að hefði starfhæfan meirihluta á Alþingi, en sú stjórn var sögð styðjast við

svokallaða huldumenn sem lífgjafi hæstv. ríkisstjórnar, hv. þm. Stefán Valgeirsson, sagðist hafa gott samband við.
    Í fáum orðum, virðulegi forseti, kom síðan fram í svokallaðri stefnuræðu hæstv. forsrh. að í raun hefði mistekist að ná tökum á vanda atvinnuveganna vegna þess að frjálshyggjan hefði komið í veg fyrir það að hægt væri að grípa til eðlilegra og æskilegra úrræða. Þegar þeir sem hlustuðu á hæstv. forsrh. flytja ræðu sína, svokallaða stefnuræðu, hér á hinu háa Alþingi reyndu að rýna í það í þeirri ræðu hvað það væri sem hæstv. forsrh. kallaði frjálshyggju var það einkum tvennt sem nefnt var til sögunnar. Annars vegar voru það svokallaðir verðbréfasjóðir, grái markaðurinn eins og hæstv. forsrh. kallaði þessa sjóði og starfsemi þeirra, og hins vegar vextirnir sem gefnir voru frjálsir í hendur bankakerfinu og öðrum í valdatíð ríkisstjórnar hæstv. forsrh. sem varð til árið 1983 og starfaði til 1987. Eitt það helsta og markverðasta sem sú ríkisstjórn náði fram var að breyta að miklu leyti fjármagnsmarkaðinum, sérstaklega á sviði peningamála, vaxtamála, annars vegar, og með því að setja löggjöf um svokallaða verðbréfasjóði sem var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og þurfti auðvitað að lagfæra hana innan nokkurra mánaða. Þetta voru kannski helstu afrek þeirrar ríkisstjórnar þótt auðvitað megi margt tína til og það er kannski kominn tími til að hæstv. forsrh. sé þakkað það að hafa á sínum tíma haft þann skilning á frjálshyggjunni sem hann kallar svo að hafa beitt sér fyrir þessum umbreytingum á íslenska fjármagnsmarkaðinum. En síðan, nokkrum mánuðum eftir að hann hvarf úr forsætisráðherrastól, varð utanrrh. og tók sér bólfestu þar í fílabeinsturni, brá svo við að allt sem aflaga hafði farið var frjálshyggjunni að kenna. Maður gat reyndar haldið þegar maður hlustaði á hæstv. núv. forsrh. að það væri frjálshyggjunni að kenna að verð hefði lækkað í Bandaríkjunum, það væri frjálshyggjunni að kenna hvernig hitastigið væri í sjónum því að eins og hann talaði um þessa blessuðu frjálshyggju virtist allt illt frá henni komið. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra er sammála mér um það hvað frjálshyggja sé. Það er nú einu sinni þannig að þeir tala mest um Ólaf konung sem ekki hafa
heyrt hann eða séð, en eins og hæstv. forsrh. lýsir frjálshyggjunni beinist hún einkum að þeim tveimur þáttum sem ég hef nefnt hér í minni ræðu.
    Nú skulum við aðeins nokkur andartök líta út fyrir landsteinana og skoða það efnahagsumhverfi sem þar ríkir í helstu viðskiptalöndum Íslendinga, helstu nágrannalöndum, í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Sumir kalla þau vestræn lýðræðisríki. Við getum talað um þjóðirnar í Evrópu sem eru í EFTA og Efnahagsbandalaginu. Þegar fjármagnsmarkaðurinn er skoðaður í þessum löndum kemur í ljós að Íslendingar hafa smám saman, þar á meðal undir forustu hæstv. forsrh., verið að fikra sig inn á þær brautir sem þar eru farnar í þessum málum. Og hvers vegna skyldi þetta hafa verið gert? Jú, svarið liggur nokkuð í augum uppi þegar þess er gætt

að hjá þessum þjóðum eru lífskjörin einna best í heiminum. Stundum hafa menn reynt að svara þeirri spurningu, hvers vegna lífskjör séu betri fyrir vestan járntjald en fyrir austan. Er fólkið eitthvað öðruvísi? Er jarðvegurinn eitthvað öðruvísi? Eða getur verið að kerfið sjálft sé með þeim hætti að annars vegar lami það frumkvæðiskraft einstaklinganna, en hins vegar örvi það atvinnustarfsemina? Og ég tel að langflestir sem um þessi mál hafa fjallað séu sammála um að í megindráttum snúist þetta mál um það að fyrir austan járntjald hefur það gerst að miðstýringin, að handaflsaðferðin hefur verið látin ráða með þeirri niðurstöðu að í raun eru lífskjör þar miklu lakari en þar sem frelsið er meira.
    Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur það að ríkisstjórnir á Vesturlöndum, þar á meðal sósíalistaríkisstjórnir eins og nú starfa í Svíþjóð og Noregi, Frakklandi og víðar, hafa sannfærst um það að frelsi á fjármagnsmarkaði er eitt af þeim undirstöðuatriðum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að ná þeim efnahagslega árangri sem skilar sér í bættum lífskjörum þjóðanna. Þetta er staðreynd sem er óhrekjanleg og nú er svo komið að jafnvel austur í Sovétríkjunum þar sem vinur hæstv. forsrh., Gorbatsjov, sá sem samdi á sínum tíma bók sem hæstv. forsrh. hefur mikla unun af að lesa og jafnvel auglýsa, er farinn að hafa skilning á því að líklega sé kerfið á Vesturlöndum ekki svo slæmt að ekki megi nokkuð af því læra. Og hann hefur lýst því yfir, sá ágæti maður, að að því sé stefnt að rúblan geti verið skráð á alheimsmörkuðum fyrir árið 2000 og að fjármagnsmarkaðurinn í Sovétríkjunum þurfi að taka þeim breytingum að hann gangi í átt til þess kerfis sem ríkir nú á Vesturlöndum. En hér uppi á Íslandi sest að völdum ríkisstjórn sem lýsir því yfir að allt þetta, allt þetta starf sem hefur átt sér stað á Vesturlöndum, þetta frelsi á fjármagnsmarkaði, þetta frelsi í efnahagsmálum, sé líklega á misskilningi byggt og það stafi í raun og veru allt illt frá því að íslenska ríkisstjórnin á sínum tíma, reyndar undir forustu hæstv. forsrh., stóð að því að breyta lánsfjármarkaðinum, fjármagnsmarkaðinum, efnahagsmálum, í átt til þessa frjálsræðis. Það hlýtur að vera krafa þeirra sem taka þátt í stjórnmálalegri umræðu að fá betri skýringar en gefnar hafa verið hjá hæstv. forsrh. á þeirri stefnubreytingu sem nú hefur átt sér stað.
    Äuðvitað kemur engum á óvart að Alþb. hafi þá stefnu að vilja stjórna með miðstýringu og handafli. Það kemur hins vegar á óvart að flokkur sem kennir sig, a.m.k. erlendis, við frjálslyndi, og ég veit að hæstv. forsrh. er gjörkunnugur þeim alþjóðlegu samtökum sem frjálslyndir hafa myndað því að Framsfl. er einn þeirra flokka, og undir forustu hæstv. forsrh. skuli nú kúvenda svo mjög í þessum efnum. Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann hafi í viðtölum við þá stjórnmálaforingja í Vestur-Evrópu, sem hann hittir reglulega, spurt þá að því hvort meira frelsi á fjármagnsmarkaði, eins og tekið var upp á Íslandi, geti verið ástæðan fyrir þeim

óförum sem hafi átt sér stað hér á landi, hvort hann hafi spurt þá að því hvort þeir mundu vera tilbúnir til þess að söðla um og færa kerfið í þeirra löndum í átt til þess sem hæstv. forsrh. reynir hér á landi. Ef marka má þá stefnu sem þessir flokkar fylgja þar sem þeir ráða ríkjum hygg ég að svör þeirra yrðu neikvæð. Þetta eru auðvitað undirstöðuatriði. Þetta eru kannski þau pólitísku stefnumál sem tekist er á um í þessu þjóðfélagi þessa stundina. Eigum við að hverfa frá frjálsræðisstefnunni og til handaflsstefnunnar, til haftabúskapar, til sósíaliskrar stefnu eins og hún var rekin á millistríðsárunum og skömmu eftir stríð, eða eigum við að halda áfram á þeirri braut sem við höfðum markað fyrir nokkrum árum síðan og var mörkuð vegna þess að við töldum þá, og sumir telja enn að hún leiði til þeirrar niðurstöðu að lífskjör batni hér á landi.
    Þegar Sjálfstfl. sagði á lokadögum síðustu ríkisstjórnar að hann vildi ekki standa að mjög miklum millifærslum en fremur beita gengismálunum byggðist það á því meginsjónarmiði að millifærslur mismunuðu atvinnuvegunum auk þess sem þær væru aðeins bráðabirgðaúrræði því að millifærslur þýða ekkert annað en það að peningar eru teknir af einum og færðir yfir til annarra.
    Ég skal viðurkenna það að Sjálfstfl. og formaður hans lögðu sig fram um að ná samkomulagi í þeirri ríkisstjórn. Það var gert með því að taka tillit til óska og tillagna annarra stjórnmálaforingja sem áttu aðild að þeirri
ríkisstjórn og meira að segja gengum við svo langt í Sjálfstfl. að fallast á nokkrar millifærslur ef hægt væri að hreyfa gengið meira til en tillögur Framsfl. og Alþfl. gerðu ráð fyrir. Það tókst ekki og því fór sem fór eins og öllum er í fersku minni.
    Það lá mjög mikið á hjá hæstv. ríkisstjórn á fyrstu dögunum. Hæstv. forsrh. var óþreytandi í fjölmiðlum að lýsa því að ekki mætti bíða. Það yrði að gera ráðstafanir strax til þess að bjarga atvinnuvegunum. Og fyrstu aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar miðuðust við það að sjávarútvegurinn væri ekki að meðaltali rekinn með halla. Allar fyrstu aðgerðirnar miðuðu að þessu og því var lýst yfir að með þeim aðgerðum mætti reikningslega sjá að sjávarútvegurinn væri rekinn á núlli eins og stundum er sagt. Það er þess vegna ekki úr vegi, virðulegur forseti, að rifja upp í örstuttu máli hverjar þessar fyrstu aðgerðir voru. Ég hef nefnt það fyrr í minni ræðu að hæstv. ríkisstjórn tók erlent lán að fjárhæð 800 millj. kr. Það lán var að vísu ekki tekið í einu lagi heldur átti að takast smám saman fram til næsta vors. Þessir fjármunir voru síðan lánaðir Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og áttu að standa undir útgreiðslum sjóðsins til þess að hækka verð til framleiðenda. Skömmu eftir að útgáfa bráðabirgðalaganna átti sér stað stóð hæstv. sjútvrh. í pontu á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins og lýsti því yfir, gagnstætt því sem maður gæti haldið miðað við texta bráðabirgðalaganna, að þessi lán yrðu ekki endurgreidd af hálfu Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Þetta þýðir m.ö.o., virðulegur forseti,

að hér var um hreina lántöku ríkissjóðs að ræða. Þetta þýðir að fyrstu aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar miðuðust við það að auka erlenda lántöku ríkissjóðs til þess að greiða með útflutningsstarfsemi landsmanna.
    Allir hljóta að sjá að slík stefna boðar ekki gæfu. Það getur ekki verið mögulegt fyrir þjóð sem stundar fiskveiðar og fiskvinnslu í jafnstórum stíl og Íslendingar að tekin séu erlend lán til þess að borga með þeirri vöru sem við flytjum út, einfaldlega vegna þess að það blasir við að gengi íslensku krónunnar er of hátt skráð.
    Ég ætla, virðulegur forseti, að bíða með það að ræða um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina þar til við ræðum það frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem um það mál fjallar og er á dagskrá þessa fundar. Mig langar hins vegar til þess að spyrja hæstv. forsrh., jafnvel þótt aðeins hafi heyrst um það mál í blöðum, hvort gengið hafi verið frá niðurgreiðslum á ull til ullariðnaðarins og hvernig afkoma fyrirtækja í ullariðnaði hafi breyst vegna þessa opinbera stuðnings. Ég rifja það upp að ætlunin var að þetta gæti bætt afkomu fyrirtækja í ullariðnaði um 5% af tekjum.
    Ég vil í þriðja lagi, virðulegur forseti, spyrja hæstv. forsrh. að því hvort ekki sé rétt hjá mér að eitt af því sem átti að koma fiskvinnslu og sjávarútvegi á núllpunkt hafi verið að lækka raforkuverð til fiskiðnaðar, einkum og sér í lagi til þeirra fyrirtækja þar sem um jafna sólarhrings- og ársnotkun væri að ræða. Mig minnir, af þeim gögnum sem ég sá á þeim tíma, að gert væri ráð fyrir þessu í útreikningum hæstv. ríkisstjórnar. Á þeim tíma var talað um 25% lækkun. Mér er sagt nú að þetta mál sé í nefnd á vegum hæstv. ríkisstjórnar. Nú þremur mánuðum síðar er málið í nefnd hæstv. ríkisstjórnar, og mér hefur skilist á svörum hæstv. iðnrh. að hér sé mikið vandamál á ferðinni því að hæstv. ríkisstjórn hafi allt í einu uppgötvað það að ef á að lækka verð á einum þá þurfi að hækka verð á öðrum, nema hæstv. ríkisstjórn ætli enn að auka erlendar lántökur með því að greiða minna af erlendum lánum til baka en efni stóðu til fyrir þessa breytingu. ( Forseti: Þar sem nú er runninn upp tími þingflokksfunda vill forseti í fyrsta lagi vekja athygli hv. ræðumanns á því og jafnframt geta þess að ætlunin mun vera að fresta fundi til kl. hálfníu, þ.e. vegna þingflokksfunda til kl. sjö og vegna matmálstíma til kl. hálfníu og þess vegna gefa hv. ræðumanni kost á að gera hlé á ræðu sinni ef hann kýs svo, ella ljúka ef hann vill það og á stutt eftir. En annars eru fjórir hv. þm. á mælendaskrá.)
    Virðulegur forseti. Ég hafði rétt lokið mínum inngangsorðum. Ég kýs því að gera hér hlé á ræðu minni. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég var þar kominn máli mínu að ég var að fjalla um nokkur atriði í svokölluðum fyrstu aðgerðum hæstv. núv. ríkisstjórnar og hafði fyrir hlé rætt nokkuð um raforkuverð til fiskiðnaðar og beint fsp. til hæstv. forsrh. um það mál, bent á að það hefði komið í ljós sem sjálfsagt flestir vissu að

ekki verður hægt að lækka raforkuverð til sumra notenda nema hækka til annarra ef ekki á að vera hætta á því að orkuöflunar- og orkudreifingarfyrirtæki verði rekin með halla sem þýðir m.ö.o. að erlendar lántökur aukast umfram það sem áætlað hafði verið.
    Í því sambandi er kannski rétt að minna á að samkvæmt fyrstu aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar eiga gjaldskrár fyrirtækja á vegum ríkis eða sveitarfélaga að gilda óbreyttar til 28. febr. 1989. Nú hefur komið í ljós á undanförnum dögum að fyrirtæki, eins og orkufyrirtæki, eru rekin með stórkostlegum halla, þannig að augljóst verður að um talsverða hækkun á gjaldskrá verður að ræða 28. febr. eða dagana þar á eftir.
    Í ríkissjónvarpinu í kvöld og sjálfsagt í öðrum fjölmiðlum var jafnframt sagt frá niðurstöðu starfshóps sem kannaði málefni Ríkisútvarpsins. Þar kom fram að ætlunin er, og að manni skildist lá fyrir samþykkt hæstv. ríkisstjórnar þar að lútandi, að hækka gjaldskrá Ríkisútvarpsins um 20--30% hinn 1. mars nk. Þetta er táknrænt fyrir það sem gerist þegar verðlagi er haldið niðri. Það hleðst upp eins konar uppistöðulón og þegar löggjöf um bann við verðlagshækkunum fellur úr gildi má búast við stórkostlegum verðbreytingum og gífurlegri verðbólguholskeflu.
    Frv. sem hér er til umræðu fjallar m.a. um launastöðvun og talsverður tími hefur farið í það í hv. Ed. að ræða um þau lagaákvæði í frv. sem fjalla um kjarasamninga. Hæstv. ríkisstjórn, undir forustu hæstv. forsrh., breytti bráðabirgðalögunum í hv. Ed., þannig að niður var felld 2. mgr. 4. gr., en hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Verkbönn, verkföll, þar með taldar samúðarvinnustöðvanir, eða aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi mæla fyrir um, eru óheimilar.``
    Með því að fella þetta ákvæði úr gildi var gefið í skyn að nú gætu aðilar hafið kjarasamninga. Það urðu því æðimikil vonbrigði þegar í ljós kom að í raun hefðu bráðabirgðalögin frá því í maí aldrei bannað mönnum og samtökum að ræða sín mál, og eftir stóð sú staðreynd að samningarnir gilda a.m.k. fram til 15. febr. og óheimilt er að semja um kjaraatriði samninga nema að þau taki gildi eftir 15. febr. Og að sjálfsögðu eru verkbönn, verkföll og samúðarvinnustöðvanir óheimilar samkvæmt eðli máls.
    Vegna þeirrar óvissu sem skapaðist af þessum sökum ákvað Sjálfstfl., sem í upphafi bar ábyrgð á þessum lögum ásamt Framsfl. og Alþfl., að styðja þær tillögur sem fram höfðu komið í efri deild, annars vegar frá Kvennalistanum og hins vegar frá Borgfl., um að fella úr gildi launastöðvun um leið og bráðabirgðalögin tækju gildi að lokinni samþykkt Alþingis, en það þýðir að kjarasamningar komast í gildi á ný.
    Þetta hefur að sjálfsögðu það óhagræði í för með sér, sem öllum er kunnugt um, að kjarasamningar gilda til misjafnlega langs tíma, en það er einmitt eðli kjarasamninga að slíkt gerist. Hæstv. ríkisstjórn og talsmenn hennar hafa gert mikið veður út af þessu.

Þeir hafa bent á að með þessu sé verið að mismuna samningsaðilum á vinnumarkaðinum en geta þess ekki að þegar hæstv. ríkisstjórn var mynduð breytti hún ákvæðum í bráðabirgðalögum ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar á þá lund að í stað þess að kjarasamningarnir giltu til 10. apríl 1989, sem var sú dagsetning sem Verkamannasambandið stóð fyrir að sett yrði í kjarasamninga --- svokallaðir Akureyrarsamningar gilda til þess tíma --- var þessu ákvæði breytt í 15. febr. 1989. Með því hafði hæstv. ríkisstjórn sjálf sett inn lagaákvæði sem augljóslega urðu til þess að samningstíminn varð misjafn. Það er þess vegna harla einkennilegt að hlusta á það frá hæstv. ríkisstjórn að hún nú segi að stjórnarandstaðan geti ekki verið þekkt fyrir að flytja slíka brtt. á rökum sem gilda alveg jafn vel gegn þeirri breytingu sem hæstv. ríkisstjórn stóð að þegar hún tók við völdum. Auðvitað eru á þessu skýringar sem nú hafa komið fram. Það kemur nefnilega í ljós að þessum ákvæðum var breytt vegna kröfu einstakra stjórnarliða og hæstv. ríkisstjórn hefur ekki sterkari stöðu á Alþingi Íslendinga en svo að hún verður að halda í hvert og eitt atkvæði stjórnarliða.
    Það hefur talsvert verið rætt um hvort hæstv. ríkisstjórn sé meirihlutastjórn í þeim skilningi að hún sé starfhæf meirihlutastjórn. Hæstv. ríkisstjórn hefur boðað til samningaviðræðna við stjórnarandstöðuna til þess að ræða hugsanlegar breytingar á fyrirliggjandi frv. sem nú eru til umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Þegar þær viðræður höfðu farið fram tvisvar sinnum og í ljós kom að stjórnarandstöðuflokkarnir stóðu fast á sínum sameiginlegu brtt. í efri deild hafði hæstv. ríkisstjórn ekkert meira við stjórnarandstöðuna að tala.
    Það hefur komið í ljós frá því að síðari fundur stjórnar og stjórnarandstöðu var haldinn í dag að væntanlegur varaformaður Borgfl. hefur upplýst í sjónvarpsviðtali að Borgfl. muni standa að þeim brtt. sem þeir fluttu í efri deild og ef um samstarf hæstv. ríkisstjórnar og Borgfl. eigi að vera að ræða hljóti hæstv. ríkisstjórn að taka upp stjórnarmyndunarviðræður við Borgfl., líkt og gert var þegar hæstv. ríkisstjórn var mynduð fyrr á þessu hausti.
    Þetta er athyglisvert því að með þessari yfirlýsingu er því lýst yfir að borgaraflokksþingmenn hv. muni standa með þeim tillögum sem þeir sjálfir fluttu í efri deild og standa að þeirri stefnu sem þeir mörkuðu þar. Hins vegar sýnist hæstv. ríkisstjórn hafa eitthvað það uppi í erminni sem gefur til kynna að þeir geti náð þessu lagafrv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum fram án atbeina ríkisstjórnarinnar einnar. Svo mikill var viljaskortur hæstv. forsrh. og annarra talsmanna ríkisstjórnarflokkanna á fundi með stjórnarandstöðunni í dag, að gera verður ráð fyrir að huldumennirnir séu u.þ.b. að koma í ljós.
    Ég ætlast ekki til þess að hæstv. forsrh. staðfesti þetta eða ekki. Auðvitað hlýtur hæstv. ríkisstjórn í sinni veiku stöðu að reyna að koma fram málum. En ég verð að álykta sem svo að loknum þessum sameiginlega fundi í dag að ríkisstjórnin hæstv. hafi

tekið þá ákvörðun að ekki sé hægt að ganga að málamiðlunartillögum stjórnarandstöðunnar.
    Ég segi, virðulegur forseti, málamiðlunartillögum því að einungis var um að ræða að fallast á þær tillögur sem stjórnarandstöðuflokkarnir voru sammála um. Þær tillögur snúa annars vegar að svokölluðum Atvinnutryggingarsjóði og hins vegar að kjarasamningum. Ég ætla ekki frekar að ræða um það að sinni.
    Þegar hæstv. ríkisstjórn boðaði sínar fyrstu aðgerðir var það eitt meðal þeirra atriða sem þá voru nefnd að lækka skyldi raunvexti. Með leyfi forseta var sagt í málefnasamningi: ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir 3% lækkun meðalraunvaxta á spariskírteinum og öðrum skuldabréfum ríkissjóðs í samningum við innlánsstofnanir og lífeyrissjóði.`` Þetta loforð var síðan reiknað inn í rekstrargrundvöll útgerðar og fiskvinnslu til þess að bæta afkomu þessara greina. Nú hefur það komið í ljós að þetta hefur ekki átt sér stað nema að mjög litlu leyti. Raunvextir hafa lækkað kannski um hálft prósentustig en ekki þrjú prósentustig. Og það sem meira er, ríkisstjórnin hæstv. lofaði því að þetta kæmi til framkvæmda á næstu vikum. Staðreyndin er sú að vextir á ríkisskuldabréfum og spariskírteinum ríkissjóðs hafa lækkað mjög lítið, ekki nema brot af þessu sem hér er lýst yfir, og ýmsir bankamenn, þar á meðal bankastjóri Búnaðarbankans, banka hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, hafa lýst því yfir að ekki komi til greina að lækka vexti frekar, enda séu bréfin óseljanleg. Í svari sem hæstv. fjmrh. gaf við fsp. minni um þetta atriði kom í ljós að birgðir í spariskírteinum eru nú tæplega 2000 millj., og sumir bankanna, þar á meðal sumir ríkisbankanna, selja eða ætla sér að selja spariskírteinin með afföllum sem þýðir auðvitað ekkert annað en það að það er verið að bjóða betri ávöxtunarkjör. Sú litla raunvaxtabreyting sem átti sér stað hefur þannig ekki orðið virk því að skuldabréfin seljast ekki. Ég spyr hæstv. forsrh. að því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætli að standa við kannski eitthvert veigamesta loforð sem hæstv. ríkisstjórn gaf, en það sneri einmitt að lækkun raunvaxta um 3%.
    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. forsrh. um lánskjaravísitöluna. Það er ljóst að hæstv. forsrh. lagði mjög mikið upp úr því, bæði í síðasta stjórnarsamstarfi og einkum í því sem nú á sér stað, að breytingar yrðu gerðar á lánskjaravísitölunni. Að vísu fór nokkuð á milli mála hver hafði beðið um þessar breytingar. Alþýðusamband Íslands vísaði því frá sér en hæstv. forsrh. sagði að þetta hefði verið gert vegna kröfu frá samstarfsflokkunum, ef marka má viðtal sem hann átti við DV á sínum tíma og margoft hefur verið rætt um í þingsölum. Nú er mér tjáð að hæstv. ríkisstjórn hyggist breyta lánskjaravísitölunni, útbúa nýja vísitölu þar sem vísitala launa hafi helmings vægi á móti framfærsluvísitölu og vísitölu byggingarkostnaðar. Mér er einnig tjáð að gamla lánskjaravísitalan eigi jafnframt að vera í gildi og að enn eigi að heimila að velja viðmiðun við gengi sem lánskjaravísitölu. Þetta þýðir að við getum haft þrjár

til fjórar lánskjaravísitölur í gangi frá næstu áramótum. Það verður að teljast nokkuð furðulegt, miðað við allan þann áróður sem hafður hefur verið uppi gegn lánskjaravísitölu, að hæstv. forsrh. þurfi nú að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að þola ekki aðeins eina tegund af lánskjaravísitölu heldur ætlar hann að hafa þrjár til fjórar í gangi.
    Ég spyr hæstv. forsrh.: Telur hann að þetta muni einfalda málið? Telur hæstv. ráðherra að þessar breytingar sem gerðar verða séu launþegum til góðs þegar þess er gætt að í svari hæstv. viðskrh., sem lagt var fram fyrir örskömmu síðan á hinu háa Alþingi, kom í ljós að ef skoðuð eru síðustu átta ár, eða frá því að lánskjaravísitalan tók gildi samkvæmt svokölluðum Ólafslögum sem mig minnir að hafi verið í febrúar 1979, hefði nýja vísitölugerðin nánast undantekningarlaust leitt til meiri fjármagnsútgjalda en sú sem nú er í gildi. Mér finnst, virðulegur forseti, sem hæstv. forsrh. þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum um þetta atriði þegar verið er að ræða um fyrstu aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar. Þess vegna fer ég fram á það að hann gefi Alþingi Íslendinga a.m.k. vísbendingar um hvað komi til með að gerast um næstu áramót því mér er t.d. kunnugt um að nú í dag, 19. des., hafi bankarnir ekki hugmynd um hvað komi til með að gerast í byrjun næsta árs. Mér er enn fremur kunnugt um að Hagstofu Íslands hafi verið falið að útbúa lagafrv. um launavísitölu og það frv. hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi. Óska ég eftir því að hæstv. ráðherra segi frá því, ef hægt er, hver staða þessa máls er þannig að hægt sé að eyða þeirri óvissu sem allar umræður hæstv. ríkisstjórnarinnar og einkum og sér í lagi einstakra ráðherra, þar á meðal hæstv. forsrh., hafa leitt til.
    Mig langar vegna ákvæða --- það er kannski eðlilegra að geyma þá umræðu þar til næsta mál kemur til umræðu þar sem ég hef, virðulegur forseti, farið nokkuð vítt og breitt yfir frv. og spurt spurninga er varða þau mál sem eru til umræðu og sé ég því ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt. Vegna umræðna
um gengismál væri vissulega athyglivert að heyra álit hæstv. ráðherra á hugmyndum þeirra sem nú eru að gera athuganir fyrir atvinnufyrirtækin í landinu þegar gert er ráð fyrir því að um 15% gengisfellingu verði að ræða á næstunni. Þeir sem hlustuðu á kvöldfréttir Sjónvarpsins heyrðu glöggt að fulltrúar ullariðnaðarins eru nú mjög bjartsýnir enda treysta þeir á að gengi íslensku krónunnar verði leiðrétt um 15% og setja það inn í sína útreikninga.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt frekar og segi hér amen eftir efninu.