Fyrirspurn um þjóðargjaldþrot o.fl.
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að hér hafa orðið þessar umræður, sem eru alveg bráðnauðsynlegar, um störf þingsins fram að jólum og fagna því að hæstv. forsrh. hefur lagt til að á fimmtudaginn næsta verði svarað fsp. og vil taka undir og styðja þá tillögu og mælast til þess við hæstv. forseta að reynt verði að standa við það.
    En önnur ástæða er fyrir því að ég kem í ræðustól sem ég hygg að hæstv. forseti átti sig á. Ég hef auðvitað fullan skilning á því að störf hæstv. forseta eru erfið við þessar aðstæður og það stjórnleysi sem ríkir vegna þess að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur ekki þann starfhæfa meiri hluta sem hún þarf á að halda. Því er mjög erfitt fyrir virðulegan forseta að starfa við slík skilyrði þannig að ég hef fullan skilning á því hve erfitt það er fyrir hann. En þannig er mál með vexti að fjöldi þingsályktunartillagna bíður umræðu. Ég hygg að þær séu á fjórða tuginn og margar hverjar voru lagðar fram í októbermánuði. Þar á meðal hafa tvær þáltill. sem ég lagði þá fram komist stundum á dagskrá, síðast komst önnur á dagskrá á fimmtudaginn í síðustu viku, en ekki fengist ræddar, m.a. vegna umræðna utan dagskrár og umræðna um þingsköp, en þó ekki síður af öðrum ástæðum. Þess skal getið að umræður um þingsköp hafa ekki verið hafnar af stjórnarandstæðingum eingöngu heldur ekki síður af stjórnarliðum, eins og ég veit að hæstv. forseti man, t.d. síðasta fimmtudag þegar slíkar umræður urðu æðilangar vegna fjarveru þingmanna við umræður um búminjasafn á Hvanneyri.
    Nú langar mig, vegna þess að áður höfum við rætt okkar á milli um þessi mál, að spyrjast fyrir um, fyrst að fundi er stefnt á fimmtudag og ætlunin er þá að hafa fyrirspurnir eins og venja er á fimmtudögum, hvort ekki gefst þá tími til þess á fimmtudaginn að veita þeim sem vilja flytja sínar framsöguræður og ræða sínar þáltill., a.m.k. þær sem voru lagðar fram í október, tækifæri til þess að taka það mál fyrir á þeim fundi. Ég veit að virðulegur forseti er allur af vilja gerður að koma til móts við óskir þingmanna og vegna þess að hæstv. forsrh., sem er nú yfirstjórnandi þessa alls eins og allir vita, ríkisstjórnin hæstv. ber ábyrgð á þessum störfum öllum saman, leggur til að fyrirspurnatími verði á fimmtudeginum langar mig til þess að bæta við þá tillögu hvort ekki sé hægt að ræða þáltill. þennan fimmtudag sem er sá dagur sem fundir eru venjulega í sameinuðu þingi.