Bætt samkeppnisstaða innlends skipaiðnaðar
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu er búin að liggja lengi fyrir þinginu og það er líklega mánuður eða svo síðan ég setti mig á mælendaskrá, en ég ætla að nýta minn tíma rétt til að víkja að nokkrum þáttum þessa máls þó að fennt sé kannski yfir sumt af því sem ég vildi sagt hafa þegar tillagan var tekin upp til umræðu.
    Ég tel að þáltill. sé mjög góðra gjalda verð, hún hreyfi við afar brýnu máli. Hún er flutt hér öðru sinni og það segir okkur að það hefur dregist allt of lengi að taka á þeim þáttum sem að er vikið í tillögunni. Það er reyndar ekki um ár að ræða heldur væri nær að tala um áratugi því að það skortir mjög mikið á að við höfum náð þeirri skipan á þennan þátt iðnaðar hjá okkur sem æskilegt væri.
    Ég þekki það frá þeim tíma sem ég sinnti iðnaðarmálum í ráðuneyti að það var enginn hægðarleikur að koma þar fram úrbótum, en þó tókst á þeim tíma að breyta mörgu í samráði og samvinnu við hagsmunaaðila til að tryggja verkefni í landinu og til þess að reyna að sjá fram til mála til lengri tíma. Það er auðvitað það sem skiptir máli að við reynum að ná okkur niður úr þeim sveiflum í verkefnum sem einkennt hafa þessa iðngrein og endurnýjun á okkar fiskiskipastóli og viðhald fiskiskipastólsins þannig að við byggjum þetta upp hönd í hönd þannig að bæði þróist hér og dafni verkþekking sem þessu tengist og það hagræði sem á að vera að því að hafa hér vel menntaða iðnaðarmenn sem geta leyst verkefnið sómasamlega.
    Það er enginn sem gerir kröfu til þess að innlendur skipasmíðaiðnaður sitji við allt annað borð heldur en keppinautar erlendis, en það skortir mjög mikið á að jafnrétti ríki í þessum efnum eins og komið hefur verið að og eins og hæstv. ráðherra staðfesti í máli sínu áðan. Þetta á m.a. og ekki síst við um fjárhagslega aðstöðu þeirra sem taka að sér verk hér innan lands, að ekki sé nú minnst á það að á tímum þegar verðbólga er mikil, eins og oft hefur verið hér á undanförnum áratugum, þá verkar hún mjög illa á það kerfi sem hér er um að ræða.
    Ég held því að þau atriði sem vikið er að í tillgr. og snúa að hinum viðskiptalega grundvelli og að bankastofnanir og sjóðir veiti sambærilega fyrirgreiðslu við það sem tíðkast erlendis sé ein þungamiðjan í þessu máli, kannski eitt það mikilvægasta og það sem stjórnvöld eiga að geta bætt úr ef vilji er fyrir hendi. Ég efa það ekki að hjá núv. hæstv. ríkisstjórn sé hugur í þá átt að bæta hér úr og ég vil leggja á það áherslu að það þarf að gerast fljótt vegna þess hvernig horfurnar eru á vinnumarkaði innan lands og vegna þeirra uppsagna og samdráttar sem blasir við hjá þessari iðngrein, skipasmíðaiðnaðinum og iðnaði sem honum tengist.
    Ég legg einnig á það áherslu, virðulegur forseti, að hér er ekki bara um málmiðnaðinn að ræða, hér er fjölþættur iðnaður á ferðinni sem tengist skipasmíðum og viðhaldi skipanna. Það er m.a. rafiðnaður og það er smíði á margháttuðum búnaði þar sem við höfum

náð býsna langt á undanförnum árum, þar sem innlendir aðilar hafa t.d. smíðað þau fljótandi frystihús sem eru í okkar frystitogurum sem eru orðnir allmargir. Hér er verkkunnátta til staðar í þessum efnum og það er hin mesta óhæfa ef við missum þá kunnáttu niður og flytjum störfin úr landi með því að hleypa erlendum aðilum miklu lengra en sanngjarnt getur talist inn í þessi verkefni og meira en þyrfti að vera.
    Ég hef fyrir framan mig mörg sýnishorn varðandi útboð og verkefni sem hafa farið til útlanda að ég tel á fölskum forsendum. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara að vitna til slíkra dæma, en þau eru mörg. Ég vísa m.a. til greinar sem kom í Morgunblaðinu 29. nóv., eftir Ingólf Sverrisson, um stórfelldan útflutning verkefna þar sem hann rekur í skýru máli ýmis dæmi um þetta og sýnir fram á að þó að menn teldu sig vera að gera hagkvæma samninga hefur annað orðið uppi á teningnum áður lauk. Þau tilboð erlend sem menn gengu að, kannski lægri í krónum reiknað í upphafi en þau innlendu, reyndust ekki standa undir því sem þar var lofað og afhendingartími fara mjög úr böndum. Því var um skeið haldið fram og það kannski með réttu í vissum tilvikum að innlendar stöðvar stæðust ekki skilmála varðandi afhendingu og verkhraða. Ég held að þetta hafi breyst til batnaðar og ef litið er til hinna erlendu aðila og dæma þar að lútandi, t.d. varðandi breytingar á togskipum undanfarin ár erlendis, kemur í ljós að þar hefur orðið um mjög verulegar tafir að ræða til ómælds tjóns fyrir viðkomandi fyrirtæki, útgerðaraðila og fiskvinnslufyrirtæki sem staðið hafa að og tengjast þessari útgerð.
    Það er einnig rétt að nefna að samkeppnisstaðan er ekki alltaf sem skyldi. M.a. hygg ég að þess séu nokkur dæmi að þeir aðilar sem eru að vinna hér fyrir innlenda aðila að útboðsgerð eru oft með hagsmunatengsl eða geta verið með hagsmunatengsl erlendis í sambandi við umboð og annað þess háttar sem er full ástæða til að gefa gaum, hagsmunatengsl sem geta orðið til þess að þeir ekki standi að málum eins og skyldi. Það er auðvitað erfitt að skera úr um svona atriði, en það er sjálfsagt fyrir þá sem í hlut eiga og opinbera aðila að reyna að vernda okkar innlendu hagsmuni, einnig gagnvart slíkum baksamningum ef rétt er að kalla það því nafni.
    Ég vil, virðulegur forseti, um leið og ég vænti þess að till. þessi fái hér eðlilega og góða meðferð, vænta þess að hæstv. ríkisstjórn taki á þessum málum, þeir ráðherrar sem í hlut eiga. Svo vill til að sami ráðherrann fer nú með málefni viðskipta og iðnaðar sem ætti að valda því að hægara er um vik að koma við úrbótum varðandi hina viðskiptalegu hlið málanna og auðvitað reynir einnig á hæstv. sjútvrh. í þessum efnum til að reyna að bæta úr því sem snýr að hans ráðuneyti og hans valdsviði. Á sínum tíma, þegar ég kom að þessum málum, var einmitt um að ræða náið samráð iðnaðar- og sjávarútvegsráðherra á þeim tíma og alveg ljóst að það gengur ekki að koma viðunandi skipan á þessi mál nema menn geti litið yfir þrengstu

skammtímahagsmuni og reynt að stilla þessi mál saman horft til lengri tíma út frá þjóðhagslegu mati.
    Ég læt þetta, virðulegur forseti, nægja hér. Ég ræddi þessi mál við umræður utan dagskrár 19. okt. sl., gildi okkar skipaiðnaðar og möguleika okkar á því sviði. Það má vel vera að við þurfum að taka tillit til alþjóðlegrar þróunar í sambandi við þessi efni, en ég hygg þó að hér séum við með þær aðstæður varðandi okkar fiskiskipastól sérstaklega að við eigum að líta á það sem hagkvæmt framtíðarverkefni að viðhalda okkar flota hér sem mest innan lands og einnig að stunda hér skipasmíðar þar sem við erum samkeppnisfærir.