Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson):
    Herra forseti. Þetta mál hefur verið æðimikið rætt bæði í þessari hv. deild og eins í Nd. og raunar líka í fjölmiðlum og manna á meðal. Það þarf kannski ekki þess vegna að hafa mjög langt mál hér, enda má segja að það sé rétt að að stofni til a.m.k. sé þetta gamalkunnugt mál eins og hv. frsm. meiri hl. gat um.
    Við í minni hl. leggjum til að frv. verði fellt. Undir það nál. skrifa Halldór Blöndal, Júlíus Sólnes og Eyjólfur Konráð Jónsson. Engu að síður vildum við greiða fyrir því að málið kæmi hér til 2. umr. og fengi afgreiðslu við þá umræðu. Ég leyfi mér hins vegar að leggja til að þar sem þetta er í síðari deild verði 3. umr. ekki tekin strax, ekki fyrr en við sjáum hvernig reiðir af öðrum tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstjórnar, því að það er auðvitað alveg rétt, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði áðan, að þetta er einn af þeim pinklum sem þar eru á ferðinni. Það getur ekki seinkað neitt framgangi málsins eða þingstörfum þó að 3. umr. verði frestað, enda þarf deildin að hafa a.m.k. eitt mál á sinni dagskrá á milli funda meðan við bíðum eftir að sjá hvernig fram vindur með önnur mál. Ég held að það séu heppileg vinnubrögð að við mundum ekki flytja okkar brtt. fyrr en við 3. umr. sem yrði þá væntanlega ekki í dag heldur á morgun. En við munum að sjálfsögðu ekki tefja framgang málsins þó að þetta verði gert.
    Við vitnum til nál. úr fjh.- og viðskn. Nd. og með leyfi forseta ætla ég að rekja það nál. Það var mjög vel unnið og skýrir málið kannski betur og í styttra máli, eins og ritað mál oft gerir nú, en ég mundi gera í lengra máli. Ég les þá upp meginefni nefndarálitsins sem hljóðar á þennan veg:
    ,,Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði var upphaflega lagður á árið 1979 sem tímabundin tekjuöflun, en hefur þó verið framlengdur árlega síðan um eitt ár í senn. Álagningarhlutfall var í fyrstu 1,4% en hefur frá árinu 1984 verið 1,1% af fasteignamatsverði verslunar- og skrifstofuhúsnæðis.
    Núverandi ríkisstjórn hyggst nú tvöfalda skatthlutfallið í 2,2% sem jafngildir 140% hækkun þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar fasteignamats milli áranna 1988 og 1989. Þannig mun aðili sem í ár greiddi 100 þús. kr. í þennan skatt þurfa að inna af hendi 240 þús. kr. á næsta ári.
    Slík hækkun á einum skatti milli ára á sér fá ef nokkur fordæmi og er að dómi undirritaðra algerlega óréttlætanleg, ekki síst þegar þess er gætt að gjaldþol greiðenda þessa skatts fer nú í mörgum tilvikum minnkandi með samdrætti í atvinnulífinu.
    Raunar stefna eignarskattshækkanir núverandi ríkisstjórnar í áður óþekktar stærðir því að af skrifstofu- og verslunarhúsnæði í Reykjavík, sem er yfir 6 millj. kr. að fasteignamati, verður á næsta ári að greiða 6,4% í eignarskatta og fasteignagjöld nái stefna ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Þar af rynnu 5,15% til ríkisins í stað 2,3% í ár, en 1,25% til borgarinnar.
    Hækkun núverandi ríkisstjórnar nemur því 2,85%

af fasteignamati nái þessi áform fram að ganga. Slík stökkbreyting í skattlagningu er ekki aðeins gífurleg íþynging gagnvart þeim gjaldendum sem í hlut eiga heldur einnig efnahagsleg fásinna.
    Eign sem ber 6,4% skatt verður að skila eiganda 6,4% raunávöxtun til þess eins að unnt sé að greiða skattinn. Eignarskatturinn jafngildir í því tilviki 100% tekjuskatti af eignatekjunum. Til þess að skattur á þessar eignatekjur væri sambærilegur við hinn almenna tekjuskatt einstaklinga, eins og ríkisstjórnin ráðgerir að breyta honum, þ.e. 37,2%, þyrfti raunávöxtun eignarinnar að vera 17,2%.``
    Lengra skal ég ekki lesa. Menn sjá af þessum tölum að hér er auðvitað um fáránlega háan skatt að ræða. Auðvitað kemur engum til hugar að verslun og önnur sú starfsemi sem þarf yfir skrifstofuhúsnæði að ráða muni ekki þurfa að ná einhverjum tekjum til að greiða þennan skatt og auðvitað eru engir til að greiða skattana aðrir en almenningur í landinu svo og atvinnufyrirtækin. Því ættu menn að gera sér gein fyrir. Þessi skattur er því eins og allir aðrir skattar millifærsla á eignarrétti frá fólkinu og atvinnufyrirtækjunum til ríkisins. Auðvitað þarf ríkið að hafa tekjur, enginn okkar neitar því, en takmörk eru auðvitað fyrir því hve skattlagning í heild má vera há og matsatriði alltaf hvort á að leggja skattinn á menn með beinum sköttum eða að hve miklu leyti það er gert í óbeinum sköttum eins og þeim skatti sem hér er um að ræða. Heildarniðurstaðan verður sú sama, að eignarráð flytjast frá einstaklingum og atvinnufyrirtækjum til ríkisins. Þess vegna má endalaust þjarka um hvaða skattur sé góður og hver sé slæmur skattur. Enginn þeirra góður náttúrlega. Engu að síður held ég að niðurstaðan af þessum skatti réttlæti það ekki að styðja hann, svo gífurlega hár sem hann er, sprengir upp verðlag á leigumarkaði og setur einhver fyrirtæki á hausinn. Sumum finnst það vera af hinu góða. En í öllu falli lendir hann með einum eða öðrum hætti á almenningi í neysluvöruverðlagi.
    Það hefur raunar verið reiknað út að þessi skattur, hækkun hans nú, muni svara til 0,6% hækkunar vöruverðs þegar upp verði staðið. Það er sem sagt
rúmlega 1 / 2 % í verðlagi í landinu sem þessi skattur þýðir hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.
    Ég skil út af fyrir sig röksemdafærslu Samtaka um kvennalista í nál. Það er of mikið af verslunarhúsnæði og það má kannski þess vegna stemma stigu við frekari byggingum. En ég held að það þurfi ekki til að koma. Ég held að bæði verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé orðið svo mikið, ekki bara í Reykjavík heldur um land allt, að það muni ekkert verða byggt af því á næstu árum þannig að þessi skattur verkar ekkert á að draga úr þeim framkvæmdum sem engar verða. Best er þessu lýst í bréfi Sambands ísl. samvinnufélaga sem ég gat um við fyrri umræðu og skal ekki rekja að öðru leyti en því að þeir sögðu, sem það álit afhentu okkur, að dreifbýlisverslunin væri að leggjast af, ekki bara vegna þessa skatts heldur af mörgum öðrum ástæðum. En það verða litlar tekjur sem þessi skattur gefur af

verslunarhúsnæði sem búið er að leggja af og kannski leggja niður eða nota til geymsluhúsnæðis eða einhvers slíks. Vonandi nýtist það til einhverra góðra hluta, verður breytt í einhvers konar vinnustofur væntanlega, en verslunarhúsnæði verður það þá ekki lengur og engan skatt af því að hafa.
    En ég ætla ekki að tefja þessa umræðu, þvert á móti greiða fyrir því að málið verði núna afgreitt til 3. umr. Vonandi verður orðið við þeirri ósk, sem ég held að séu líka skynsamleg vinnubrögð fyrir deildina, að fresta 3. umr. þar til að betur skýrist, bæði í Nd. og þessari hv. deild, hvernig það mál muni æxlast, en óvissa er nú mjög mikil. Menn vita það varla í stjórnarandstöðu hvernig farið muni með afgreiðslu mála í Nd. núna í eftirmiðdag eða í kvöld og bæði við og þjóðin sjálfsagt öll bíður spennt eftir að vita hvað er að gerast á bak við tjöldin hjá stjórnarliðum og einhverjum sem hafa sérstakan áhuga á að tala við stjórnarliða, kannski semja við þá um eitt eða annað. Ég veit það ekki. Ég býst hins vegar við að fólkið í landinu fylgist með því sem gerist í Nd. í dag og hjá okkur á morgun. Við vitum ekkert hvernig vinnubrögð verða hérna þegar líður á kvöldið eða á morgun. Þess vegna held ég að það sé mjög æskilegt að fresta 3. umr. þessa máls.