Vinnubrögð í fjárhags- og viðskiptanefnd og
Þriðjudaginn 20. desember 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að færa hv. 5. þm. Vesturl. þakkir fyrir að vekja hér máls á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í hv. fjh.- og viðskn. Það er býsna makalaus lýsing sem þar var gefin og hv. þm. sem skipa minni hl. nefndarinnar hafa síðan staðfest hér í þessum umræðum.
    Hæstv. forsrh. kemur hér og segir: Það er eðlilegt að afgreiða vörugjaldsfrv. með miklu hraði. Það hefur legið hér fyrir í þinginu um allnokkurn tíma vörugjaldsfrv. Ég veit ekki betur en að fulltrúar minni hl. hafi fyrir löngu verið tilbúnir að standa að afgreiðslu þess út úr nefnd, en hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið sér saman um frv. og kjarni málsins er einmitt sá sem málshefjandi benti hér á að ríkisstjórnin hefur ekki enn lagt frv. í útfærðu formi fyrir hv. fjh.- og viðskn. Málið er afgreitt út úr nefndinni áður en hæstv. ríkisstjórn leggur frv. í útfærðu formi fyrir nefndina, og það er þetta sem er ámælisverð vinnubrögð. Og það liggur nokkuð ljóst fyrir að hér er ekki um neinar smávægilegar breytingar að ræða, heldur verulegar efnisbreytingar, þannig að sennilega má líkja því við að hér sé nánast flutt nýtt frv. og jafnvel fullkomið álitamál hvort ekki eigi að fara fram 1. umr. um málið upp á nýtt. Hitt er hins vegar alveg augljóst að það er lágmarkskrafa, ef hér á að viðhafa eðlileg og málefnaleg vinnubrögð, að frumvarpið í útfærðu formi sé lagt fyrir nefndina og hún geti fjallað um það þegar það hefur með þeim hætti verið þannig lagt fyrir nefndina. Allt annað er óþingleg og ómálefnaleg vinnubrögð. Og það verður með allri vinsemd að óska eftir því að áður en málið kemur hér til 2. umr. komi nefndin saman á ný og fjalli um málið þegar hæstv. ríkisstjórn hefur loksins komið sér saman um með hvaða hætti hún ætlar að bera frv. fram. Það er makalaust af hæstv. forsrh. að vera að hneykslast á því að frv. skuli ekki fá skjóta afgreiðslu þegar það á fundi í morgun var ekki tilbúið af hennar hálfu.
    Auðvitað er eðlilegt að hraða afgreiðslu þessa máls og ýmissa annarra hér. Á það hefur verið lögð rík áhersla, bæði af þm. stjórnarliðsins og stjórnarandstöðunnar, og engin dæmi hægt að sýna um það að reynt hafi verið að tefja framgang mála. Alveg sjálfsagt er að afgreiða mál með býsna miklu hraði úr nefndum, en það er ekki hægt að verja það að mál séu afgreidd úr nefndum áður en þau eru lögð fyrir þær í útfærðu formi. Þess vegna verður að gera þá eðlilegu kröfu að nefndin komi saman á nýjan leik og fjalli um málið.
    Vafalaust er það svo að þetta er ekki að vilja hv. formanns nefndarinnar sem er alkunnur að lipurð við stjórn þessarar hv. nefndar. Hér er verið að ganga erinda hæstv. fjmrh. sem hefur verkstýrt málum hér í þinginu með miklum eindæmum og á þann veg að flest er nú komið í óefni eins og lýst hefur verið. Þess vegna er það spurning til hv. formanns fjh.- og viðskn. hvort hann geti ekki á það fallist að nefndin ræði þetta á nýjan leik. Hún á að koma saman núna kl. 17. Ég geri fastlega ráð fyrir að forseti

deildarinnar viðurkenni og fallist á þá eðlilegu ósk að ekki séu fundir í hv. deild á meðan fundur er í hv. fjh.- og viðskn. Þá er unnt án þess að frekari tafir verði á störfum deildarinnar að ræða málið í nefndinni eftir að það hefur legið fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar í útfærðu formi. Þennan tíma væri þá líka unnt að nota til þess að efna til funda með þingforsetum og formönnum þingflokka um framhald þingsins og er mjög æskilegt að hæstv. forsrh. geri þá nákvæma grein fyrir því á slíkum fundi, sem ég tel eðlilegt og fer fram á að verði þá haldinn núna kl. 17, hvert á að verða framhald þingstarfa, hvaða mál ætlunin er að afgreiða með skaplegum hætti fyrir jólaleyfi þingmanna og að einhverri verkstjórn verði komið á afgreiðslu og skipan mála í þingdeildum og meðferð þeirra í þingnefndum því að augljóst er, eins og hér hefur komið mjög glöggt fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 1. þm. Reykn., að útilokað er að láta mál ganga áfram með þeim hætti sem nú er. Ég ítreka þess vegna þá fsp. mína til forseta deildarinnar og hæstv. forsrh. og hv. formanns fjh.- og viðskn. hvort ekki er unnt að fallast á það að nú kl. 17 fari þessir fundir fram og hæstv. forsrh. geri grein fyrir afstöðu stjórnarinnar í þessu efni og hv. fjh.- og viðskn. fái þá tóm til þess að fjalla um vörugjaldsfrv. að nýju eftir að það liggur fyrir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í útfærðu formi.