Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, eins og það liggur fyrir á þskj. 324. Efni þessa frv. er að opna fyrir möguleika í félagslegum kaupleiguíbúðum líkt og í almennum kaupleiguíbúðum, leigu með kaupum á eignarhluta í íbúð sem tryggi fólki öruggan afnotarétt af íbúðinni. Hér er um að ræða að leigjendur í félagslegum kaupleiguíbúðum eigi þess kost að kaupa sér 15% hlutareign í íbúðinni sem veiti ótímabundinn afnotarétt af henni.
    Í almennum kaupleiguíbúðum er nú heimilt að bjóða kaupleiguíbúðir á þeim forsendum að leigjendur kaupi skuldabréf framkvæmdaaðila og eignist 30% hlut í íbúðinni. Þegar um er að ræða aldraða eða öryrkja er heimilt að selja 15% hlut í eigninni. Hlutareign var hins vegar ekki lögfest í félagslega hluta kaupleigukerfisins.
    Nú hafa húsnæðissamvinnufélög og ýmis félagasamtök sem starfa að húsnæðismálum með það að markmiði að eiga og reka leiguhúsnæði í þágu félagsmanna sinna óskað eftir því við stjórnvöld að heimilað verði að leigjendur í félagslegum kaupleiguíbúðum eigi þess kost að kaupa sér 15% hlutareign í kaupleiguíbúð sem veiti ótímabundinn afnotarétt af henni. Þó æskilegt hefði verið að slík breyting sem hér er nú gerð hefði fylgt heildarendurskoðun á félagslega hluta húsnæðislánakerfisins sem nú stendur fyrir dyrum vil ég vænta þess að sú breyting sem hér er lögð til nái fram að ganga, en þessi breyting skiptir miklu máli fyrir láglaunafólk sem er undir tekjumörkum sem tilskilin eru í félagslega íbúðakerfinu.
    Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa fleiri orð um frv. Ég met það svo að það sé mjög brýnt að efla möguleika félagasamtaka sem að húsnæðismálum starfa til að koma á fót leiguhúsnæði með hlutareign í félagslega kerfinu.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. félmn.