Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vek athygli á að hér hafa átt sér stað mjög málefnalegar umræður um húsnæðismál og gagnlegar. Hæstv. húsnæðisráðherra hefur gefið mjög fróðlegar upplýsingar um stöðu þessara mála og um afstöðu sína yfirleitt til þessa mikilvæga málaflokks. Ég sé ástæðu til að vekja athygli á þessu vegna óstilltra viðbragða hv. 3. þm. Vesturl., formanns fjh.- og viðskn., þegar hv. 14. þm. Reykv. kvaddi sér hljóðs um húsnæðismálin fyrr í dag, sem ber undarlegan keim af því að stjórnarandstæðingum sé yfir höfuð talað ekki ætlað að taka til máls í deildinni.
    Eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmasyni við umræður um þingsköp í Sþ. hefur málþóf ekki átt sér stað hér í Ed. Það hefur verið vegna undarlegra vinnubragða stjórnarsinna sem þingstörf hafa gengið jafnilla og við verðum nú vitni að. Má raunar segja að það kóróni undarlegheitin í vinnubrögðunum að fjh.- og viðskn. kom saman til fundar kl. 9 í morgun og lauk störfum fyrir hálftíu og lá þá ekkert meira fyrir nefndinni, en síðan er búið að boða nefndarfund í fjh.- og viðskn. strax að loknum þeim fundi sem við sitjum nú á þó svo að engu máli hafi verið vísað til nefndarinnar síðar. Lýsir þetta með öðru fuminu og fátinu sem er á þessum störfum öllum.
    Ég vil líka vekja athygli á þeim umræðum sem hafa verið um að nauðsynlegt sé að gefa þingmönnum og starfsmönnum þinsins kost á að fá nokkurt hlé áður en dregur að jólum. Sjútvrn. hefur hins vegar boðað fund í ráðgjafarnefnd á Þorláksmessu kl. 9 að morgni og sé ég ekki eftir því, en vil á hinn bóginn benda á að í þessari nefnd eiga sæti þingmenn utan af landi, a.m.k. einn, það fullyrði ég. Allt er þetta upp á sömu bókina lært. Verkstjórn hér í þinginu er engin.
    Síðan bætist það við að á fundinum í morgun var það boðað, sem auðvitað kom ekki til greina, að haldinn yrði fundur í fjh.- og viðskn. í nótt. Ef fundur drægist fram eftir kvöldi og fram á nótt átti að boða til fundar í fjh.- og viðskn. Þetta eru dæmafá og dæmalaus vinnubrögð. Ástæðan fyrir því að mál hafa tafist er ekki sú að umræður hafi verið miklar í Ed. Í gær lauk fundi hér milli kl. 4 og 5 eða rétt upp úr 5. Við höfum verið hér og haft nógan tíma til að leggja harðar að okkur ef ríkisstjórnin hefði sjálf komið sér saman um málin, ef ríkisstjórnin hefði vitað hvernig hún vildi standa að vörugjaldinu, ef ríkisstjórnin hefði vitað hvernig hún ætlaði að standa að frv. til hækkunar á tekju- og eignarskatti, ef ríkisstjórnin t.d. hefði einhverja hugmynd um það enn þann dag í dag hvernig hún ætlar að standa að skattahækkunarfrv. á fjárfestingarsjóði þar sem m.a. stendur til að leggja 95 millj. kr. skatt á Lánasjóð ísl. sveitarfélaga, þar sem ákveðið er að skattleggja mjög verulega Iðnlánasjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins, en báðir þessir sjóðir sækja tekjur sínar og fjármagn til þeirra atvinnuvega sem þeir þjóna, annar til iðnaðarins og hinn til bænda, þannig að hugmynd ríkisstjórnarinnar er að skattleggja skattinn sem er alveg einsdæmi og á sér ekkert fordæmi --- ætlar sér

að skattleggja Orkusjóð, ætlar sér að skattleggja aðra þvílíka sjóði, eins og Framleiðnisjóð sem er alveg dæmafátt.
    Ég hlýt að gera þessar athugasemdir. Við í stjórnarandstöðunni höfum lagt okkur fram um að greiða fyrir þingstörfum. Það á við t.d. um það frv. sem hér er á dagskrá um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það var búið að ræða það mál í fjh.- og viðskn. áður en málinu var vísað til nefndarinnar. Og í sambandi við lántökuskattinn féllumst við á að afgreiða hann svo til umræðulaust úr nefndinni. Við höfum verið reiðubúnir að sitja fundi um lánsfjárlög. Það hefur ekki verið þegið. Þannig get ég haldið áfram að telja upp. Allar hugmyndir manna og allar ásakanir um að stjórnarandstaðan hafi haldið uppi málþófi, stjórnarandstaðan hafi verið ósamvinnuþýð eru úr lausu lofti gripnar. En auðvitað verður þessi ríkisstjórn eins og allar aðrar að sætta sig við að haldið sé uppi gagnrýni og beðið um svör við einföldum spurningum sem varða grundvallaratriði lagasetningar.