Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Það er rétt sem kom fram hjá fulltrúa Kvennalistans, hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur, að auðvitað hefði þessi fjárupphæð átt að skila sér í gegnum fjárlög beint inn í húsnæðismálastjórn í þessum tilgangi. En eins og tillagan segir er ríkisstjórninni skylt að útvega 250 millj. til að veita fjölskyldum og einstaklingum sem eru í miklum nauðum aðstoð. Ég vil segja að ef þetta er ekki næg ástæða til að samþykkja tillöguna og koma henni svo inn á fjárlög, þá held ég að það sé á margan hátt óþarfari hlutur afgreiddur á fjárlögum. Og ég segi já.