Vörugjald
Miðvikudaginn 21. desember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Herra forseti. Hér er verið að fjalla um mjög veigamikið frv. sem mun örugglega hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt atvinnulíf. --- Mér finnst nú lakara að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera í salnum. ( Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til að ná í hann.) Já, ég þarf að tala við þann hámenntaða mann. Inngangurinn í minni ræðu snýst nefnilega um það, virðulegi forseti, að ræða nokkuð við hinn menntaða sósíalista. Það er að gefnu tilefni út af því sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði. Ég var ekki alveg sammála flokksbróður mínum í túlkun. Ég teldi mjög þýðingarmikið að þessi virðulegi, ungi og efnilegi nútímasósíalisti hlýddi á mál mitt í upphafi ræðunnar. Ég er að tala um hæstv. fjmrh.
    Áður sagði ég, hæstv. fjmrh., að þetta frv. um vörugjald væri mjög alvarlegt mál, sérstaklega fyrir íslenska atvinnuvegi og fólkið í landinu í heild, vegna þess að það hefur í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar eins og ég mun víkja nánar að. En áður vil ég víkja nokkuð að ummælum hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar. Hann sagði eitthvað á þá leið að sósíalisminn hefði gengið sér til húðar bæði fyrir austan og vestan. Ég hugsa að það sem hv. þm. hafi raunverulega átt við, vegna þess að ég er ekki sammála þessu, sé að hinn gamli stalínismi væri dauður í bili, þ.e. sérstaklega í Sovétríkjunum. En það er eitt sem er nauðsynlegt að menn hafi jafnan í huga þegar verið er að ræða við hámenntaða nútímasósíalista eins og hæstv. fjmrh., að maður gleymi því ekki að enn sem fyrr er hann útvörður þess kerfis sem kommúnisminn byggði upp á sínum tíma, en hefur farið í annan og nýjan búning, ég vil segja mjög að mörgu leyti áferðarfallegan búning fyrir almenning, en ef nánar er að gáð er innsta eðli þess sem er á bak við nákvæmlega hið sama. Það er vernd kerfis sem hefur vit fyrir fólkinu og stjórnin ákveður því að enn búa sósíalistaríkin, við skulum kalla þau sósíalistaríki en ekki kommúnistaríki, við eins flokks kerfi. Í þeim ríkir ekki það lýðræði sem við höfum hingað til þekkt á Íslandi.
    Það sem skiptir máli þegar við erum að tala um þetta eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði er að gera sér grein fyrir því að enn er verið að byggja upp þetta valdakerfi. Enn er verið að byggja og skipuleggja á grundvelli gamla kommúnismans, bara í nútímaútfærslu. Það er verið að byggja upp sterkt ríkisvald. Eins og ég sagði áðan eru þeir sem hafa forustu fyrir slíku yfirleitt áferðarfallegir menntamenn. Þeir koma vel fyrir, þeir kunna sín fræði og koma sér fyrir á réttum stöðum til þess að öðlast áhrif.
    Það er, herra forseti, mjög skemmtilegt að horfa á. Þarna horfir maður á þrjá ráðherra. Tveir þeirra flokkast nefnilega undir þá tegund sósíalista sem ég er að tala um. Það eru þessir nútímakerfissósíalistar sem byggja upp sterkt ríkisvald sem á að hafa vit fyrir þegnunum. Það getur verið ágætt út af fyrir sig, ef sá ókostur fylgdi ekki að lýðræðinu er hætt og ég tala

ekki um þingræðinu. En ég vona að hæstv. ráðherrar hafi lokið sér af og þeir séu búnir að tryggja sína stöðu, alla vega í nótt ( Fjmrh.: Hver var þessi eini ráðherra?) Svavar Gestsson, hæstv. menntmrh. Hann er einn af mönnum fólksins. Hann hefur komið frá fólkinu og stendur með fólkinu. Að vísu þarf að gæta sín á honum, en hann er maður fólksins. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að svara hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur nánar um það atriði, en við sjálfstæðismenn þekkjum okkar menn og verður það að duga. Einn af fyrrv. forustumönnum flokksins þekkti þá einnig mjög vel og átti gott samstarf við marga góða alþýðubandalagsmenn sem betur fór fyrir íslenska þjóð. Við sjálfstæðismenn lifum enn þá í þeirri trú og vitum það að slíkir menn fyrirfinnast í Alþb. En það er þetta með þessa menntuðu nútímasósíalista. Þeir hafa þá aðferð sérstaklega, skiljanlega, að hasla sér völl í stjórnmálum og einnig koma þeir mjög við sögu sem háembættismenn í ríkiskerfinu. Takist okkur að sameina þetta hvort tveggja er eftirleikurinn auðveldur. Ég segi þess vegna, eins og komið hefur fram óbeint í ræðum þingmanna bæði í þessari deild og í Nd., að þetta frv. er liður í þeirri áætlanagerð hinna hámenntuðu sósíalista að auka við skattheimtu, styrkja þar með undirstöður ríkisvaldsins og kerfisins á kostnað atvinnulífsins. Þeir vita sem er, enda stendur það í flestöllum fræðibókum, að eftir því sem mönnum gengur betur að styrkja kerfið, styrkja ríkisvaldið, skipuleggja það vel, þá er eftirleikurinn léttari fyrir þessa nútímavaldamenn gagnvart hinu dreifða valdi atvinnulífsins því að þeir sem eru í átökum úti í atvinnulífinu, hvort sem það er í sjávarútvegi, fiskiðnaði, verslun eða öðru, hafa ekki tíma til með sama hætti og nútímasósíalistar í kerfinu að skipuleggja sitt valdakerfi þannig að þeir geti varist því hvernig að þeim er vegið.
    Þau frumvörp sem við erum að fjalla um hér um aukna skattlagningu eru liður í útfærslu þessara nýju ungu sósíalista sem eru að ryðja sér braut í íslenskum stjórnmálum. Vörugjaldið er e.t.v. skýrasta dæmið í þessari aðför að íslensku atvinnulífi sérstaklega. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að koma og segja að þetta hafi engin áhrif til hins verra fyrir íslenskt atvinnulíf. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að koma og segja um þá mætu menn sem hafa komið á fundi í fjh.- og viðskn. Nd. og hafa sent bæði skýrslur og plögg um það hvaða
áhrif þetta muni hafa á iðnað sérstaklega, það þýðir ekkert fyrir menntaðan mann sem hefur aldrei komið nálægt þessum atvinnugreinum að segja að ummæli og orð þessara manna úr atvinnulífinu séu ekki rétt, þau séu röng. Þessir menn tala af reynslu, þeir tala af þekkingu, þeir vita nákvæmlega hver þeirra staða er á hverjum tíma, enda kemur það fram m.a. í nál. í Nd., að vísu minni hl. en ég vona að orð minni hl. gildi eins og meiri hl., hæstv. fjmrh. er samþykkur því, að frv. eigi að afla ríkissjóði hið minnsta um 1600 millj. kr. í viðbótartekjur á árinu 1989. Af einhverjum er þetta tekið. Annaðhvort er þetta tekið

af fyrirtækjunum eða þessu er velt yfir á neytendur. Það er álit þeirra sem hafa fjallað um öll þau skattafrumvörp sem hér hafa verið til umræðu í þinginu að íþyngingin vegna þeirra á atvinnulífinu sé ekki 1600 millj. heldur 6--7 milljarðar. Af einhverjum er þetta tekið. Þarna er verið að færa til milljarða frá atvinnuvegunum, frá fólkinu til að styrkja og efla ríkiskerfið. Í ríkiskerfinu er líka fólk að sjálfsögðu, en það er verið að auka við yfirbygginguna en ekki að draga úr henni á erfiðum tímum í íslensku atvinnulífi. Þetta er stefna. Þetta er markmið.
    Þeir sem þekkja vel til þeirra atvinnugreina sem harðast verða úti vegna þessarar skattheimtu, og er ég þá að tala um hana í víðari merkingu þess orðs, spá því að þetta muni framkalla atvinnuleysi. Sumir tala um að allt að 2000 manns geti orðið atvinnulaus á næsta ári vegna þessarar skattheimtu og annarrar sem hæstv. ríkisstjórn er að berja í gegnum þingið á þessum dögum. Þetta vildi ég segja vegna þeirra ummæla hæstv. fjmrh. um að þetta yrði endurgreitt. Það er rangt. Þetta verður ekki endurgreitt í því formi sem hæstv. ráðherra gaf í skyn að yrði gert. Hins vegar má segja að óbein endurgreiðsla eigi sér stað, en hún dreifist með öðrum hætti til þegnanna.
    Þegar matarskatturinn var lagður á á síðasta þingi voru tollar og aðflutningsgjöld lækkuð til að milda áhrif hans. Nú er áformað að taka þá lækkun til baka og um leið að hverfa af braut einfaldleikans eins og hæstv. utanrrh. talaði um á þeim tíma og hafði mjög að orði.
    Ég held að það sé rétt, virðulegi forseti, að minnast nokkuð á hvað forustumenn iðnaðar og verslunar segja um áhrif þessa frv. verði það að lögum, hvaða áhrif þetta frv. muni hafa á stöðu verslunar og iðnaðar í landinu.
    Félag raftækjasala mótmælir þessu frv. sérstaklega, þ.e. hækkun á vörugjaldi, og vekur athygli á því að þetta mismuni aðilum, íslenskum innflytjendum og öðrum sem hafa tækifæri til að kaupa þessar vörur erlendis, með þeim hætti að verslunin flytjist æ meira úr landi.
    Félag ísl. stórkaupmanna segir í bréfi til fjh.- og viðskn. Nd. 13. des. 1988 m.a., með leyfi forseta:
    ,,Frekari skref í framhaldi af afnámi þessara skatta töldust eðlilega þau að smám saman verði afnumdir allir skattar sem mismuna atvinnugreinum þjóðarinnar innbyrðis og veikja samkeppnisstöðu þeirra út á við. Hér er m.a. átt við skatta af atvinnuhúsnæði, mishá aðstöðugjöld og launaskatt á nokkrar atvinnugreinar, þ.e. gjöld sem eru dæmd til að hverfa ef íslensk stjórnvöld sjá nauðsyn á að aðlaga sig hugmyndum Evrópubandalagsins um samskipti ríkis og atvinnulífs. Höfuðtilgangurinn með þeim skattbreytingum sem hófust á síðasta ári er samkvæmt framansögðu að styrkja og jafna samkeppnishæfni atvinnugreina við nýjar og breyttar aðstæður í milliríkjaviðskiptum.
    Frv. það til laga um vörugjald sem hér liggur fyrir og felur í sér nýja og stóraukna skattheimtu á vörum gengur hins vegar í þveröfuga átt. Óljóst er hvað frv. muni skila ríkissjóði miklum tekjum.``

    Þetta eru ummæli Félags ísl. stórkaupmanna, en áður hef ég skýrt frá skoðunum annarra:
    ,,Þó er ljóst að frv., ef að lögum verður, muni leiða til umtalsverðrar hækkunar á þýðingarmiklum vöruflokkum sem mjög getur orkað tvímælis á viðsjárverðum tímum eins og nú er.``
    Síðan segir: ,,Vísitala framfærslukostnaðar mun hækka, svo og vísitala byggingarkostnaðar og þar með einnig lánskjaravísitalan. Bein afleiðing er verðbólga sem mun m.a. torvelda mjög skynsamlega kjarasamninga á næsta ári. Vegna almenns samdráttar í þjóðfélaginu og minnkandi kaupgetu almennings og atvinnuveganna má búast við að stórfelld hækkun á vöruverði eins og hér er gert ráð fyrir muni ekki leiða til tilætlaðrar tekjuaukningar heldur geti eftirspurn eftir hinum skattlögðu vörum minnkað eins og rýrar tekjur af vörugjaldi á þessu ári benda til. Samkeppnisstaða íslenskrar verslunar gagnvart erlendri skerðist enn við auknar álögur á svokallaðar ferðamannavörur`` --- og læt ég þá lokið tilvitnun í bréf frá Félagi ísl. stórkaupmanna til fjh.- og viðskn. Nd.
    Mér finnst þó rétt að vekja athygli á því sem þar segir um samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar gagnvart erlendri vegna þess að það getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar á Íslandi.
    Þá segir í umsögn til fjh.- og viðskn. frá Félagi húsgagna- og innréttingaframleiðenda, með leyfi forseta:
    ,,Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda lýsir yfir harðri andstöðu við frv. þetta. Jafnframt lýsir félagið undrun sinni á þeirri vanþekkingu og/eða skilningsleysi á samkeppnisstöðu húsgagna- og trjávöruiðnaðar.``
    Að síðustu, forseti, vil ég vitna í umsögn sem kemur frá Landssambandi iðnaðarmanna, dags. 12. des. 1988. Í þeirri umsögn segir m.a.:
    ,,Landssamband iðnaðarmanna lýsir andstöðu sinni við ofangreint frv. í heild sinni, en þó sérstaklega við c-lið 1. gr. þess sem er bein ógnun við samkeppnisstöðu fjölda fyrirtækja og heilla iðngreina innan landssambandsins þannig að ekki verður við unað.``
    Þetta er mjög alvarleg aðvörun eða umsögn þegar maður hefur í huga að innan landssambandsins eru þúsundir iðnaðarmanna sem eiga mikilla hagsmuna að gæta. Þetta er ein fjölmennasta stétt faglærðra manna á Íslandi.
    Síðan segir í umræddri umsögn, með leyfi forseta, þ.e. í umsögn Landssamands iðnaðarmanna:
    ,,Sú fyrirætlun að leggja vörugjald á byggingarefni og unna trjávöru bendir til þess að fjmrh. sé illa upplýstur um staðreyndir um þróun í fjárfestingu og byggingarstarfsemi og lýsir ekki síður vanþekkingu eða skilningsleysi á erfiðri samkeppnisstöðu húsgagna- og trjávöruiðnaðar og annars íslensks iðnaðar sem framleiðir efni og vörur til bygginga í samkeppni við innflutning.
    Þá er og forkastanlegt að leggja vörugjald á aðföng málmiðnaðar sem stjórnvöld sjálf hafa marglýst yfir

að þyrfti að gegna mikilvægu hlutverki í tæknivæðingu, fiskvinnslu og útgerð ásamt því að vera ein helsta vonarglæta um eflingu útflutnings.``
    Þetta eru vissulega alvarleg orð. En samkvæmt þeim og á grundvelli þess mats sem þessir fagmenn, íslenskir iðnaðarmenn og þeirra starfsmenn, leggja á þetta frv. um vörugjald er ásetningur núv. ríkisstjórnar að knésetja þessar atvinnugreinar, koma þeim á kaldan klaka. Ég held því fram, eins og kemur fram í umsögninni, að hér sé fyrst og fremst um að ræða ákveðna vanþekkingu hjá hæstv. fjmrh. eða þeim sem hafa staðið að frv. Ég efast ekki um að hæstv. fjmrh. vill ekki láta það á sig sannast að hann hafi lagt fram hér frv. sem grundvallist á vanþekkingu hans eða hans samstarfsmanna. Þá hlýtur að læðast að manni sá grunur að eitthvað annað og meira felist á bak við þessa skattheimtu. Kannski er það að hinir ungu íslensku nútímasósíalistar sjáist ekki fyrir í skattheimtunni vegna ríkiskerfisins. Þeir hafa enn þá tækifæri til að breyta um stefnu og vonast ég til þess og trúi því að hæstv. fjmrh. sé íslenskur sósíalisti, íslenskur títóisti sem geri sér grein fyrir því að það verður að byggja upp íslenskt atvinnulíf og sleppa öllum kenningum og varast sérstaklega þá hættulegustu sem felst í eflingu of sterks ríkiskerfis í litlu þjóðríki eins og Ísland er. ( Fjmrh.: Okkar stefna er að komast í sama hlutfall og hjá Thatcher af landsframleiðslu.) Ja, Thatcher er ekki aldeilis til fyrirmyndar í þessum efnum, hæstv. ráðherra. Ég tilheyri hinum frjálslynda armi Sjálfstfl. og við sækjum ekki okkar fræðikenningar til Bretlands eða til Margrétar Thatcher ef því er að skipta. Hún hefur þó ýmislegt gott gert, en ekki allt. En ef hæstv. fjmrh. fer í skóla til hennar eða vill nema hjá henni held ég að hann sé ekki alveg á réttu spori í þeirri útfærslu sem kemur fram í frv. til l. um vörugjald. Það er annar og miklu meiri tilgangur á bak við það.
    Ég skal ekki orðlengja þetta mikið, en þó hlýt ég að lesa hér upp úr umsögn Landssambands iðnaðarmanna þar sem rætt er um áhrif á aðrar iðngreinar. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Auk áhrifa vegna skattlagningar á aðföng, m.a. á málm- og skipasmíðaiðnað, mundi vörugjaldið hækka framleiðslukostnað allra greina iðnaðarins og raunar atvinnuveganna almennt og skerða samkeppnisstöðu þeirra gagnvart erlendum keppinautum. Þá skal einnig sérstaklega bent á að gjald af þessu tagi fyrirfinnst almennt ekki í samkeppnislöndunum.``
    Hér hafa farið fram miklar umræður um skipasmíðaiðnaðinn íslenska. Einn af stjórnarstuðningsmönnum, hv. þm. Stefán Guðmundsson, var með gagnmerkt mál sem hann hefur því miður orðið að bakka með. ( StG: Það er ekki rétt.) Hv. þm. varð á reginskyssa í því hvernig hann tók afstöðu út frá sinni fyrri stefnu og sínum fyrri ræðum í þessu máli. Hann stóð upp og varð það á, eins og sumum þingmönnum hefur orðið á í gegnum tíðina, að hann leggur allt sitt traust á hæstv. ráðherra og ég mun víkja nokkuð að því á eftir hvað mikið er yfirleitt á hæstv. ráðherra að treysta. ( StG:

Þeir verða ekki lengur ráðherrar en stuðningsmennirnir vilja.) Gott að heyra þetta vegna þess að ég mun víkja alveg sérstaklega að og halda upp á afmælisræðu hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar sem sannar hvað lítið er að marka og á orð ráðherra að treysta í stórmálum. Ég flokka það mál sem hv. þm. Stefán Guðmundsson var með undir stórmál, að endurreisa íslenskan skipasmíðaiðnað. Það er grundvallaratriði. Þar er ég honum sammála. Því miður treystir hv. þm. á að einhver hæstv. ráðherra, í þessu tilviki iðnrh. í núv. ríkisstjórn, muni koma honum til bjargar í þessu, en sá ráðherra er í sama flokki og hæstv. utanrrh. og það er ekki meira að marka þá en svo að það er hægt að halda upp á eins árs afmæli ræðu þessara ágætu stjórnmálamanna með þeim hætti að það stendur ekki steinn
yfir steini af því sem þeir sögðu fyrir einu ári þannig að ég legg ekki mikið upp úr loforðum þeirra ágætu ráðherra.
    Ég ætla svo að vitna í bréf Landssambands iðnaðarmanna varðandi stöðu annarra iðngreina, en þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Eins og fjmrh. hefur lýst yfir er vörugjaldið fjárfestingarskattur og það sem verra er: fyrsta skrefið í enn þá víðtækari skatti í þá veru. Fjárfestingarskattur hefur að sjálfsögðu veruleg áhrif á öll fyrirtæki í landinu og verður að minna á í þessu sambandi hve stór hlutur iðnaðarins er tengdur mannvirkjagerð, framkvæmdum og þjónustu við atvinnulífið.``
    Sem sagt: Það er mat Landssambands iðnaðarmanna, það er mat þess landssambands, sem telur þúsundir manna innan sinna vébanda, að þar sé verið að stíga stórt skref í að eyðileggja rekstrar- og starfsgrundvöll iðnaðarins í landinu. Ég vek einnig athygli á því að einmitt á sviði iðnaðar er um mikinn fjölda svokallaðra einyrkja að ræða, þ.e. aðila sem eiga sín eigin fyrirtæki. Þetta eru faglærðir iðnaðarmenn, sérstaklega hæfir íslenskir iðnaðarmenn. Þarna er verið að lýsa því hvernig með fjárfestingarskatti á að eyðileggja gersamlega sjálfsbjargarviðleitni þessara manna og eignargrundvöll þeirra og rekstur.
    Þetta er mjög alvarlegt mál, en þetta er stefna í nútímasósíalisma sem gerir menn háðari ríkisvaldinu, sem gerir menn háðari kerfinu: Gera alla að starfsmönnum ríkisins þar sem allir eiga allt og enginn á neitt. Þetta er stefna út af fyrir sig. Ég er henni bara ekki sammála og það er mitt hlutverk m.a. að berjast gegn því að þessi áform takist.
    Að lokum segir í umsögn Landssambands iðnaðarmanna, með leyfi forseta:
    ,,Landssamband iðnaðarmanna telur að lagafrv. þetta sé ósvífin aðför að íslenskum iðnaði og ítrekar harða andstöðu sína við það.``
    Landssamband iðnaðarmanna er brjóstvörn þúsunda iðnaðarmanna. Þeir eiga lítil og sjálfstæð fyrirtæki sem hafa verið byggð upp af atorku og dugnaði með ómældu vinnuálagi. Það er viðurkennt að íslenskir iðnaðarmenn eru sérstaklega hæfir og það er örugglega vegna þess að þeir hafa yfirleitt unnið mjög

sjálfstætt. Þeir hafa verið óháðir ríkiskerfinu, þeir hafa verið óháðir sveitarfélögum, þeir hafa verið sjálfstæðir einstaklingar á sínu sviði og skilað frábæru verki. Nú á með nútímasósíalisma að drepa niður sjálfsbjargarviðleitni þessara manna. Allt er þetta gert í þágu ríkissósíalisma, allt í þágu þess að efla og styrkja ríkiskerfið. Allt er þetta gert að ráðum hins menntaða fámennisveldis sem hefur náð undirtökunum sérstaklega í tveim flokkum sem eiga þingmenn á Alþingi Íslendinga, þ.e. í Alþfl. og Alþb. Því miður segi ég. ( Fjmrh.: En framsókn?) Nei, ég tala ekki um góða eða vonda að öðru leyti en því að ég tel það vont þegar verið er að þróa íslenskt þjóðfélag og íslenskt atvinnulíf nær ríkissósíalisma, nær því kerfisfyrirkomulagi sem er andstætt íslensku eðli, íslensku sjálfstæði. Framsóknarmenn hafa það ekki sem markvissa stefnu. Það get ég um þá gott sagt. Hins vegar hafa þeir fallið fyrir svokölluðum korporisma sem felst í því að byggja upp stór fyrirtæki sem passa ekki inn í nútímaþjóðfélagshætti. Þeir hafa fallið fyrir því. ( Fjmrh.: Eins og SH og SÍS.) Já, Samband ísl. samvinnufélaga varð því miður of stórt. Sú stærð hefur orðið því fyrirtæki að falli. Ég segi því miður vegna þess að samvinnuhreyfingin á fullkomlega rétt á sér. En það er með hana eins og allt annað sem mannlegt er, að verði það of stórt, verði það fyrirferðarmikið og falli það í hendur of fárra sem ætla að ráða fyrir alla hina endar það eins og þar sem ríkisvaldið ræður öllu. Þetta verður fámennisveldi. En fámennisveldi samvinnuhreyfingarinnar og Framsfl. á sér allt aðrar rætur en fámennisveldi menntamanna sem eru sósíalistar. Þar er grundvallarmunur og það veit hæstv. fjmrh.
    Ég ætla ekki að hætta mér frekar út í þá umræðu á þessu stigi, en ég sá að fjmrh. óskar þess að ég geymi mér það og skal orðið við þeirri ósk. (Gripið fram í.) Já, það er nefnilega það, hv. þm. Þar kem ég að því atriði sem sameinar okkur tvo sérstaklega og það er hvernig þingmenn eða pólitíkusar snúa gersamlega við blaðinu. Það sem var hvítt í gær er svart í dag o.s.frv. Ég ætla nefnilega, ágæti þingmaður Skúli Alexandersson, að ræða nokkuð um hvernig menn skipta um skoðanir, þ.e. ég ætla að koma með dæmi um hvernig stjórnmálamenn eiga ekki að haga sér. Þar veit ég að hv. þm. er sammála mér. En hann verður að vera sjálfum sér samkvæmur ef hann ætlar að geta staðið í útgerð. Þar verða menn að standa eins að verkum. Þar þýðir ekki að skipta um skoðun. Þar verða menn að byggja á raunverulegum grundvelli og standa sig. En í stjórnmálum er það orðið of algengt að stjórnmálamenn þurfi ekki að standa sig vegna þess að þeir skjóta sér á bak við aðra. Þeir skjóta sér á bak við kerfi og flokka og þeir skjóta sér á bak við mikið málæði eins og hér hefur tíðkast oft, því miður, í sölum Alþingis.
    En það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að víkja nokkrum orðum að þessu sérstaklega vegna þess að hér er til umræðu vörugjald, hér er til umræðu stefnubreyting í skattamálum á Íslandi sem er

grundvallarbreyting frá þeirri stefnu sem einn af hæstv. ráðherrum fylgdi fyrir ári. Það er óhjákvæmilegt að
víkja að þessu þar sem það vill svo til að það er nákvæmlega eitt ár síðan þessi hæstv. ráðherra boðaði allt aðra stefnu í skattamálum, allt aðra stefnu gagnvart atvinnulífinu, allt aðra stefnu gagnvart íslensku þjóðlífi og atvinnulífi. Á ég þar sérstaklega við ræðu sem þáv. hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson flutti á þingi þann 10. des.
    Það er skylda okkur að upplýsa þá þingmenn sem kunna að hafa gleymt einhverju af því sem gerðist hér þó sé ekki farið lengra aftur í tímann en eitt ár. Svo er auðvitað skylda okkar, því að hér eru fjölmiðlar, að upplýsa fjölmiðlamenn um hvaða hugarfarsbreytingar og stefnubreytingar eiga sér stað og hvað felst í þessu. Og það er skylda okkar að reyna að koma þeim boðskap til fólksins vegna þess að það er einu sinni þannig að fólk tekur mark á flestum alþm. og alþm. vekja upp væntingar, þeir vekja upp vonir og þeir leggja oft grundvöllinn að því að menn haga sínu lífi með öðrum hætti vegna þess að þeir treysta því að þeir menn sem tala hér úr ræðustóli meini það sem þeir eru að segja. Að breyta svo um skoðun með jafnskjótum hætti og hæstv. þáv. fjmrh. hefur gert, þ.e. núv. utanrrh., getur haft og mun hafa mjög örlagaríkar afleiðingar fyrir þúsundir Íslendinga sem voru í góðri trú fyrir rúmu ári um að það sem hann sagði væri marktækt. Fólk hefur hagað sínu lífi margt í samræmi við það.
    Fyrir rúmu ári boðaði þáv. fjmrh. allt aðra stefnu í sambandi við skattamál. Það var skattastefna sem gaf mönnum vonir um að nú ætlaði hann ásamt þeirri ríkisstjórn sem þá var að styrkja stoðir íslensks atvinnulífs. Nú hefur hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson snúið við og hann hefur heimilað og hann tekur þátt í því að samþykkja hér allt aðra stefnu, stefnu sem er í grundvallaratriðum þess eðlis að hún er andstæð hagsmunum atvinnulífsins en hagstæð hins vegar eflingu ríkisvaldsins og kerfisins, stefnu sem felur í sér skattaíþyngingu fyrir bæði atvinnulífið og fólkið.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að víkja hér nokkuð að þeirri ræðu sem þáv. fjmrh. flutti þar sem hann er að ræða . . . ( SkA: Er ekki rétt að ná í þann ráðherra?) Ég er að tala um stefnubreytinguna. Stefnubreytingin birtist m.a. í framlögðu frv. um vörugjald þannig að það nægir . . . ( SkA: Þarf ekki að hafa ráðherrann neitt hérna.) Ekki þess vegna. En ég geri ráð fyrir að hann viti hvað hann sé að gera sem ráðherra í núv. ríkisstjórn. En það er fróðlegt fyrir hv. þm. að heyra hvað þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson sagði í ræðu þann 10. des. og er þá verið að ræða hér í þingi um söluskatt. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Þetta [þ.e. frv. til laga um söluskatt] er eitt þriggja frumvarpa sem öll verða til umræðu á þessum deildarfundi. Hin tvö fjalla um breytingar á tollalögum og vörugjaldi. Þar sem þessi þrjú frv. eru að mörgu leyti efnislega ósundurslítanleg og nátengd hef ég í

hyggju að ræða þau öll hér að svo miklu leyti sem umræðuefnið er eitt og vænti þess að þingmenn geti fjallað um þau öll í senn hér á eftir að svo miklu leyti sem það er efnislega óaðskiljanlegt.`` Það eru breytingar á tollalögum, breytingar á vörugjaldi og söluskatti, nánar tiltekið með inniföldum matarskatti.
    Síðar í þessari sömu ræðu segir þáv. fjmrh., með leyfi forseta: ,,Þær breytingar á söluskatti sem felast í þessum frv. eru sem fyrr segir nátengdar umfangsmiklum breytingum á lögum um tollskrá og vörugjald. Jafnhliða samræmingu söluskatts og víkkun skattstofns verða tollar lækkaðir og sex mismunandi vöru- og aðflutningsgjöld lögð niður. Í stað þeirra verður tekið upp eitt vörugjald, 14%, sem leggst á nokkra skýrt afmarkaða vöruflokka``.
    Síðan segir fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson, með leyfi forseta: ,,Um innbyrðis tengsl þessara aðgerða, breytinga á tollakerfi, vörugjaldskerfi og söluskattskerfi, er fjallað í þeim frumvörpum þremur sem hér eru á dagskrá. Þessi endurskoðun og einföldun á tolla- og vörugjaldskerfinu tengist enn fremur þeim breytingum sem verða á söluskattskerfinu um næstu áramót þar sem hluta af því tekjutapi sem ríkissjóður verður fyrir með tollalækkunum og afnámi vörugjalds verður mætt með tekjum, í fyrsta lagi af breiðari söluskattsstofni. Þessi þrjú frv. verður því að meta að því er áhrif þeirra varðar í heild sinni og spyrja: Hverjir eru meginþættir þessarar kerfisbreytingar og hver eru áhrif hennar í heild annars vegar á tekjur ríkissjóðs og hins vegar á verðlag í landinu?``
    Enn fremur segir: ,,Þannig er tekjutapið, sem hlýst af lækkun aðflutningsgjalda, vegið upp með víkkun söluskattsstofnsins jafnhliða því sem tekna er aflað til hliðarráðstafana. Það er afar mikilvægt að skýrt komi fram að þessar kerfisbreytingar fela ekki í sér á nokkurn máta aukna skattbyrði á almenning frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. heldur er einungis verið að færa tekjuöflun á milli einstakra tekju- og gjaldstofna.``
    Með því frv. sem hér er til umfjöllunar um vörugjald er því verið að auka skattbyrðina greinilega því að söluskattsstofninn er óbreyttur. Það er greinilega ekkert að marka orð hæstv. utanrrh. ef maður lítur til baka aðeins eitt ár þar sem hann er stuðningsmaður þess vörugjalds sem nú er hér til umræðu. Hann er búinn að slíta þetta allt í sundur. Nú þarf ekki samræmi eða
einföldun. Nú þarf aðeins að hækka skattana.
    En hvað segir svo hæstv. utanrrh. núv. síðar í sömu ræðu þegar hann var fjmrh. Hann segir sem hér segir, með leyfi forseta: ,,Hvað segir þetta okkur þá um framfærslukostnað heimilanna? Það segir okkur að heildaráhrifin af öllum þessum aðgerðum valda ekki hækkun á framfærslukostnaði. Það er ákaflega mikilvægt þegar menn taka afstöðu til þessara breytinga að almenningur sé ekki blekktur með villandi upplýsingum um stóraukin útgjöld vegna þessara aðgerða því að sannleikurinn er sá að útgjöld meðalfjölskyldu á Íslandi, hjóna með tvö börn, eins og

þau mælast í vísitölu framfærslukostnaðar, haldast óbreytt. Það er kjarni málsins,,, segir ráðherra svo.
    Hvað er að gerast nú? Nú er það að gerast að með óbreyttri innheimtu á söluskatti, 25%, með þessu hækkaða vörugjaldi og með öðrum skattafrv. sem hér eru til meðferðar er verið að stórhækka framfærslukostnaðinn á sama tíma sem verkalýðurinn, fólkið í landinu, býr við óbreytt kjör og lakari því að ýmsar kostnaðarhækkanir hafa orðið síðustu vikurnar í sambandi við vörur og þjónustu.
    Ég ætla ekki, forseti, að taka upp mörg fleiri atriði úr þessari ræðu, en vil að lokum lesa, með leyfi forseta, niðurlagið í ræðu þáv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar því hún er raunverulega aðvörunarorð til okkar allra sem stjórnmálamanna um hvað menn geta farið í gegnum sjálfa sig á stuttum tíma og raunverulega snúið gjörsamlega við blaðinu. Í niðurlagi ræðunnar segir þáv. fjmrh., með leyfi forseta:
    ,,Herra forseti. Með þeim breytingum á tolli, vörugjaldi og söluskatti sem áformaðar eru um næstu áramót [þ.e. áramótin 1987--1988] er stefnt að verulegri einföldun á núgildandi skattakerfi. Með þeim næst betra samræmi milli verðhlutfalla bæði hér innan lands og ekki síður milli innlendrar og erlendrar vöru en undanfarin ár og jafnvel áratugi, en eðlileg verðhlutföll milli einstakra vörutegunda hafa vissulega meira og minna brenglast í þessum leifum frá haftabúskap fyrri ára. Hitt er jafnljóst að þegar litið er á verðmyndun í landinu í samhengi blasir víða við verulegt misræmi í verðlagningu. Það má telja fullvíst að þetta misræmi hafi óheppileg áhrif á eðlilega verðmyndun, bæði með óhagkvæmari innkaupum og hærra vöruverði en ella. Enn fremur hefur það vafalaust í mörgum tilvikum ýtt undir óæskilega viðskiptahætti og þannig í reynd stuðlað að undandrætti frá skatti. Þess vegna er löngu orðið tímabært að vinda ofan af þessu kerfi og gera það auðveldara í framkvæmd og eftirliti, en það er megintilgangurinn með þessari kerfisbreytingu.`` --- Lýk ég svo tilvitnun í ræðu Jóns Baldvins Hannibalssonar á Alþingi fyrir ári.
    Það stendur ekki steinn yfir steini af því sem þessi ágæti þingmaður sagði þá miðað við það sem hann er að gera nú. Nú er blaðinu snúið við. Nú má brengla verðhlutföllum. Nú má hverfa aftur til ákveðins haftabúskapar. Nú má vöruverð hækka. Nú má ýta undir óæskilega viðskiptahætti. Nú má aftur vinda upp á kerfið. Og þá er spurningin: Hvers vegna? Jú, allt er til vinnandi til að halda völdum, tefla áfram pólitíska skák á kostnað fólksins í landinu. Þannig þróast sósíalisminn á nútímavísu. Þannig þróast sósíalisminn hjá þeim mönnum sem eru sósíalistar í hjarta sínu og hafa aldrei meint það sem þeir sögðu eins og ég hef bent hér á rækilega í ræðu minni. Öll þau orð, allt það sem formaður Alþfl. sagði um frelsi, um samræmi, um einföldun, um réttlæti eru innantóm orð sem flutt voru á Alþingi Íslendinga fyrir ári. Það er svona sósíalismi sem ég og mínir líkar og meginþorri Íslendinga hafna. Þess vegna munum við

sjálfstæðismenn ekki taka þátt í því að greiða þeim skattafrv. atkvæði á þingi, hvort sem það heitir vörugjald eða annað. Við viljum ekki innleiða þann sósíalisma og þau svik við íslenskan málstað sem felast í þeim frv.