Vörugjald
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda hélt fjölmennan félagsfund þar sem mótmælt var harðlega því sem fundurinn kallar aðför að íslenskum húsgagna- og innréttingaiðnaði og sem felist í frv. um breytingu á lögum um vörugjald sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi. Síðan segir í ályktun félagsfundar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Félagið bendir á eftirfarandi atriði:
    Íslenskur húsgagna- og innréttingaiðnaður hefur árum saman átt í mjög harðri samkeppni við erlenda aðila. Á undanförnum missirum hefur samkeppnisstaðan versnað stórum vegna fastgengisstefnu, óhóflegs fjármagnskostnaðar og erfiðra starfsskilyrða. Þrátt fyrir mikið uppbyggingarstarf íslenskra húsgagnaframleiðenda hefur markaðshlutdeild þeirra sífellt farið minnkandi allt frá um 73% á árinu 1977 niður í um 32% á sl. ári. Í innréttingaframleiðslu hefur innlend markaðshlutdeild einnig minnkað stórlega, eða úr um 90% niður í um 52% á sl. ári. Að leggja vörugjald á íslensk húsgögn og innréttingar og jafnframt á hráefni til þeirrar framleiðslu er því forkastanlegt og lýsir óskiljanlegri vanþekkingu eða skilningsleysi stjórnvalda á samkeppnisaðstöðu þessa iðnaðar.
    Félagið varar sérstaklega við þeirri fráleitu skoðun, sem sumir hafa haldið fram, að vörugjald sé hlutlaus skattur sem komi jafnt við innflutning sem innlenda framleiðslu. Hækkun á innlendum húsgögnum og innréttingum vegna vörugjalds gefur erlendum keppinautum kjörið tækifæri til þess að ná til sín enn þá stærri hluta af markaðnum, enda hefur reynslan sýnt að þeir geta auðveldlega í krafti stærðar sinnar, og e.t.v. einnig með ríkisstyrkjum til útflutningsátaks, tekið á sig hækkunina tímabundið. Fyrirsjáanlegt er að vörugjald á hráefni muni verulega íþyngja ýmsum fyrirtækjum og jafnvel gera starfsemi sumra fyrirtækja vonlausa. Staðreyndin er sú að þrátt fyrir undanþáguheimildir í tolla- og vörugjaldslögum er ógerningur í framkvæmd að koma í veg fyrir að iðnaðurinn þurfi að hluta að greiða vörugjald af hráefni sínu. Aðeins þegar iðnfyrirtæki annast sjálf innflutning hráefna sinna er í framkvæmd unnt að koma í veg fyrir að þau þurfi að bera vörugjald sem lagt yrði á hráefni.
    Þegar hráefni eru keypt af innlendum efnissala, eins og eðlilega er mjög algengt að fyrirtæki í húsgagna- og innréttingaiðnaði geri, er óhjákvæmilegt að vörugjald hækki framleiðslukostnað. Íslenskur húsgagna- og innréttingaiðnaður greiðir þegar 25% söluskatt af allri framleiðslu sinni auk annarra skatta. Ef vörugjald bætist við mun það stuðla mjög að því að framleiðslan færist frá verksmiðjum og vel búnum verkstæðum inn á byggingarstað eða það sem verra væri, yfir í bílskúrsstarfsemi sem að sjálfsögðu mundi hvorki greiða vörugjald, söluskatt né tekjuskatt. Vörugjald er upphaflega lagt á sem verksmiðjuskattur og skattformið er að öllu leyti miðað við verksmiðjur sem fjöldaframleiða tiltölulega fáar samkynja vörur og selja í heildsölu. Skattformið á hins vegar engan

veginn við í íslenskum húsgagna- og innréttingaiðnaði þar sem meiri hluti fyrirtækjanna eru smáfyrirtæki sem ekki selja staðlaða framleiðsluvöru eins og vörugjaldslögin gera ráð fyrir heldur stunda sérsmíði og selja fyrst og fremst út vinnu og efni.
    Félag húsgagna- og innréttingaframleiðenda ítrekar mótmæli sín við ráðgerðri skattlagningu á íslenskan húsgagna- og innréttingaiðnað og telur að verði frv. að lögum muni það leiða til þess að mörg fyrirtæki verða að hætta starfsemi og hluti þeirra 1400 manna sem starfa í húsgagna- og trjávöruiðnaði missi atvinnu sína.``
    Ég rifja það upp, herra forseti, að talað hefur verið um það í sambandi við aðrar iðngreinar að hundruð manns missi atvinnu sína. Landssamband iðnaðarmanna hefur sent alþingismönnum dreifibréf, dagsett í dag, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Engu er líkara en fjmrh. og starfsmenn hans séu innkaupastjórar iðnfyrirtækja í hjáverkum. Þeir þykjast hafa meira vit en fyrirtækin sjálf á því hvort og að hve miklu leyti vörugjald og önnur gjöld leggjast á hráefni iðnfyrirtækja. Annað verður ekki skilið af yfirlýsingu þeirra í fjölmiðlum í framhaldi af ábendingu Landssambands iðnaðarmanna um áhrif vörugjaldsfrv.
    Kjarni málflutnings Landssambands iðnaðarmanna um vörugjaldið er þessi:
    Samkeppnisstaða innlendra iðnfyrirtækja versnar með álagningu vörugjalds fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hækkar vörugjald vöruverðið og af þeirri ástæðu dregur almennt úr eftirspurn eftir vörunni. Auk þess gefa slíkar hækkanir erlendum keppinautum kjörið tækifæri til þess að ná til sín auknum hluta af íslenskum markaði, en þeir geta iðulega í krafti stærðar sinnar og annarrar aðstöðu tekið á sig slíka hækkun tímabundið.
    Í öðru lagi á nú að leggja vörugjald á öll mikilvægustu hráefni til húsgagna-, trjávöru- og byggingariðnaðar. Fyrirtæki sem teljast til samkeppnisiðnaðar, eins og t.d. húsgagnaiðnaðar, geta að vísu fengið fellt niður vörugjald af hráefni sem þau flytja inn sjálf. Hins vegar er það alls
ekki svo að algengast sé að þau u.b.b. 300 fyrirtæki sem enn þá eru starfandi í húsgagna- og trjávöruiðnaði flytji sjálf inn hráefni. Þvert á móti er mjög algengt að fyrirtækin, jafnvel þau stærstu, kaupi hráefni sitt af innlendum efnissala. Landssamband iðnaðarmanna hefur kannað sérstaklega hve stór hluti hráefnisins til húsgagna- og innréttingaiðnaðar er keyptur af innlendum efnissölum. Er það um það bil 65% af heildarhráefnisnotkun í iðngreininni.
    Þegar hráefni er keypt af innlendum efnissala þurfa fyrirtækin samkvæmt vörugjaldslögum að greiða vörugjald en er síðan heimilt að draga gjaldið af hráefni frá við skattskil. Þessi frádráttarheimild er bundin við vörugjaldsskylda aðila en gjaldskyldan miðast við tollskrárnúmer framleiðsluvara. Sama fyrirtæki sem rekur t.d. bæði trésmiðju og byggingarstarfsemi, eins og mjög er algengt, getur

m.ö.o. bæði verið gjaldskylt og ekki gjaldskylt. Enn fremur á vörugjald að leggjast á hráefni til málmiðnaðar og einingahúsaframleiðslu sem ekki eiga að innheimta vörugjald af fullunnum vörum. Í því tilviki fæst vörugjald af hráefni aðeins niðurfellt ef iðnfyrirtækin flytja hráefnið inn sjálf. Er því fyrirsjáanlegt að fjmrn. þarf að setja flóknari reglur um framkvæmd slíkra frádráttarheimilda sem óhjákvæmilega verða erfiðar og mannaflakrefjandi í framkvæmd. Þá telur Landssamband iðnaðarmanna sig hafa vissu fyrir því af fyrri reynslu að í slíkri framkvæmd mundi tekjuöflunarsjónarmið ríkissjóðs verða sett ofar hagsmunum íslensks iðnaðar. Vörugjaldsskylda á hráefni íslensks iðnaðar mundi m.ö.o. skerða samkeppnisstöðu hans og afleiðingin mundi t.d. verða sú að markaðshlutdeild íslenskra húsgagna- og innréttingaframleiðenda, sem hefur farið síminnkandi undanfarin ár vegna erfiðra aðstæðna, mundi enn minnka.
    Landssambandi iðnaðarmanna er kunnugt um að innflytjendur húsgagna og innréttinga hafi á undanförnum dögum verið í stórum stíl að leysa vörur úr tolli og birgja sig upp fyrir næstu mánuði. Samkvæmt brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. er innlendum framleiðendum veittur allt að fjögurra daga aðlögunartími að lögunum. Á sama tíma hafa innflytjendur birgt sig upp til margra mánaða og geta því boðið vörur sínar án vörugjalds fram á vor en innlendum framleiðendum er hins vegar gert að hefja innheimtu vörugjalds frá og með 1. jan. nk.
    Landssamband iðnaðarmanna krefst þess, sé það vilji meiri hluta á Alþingi Íslendinga að refsa íslenskum iðnaði með samþykki þessa lagafrv., að í það minnsta verði leiðrétt það hróplega misrétti sem í gildisákvæðum laganna felst og innlendum framleiðendum gefinn a.m.k. fjögurra mánaða aðlögunartími.``
    Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og geta ekki misskilist.
    Minni hl. fjh.- og viðskn. telur einsýnt að nauðsynlegt sé að verða við tilmælum Landssambands iðnaðarmanna. Ég hef á fundi fjh.- og viðskn. kynnt meiri hlutanum tillögu okkar sem er þess efnis að innlendu framleiðendurnir fái fjögurra mánaða umþóttunartíma eins og þeir telja að sé algert grundvallaratriði eigi nokkur von að vera til þess að þessi iðnaður geti haldið velli. Því miður tókst ekki að telja meiri hlutann á að þessi frestur væri nauðsynlegur fyrir þessa atvinnugrein. Ég fer satt að segja, herra forseti, að halda að það skipti ekki lengur máli fyrir munn hvaða atvinnugreinar stjórnarandstaðan talar. Við fáum nei og aftur nei. Það er hvergi hliðrað til. Það er haldið áfram að þyngja pinklana og ekkert horft á það hvort viðkomandi starfsgreinar standi vel eða illa. Það er ekki horft á það í hvaða knérunn er verið að vega.
    Ef einhver hér inni heldur að húsgagnaiðnaðurinn sé aflögufær hefur hann lítið fylgst með íslenskum atvinnuvegum, a.m.k. síðasta áratuginn. Ég fullyrði ekki meira. Svo er um ýmislegt annað. Þess vegna vil

ég vona það enn í lengstu lög að þeir menn sem ráða ferðinni í skattheimtunni biðji um að gert verði hlé á þessum fundi, eins og gert var eftir að ég flutti breytingartillögu við tekjuskattsfrv., og þingi nú vel og lengi hér í hliðarherbergi og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé alleinasta nóg að verða við mínum tilmælum heldur gangi þeir lengra og felli vörugjaldið niður af húsgagna- og innréttingaiðnaðinum í landinu.