Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Þegar ég mælti fyrir þessu frv. í hv. Ed. vakti ég athygli á því að í því væri verið að stíga skref til að samræma skattlagningu veðdeilda og sjóða, þá skattlagningu sem tíðkast á bankastofnunum og öðrum hliðstæðum atvinnufyrirtækjum í landinu.
    Fyrir nokkrum árum síðan var stigið það skref að viðskiptabankarnir og aðrar bankastofnanir greiddu skatt eins og annar atvinnurekstur í landinu. Sú breyting olli töluverðri umræðu á sínum tíma. Ég held hins vegar, þegar litið er til baka, að allir hafi verið sammála um að þar hafi verið um rétt skref að ræða.
    Í frv. var ætlunin að stíga töluvert stórt skref til þess að færa ýmsa sjóði og veðdeildir enn fremur inn í þessar reglur sem almenn skattlagning þarf að miðast við.
    Í meðferð málsins í Ed. kom fram, eins og stundum hefur gerst áður við undirbúning þessa máls, að bæði af lögfræðilegum og ýmsum tæknilegum ástæðum vefst það fyrir mönnum að skilgreina nákvæmlega í lagasetningunni þau mörk sem skilja á milli þeirra sjóða sem eðlilegt er að þennan skatt greiði og hinna sem fyrst og fremst er ætlað að sinna ýmiss konar félagslegu hlutverki eða hafa ekki starfsemi sem út frá eðli hennar verður að teljast eðlilegt að skattleggja með þessum hætti. Þess vegna var farin sú leið eftir ítarlegar viðræður að taka út úr frv. fyrst og fremst veðdeildirnar sem almenn samstaða var um að væri eðlilegt að kæmu inn í þessa skatttöku og eins út frá tæknilegu og lögformlegu eðli þeirra væri mjög auðvelt að skilgreina og binda. Hins vegar verði áfram unnið að því að reyna að afmarka, lögfræðilega og tæknilega, sjóðina enn frekar.
    Það er kannski fróðlegt fyrir hv. þingheim að vita af því að það margvíslega sjóðakerfi, sem búið hefur verið til í landinu á undanförnum áratugum, er svo margbrotið að það vefst mjög fyrir lærðum lögfræðingum að búa til eðlilegar og almennar lögfræðilegar reglur sem gera skattheimtu gagnvart þessum aðilum samrýmanlega grundvallarreglum skattkerfisins. Ég held að þessi reynsla ætti þess vegna að verða okkur öllum hér og öðrum tilefni til þess að skoða þennan sjóðafrumskóg allrækilega og reyna að færa hann í eðlilegra horf þar sem auðveldara er að beita almennum og viðurkenndum reglum. Það væri mjög slæm niðurstaða ef menn kæmust að því eftir ítarlega athugun að sá sjóðafrumskógur sem skapaður hefur verið á undanförnum áratugum væri orðinn þannig vaxinn að það væri ekki hægt að beita almennum skattlagningarreglum gagnvart honum. Þess vegna verður áfram unnið að því máli, en ákveðið nú í tímaþröng þingsins að taka út þann þátt í frv. sem einkennist ekki af þessu vandamáli og samstaða var um að hægt væri að afgreiða án þess að erfiðleikar af því tagi sem ég var að lýsa væru þar samferða afgreiðslunni.
    Ég mælist þess vegna til þess, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til fjh.- og viðskn.