Skattskylda innlánsstofnana
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég hef ekki sett nafn mitt undir það nál. sem hér er til kynningar í deildinni. Ég gerði grein fyrir því við 1. umr. um málið að eins og frv. er nú þá sæi ég ekki ástæðu til þess að amast við því og mun þess vegna sitja hjá við atkvæðagreiðslu um málið.
    Ég vek hins vegar athygli á því að frv., eins og það var lagt fram, var illa undirbúið af hálfu fjmrn. og á ábyrgð fjmrh. Í því voru ákvæði sem ekki var búið að kanna til hlítar hvort fengju staðist og ummæli ráðherra við 1. umr. fá engu breytt. Ástæðan fyrir því að forverar hans hafa ekki gert neitt í því að leggja þessi ákvæði fram var auðvitað sú að málið var flókið og vandmeðfarið. Af þeim sökum var ekki hlaupið til með að leggja ákvæðin fram með þeim hætti sem fjmrh. tók síðan ákvörðun um en hefur nú orðið að hopa frá.