Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur brtt. á þskj. 287 og 418. Þetta eru brtt. við fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Önnur þessara tillagna, tillagan á þskj. 287, er til hækkunar en hin til lækkunar fjárlaga.
    Sú brtt. sem ég geri á þskj. 287 er við 4. gr. lið 08-872 Lánasjóður ísl. námsmanna, að fyrir upphæðina 1 milljarður 617 millj. kr. komi 1 milljarður 707 millj. kr. Þessi brtt. sem ég mæli fyrir er um hækkun upp á 90 millj. kr. Fjárhæð þessi er málamiðlun frá því sem ég hugðist í upphafi leggja fram um að námsmönnum yrði bætt sú skerðing sem gerð var 1985 er sú ríkisstjórn sem þá var við völd skerti námslán verulega. Samkvæmt þeirri upphæð sem nú hefur verið reiknuð út mun sú fjárhæð nema um 300 millj. kr. Hér er aðeins mælt fyrir breytingu upp á 90 millj. kr. og er hún til þess að mæta húsnæðiskostnaði þeirra námsmanna sem þurfa að leigja sér húsnæði vegna náms og yfirleitt er það hér í Reykjavík. Því er þetta eins konar styrkur til námsmanna af landsbyggðinni sem þurfa að koma til Reykjavíkur til náms. Það er áætlað að seinni hluti árs 1988 kosti 42--43 millj. kr. og fyrri hluti árs 1989 47--48 millj. kr. Hér er sem sagt mælt fyrir um að námsmenn fái allt skólaárið bætt. Framfærsla mundi þá hækka sem næmi 5 þús. kr. á mánuði og er það ekki ofrausn þar sem áætlað er í dag að framfærsla sé um 34 þús. kr. á mánuði og hækkar þessi fjárhæð fyrir námsmenn sem eru úti á leigumarkaðnum því í 40 þús. kr. Í mínum huga er það mikið réttlætismál fyrir námsmenn að fjárveitingarvaldið sýni þann skilning að hækka þessar greiðslur.
    Hin brtt. sem ég geri er viðameiri og fjallar um verulega skerðingu á því fjárlagafrv. sem hér er til umræðu. Nemur sú skerðing alls 1,5 milljörðum kr. og mun ég reyna að skýra út hvernig skerðingin á að ná fram að ganga. Þess skal getið í upphafi að þessar skerðingartillögur voru unnar af Sigurði Þórðarsyni hjá Ríkisendurskoðun sem vann þær fyrir stjórnarandstöðuflokkana, þ.e. Kvennalista, Borgfl. og Sjálfstfl. Þar sem þessir flokkar komu sér ekki saman um að leggja þetta fram fannst mér rétt, þar sem ég hafði séð þessar tillögur, að gera þær að mínum og ég taldi að það væri í fullu samráði við aðra sem um þessar tillögur vissu. Ég harma það mjög að hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson skyldi veitast að mér í ræðu hér áðan og halda því fram að ég hafi verið að stela einhverjum tillögum sem hann eða hans flokkur hafi haft frumkvæði um að móta. Það er alrangt. Þessar tillögur urðu til að frumkvæði Óla Þ. Guðbjartssonar sem taldi rétt að stjórnarandstaðan öll stæði að því að biðja Ríkisendurskoðun um mat á því hvar skera mætti niður. Þar sem Sjálfstfl. hefur verið stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og hefur haft frumkvæði í stjórnarandstöðunni mátti líta þannig á að hann hefði gert þetta en það er ekki rétt eftir því sem mínar heimildir segja til um. Það varð alla vega hvorki niðurstaðan hjá Sjálfstfl. eða Kvennalista að flytja þessa tillögu og taldi því Óli Þ. Guðbjartsson, eins og hann lýsti hér í ræðu sinni, ekki rétt að hann

gerði það einn og kom þeim tilmælum til mín að ég gerði það og því eru þessar tillögur hér fram lagðar. Ég tel þessar tillögur mjög skynsamlegar og skil í raun ekki af hverju þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Kvennalisti, gátu ekki á þær fallist þar sem þessir tveir flokkar hafa fyrir jól, að vísu ásamt Borgfl., mælt mjög á móti þeim fjáröflunartillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Ef þessir tveir flokkar geta hvorki fallist á tekjuöflun né niðurskurð þá skil ég ekki í raun hvað þessir flokkar vilja. Vilja þeir virkilega afgreiða ríkissjóð með halla ár eftir ár?
    Ef ég reyni að gera grein fyrir þessum brtt. þá eru þær eftirfarandi:
     1. Við 3. gr. 4829 Aðrar arðgreiðslur ríkisfyrirtækja. Fyrir 150 millj. kr. koma 300 millj. kr.
     2. Við 4. gr. 2-101 Menntamálaráðuneyti, aðalskrifstofa 101 Yfirstjórn. Fyrir 140 millj. 903 þús. kr. koma 138 millj. 603 þús. kr.
     3. Við 4. gr. 9-101 Fjármálaráðuneyti 101 Yfirstjórn. Fyrir 66 millj. 810 þús. kr. koma 58 millj. 510 þús. kr.
     4. Við 4. gr. 9-212 101 Skattstofur, sameiginleg útgjöld. Fyrir 65 millj. 990 þús. kr. koma 58 millj. 990 þús. kr.
     5. Við 4. gr. 12-101 Viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa 101 Yfirstjórn. Fyrir 47 millj. 978 þús. kr. koma 45 millj. 578 þús. kr.
     6. Við 4. gr. Launaliðir í rekstri A-hluta stofnana lækki um 5%. Fjárhæð þessi, sem reiknast af heildarlaunum hverrar stofnunar, skal koma til lækkunar á launagjöldum öðrum en föstum mánaðarlaunum. Þar sem sértekjur stofnana eru ákveðnar sem hlutfall gjalda skulu þær lækka til samræmis við þau. Auk þess skal framlag til eftirtalinna stofnana lækka sem hér segir:
A. 4-206 Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
a. Við 190 Aðalstöðvar. Fyrir 81 millj. 390 þús. kr. koma 71 millj. 900 þús. kr.
b. Við 191 Tilraunastöðin Sámsstöðum. Fyrir 5 millj. 250 þús. kr. koma 4 millj. 650 þús. kr.
c. Við 192 Tilraunastöðvar, óskipt. Fyrir 9 millj. kr. koma 7 millj. 968 þús. kr.
B. 4-246 Veiðimálastofnun. Við 190 Almennur rekstur. Fyrir 26 millj. 10 þús.
kr. koma 22 millj. 980 þús. kr.
C. 5-201 Fiskifélag Íslands. Fyrir 39 millj. 920 þús. kr. koma 35 millj. 250 þús. kr.
D. 5-203 Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Fyrir 59 millj. 640 þús. kr. koma 52 millj. 680 þús. kr.
E. 11-201 Iðntæknistofnun Íslands. Fyrir 80 millj. 560 þús. kr. koma 71 millj. 170 þús. kr.
F. 11-203 Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Fyrir 37 millj. 450 þús. kr. koma 33 millj. 88 þús. kr.
     7. Við 5. gr. Launaliðir í rekstri B-hluta stofnana lækki um 3,5%. Fjárhæð þessi, sem reiknast af heildarlaunum hverrar stofnunar, skal koma til lækkunar á launagjöldum, öðrum en föstum mánaðarlaunum.
    Það sem þessar tillögur gera ráð fyrir er sem sagt að ekki er verið að taka á dagvinnulaunum heldur

aðeins aukagreiðslum sem stofnanir á vegum ríkisins borga. Lækkun launa um 5% þýðir 1 milljarðs kr. sparnað. Önnur laun en föst mánaðarlaun og dagvinna nema um 40% af heildarlaunum. Ef samdráttur í launakostnaði mundi fyrst og fremst koma á útgjaldaliði aðra en föst laun þyrfti að lækka þann útgjaldalið um 10,5%. Ég tel ekki mjög óraunhæft að miða við það að lækka eftirvinnu hjá ríkinu um 10,5% þar sem mér og flestum er það ljóst að í hinum almenna geira verður á næsta ári um a.m.k. þessa upphæð að ræða ef þá ekki miklu meira.
    Launaútgjöld B-hluta stofnana lækki á árinu 1989 um 3,5% sem gefur 220 millj. kr. Gert er ráð fyrir að af þeirri fjárhæð skili B-hluta stofnanir til ríkissjóðs 150 millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir að stofnanir svo sem Ríkisútvarp, Þjóðleikhús, RARIK og Skipaútgerð ríkisins greiði þetta til ríkissjóðs en í stað bæti þær fjárhagsstöðu sína með sparnaði í launaútgjöldum. Þá er gert ráð fyrir að eftirtaldir fjárlagaliðir verði lækkaðir.
     1. Fækkun starfsmanna ráðherra umfram heimildir um þrjú stöðugildi.
     2. Fækkun um þrjú stöðugildi hjá aðalskrifstofu fjmrn. vegna nýlegs flutnings tekjuáætlunar til ráðuneytisins. Þetta er talið spara 6 millj. kr. en fyrri liðurinn er áætlaður 7 millj. kr.
     3. Fækkun um fjögur ársverk vegna upptöku virðisaukaskatts. Það er áætlað að spari um 7 millj. kr. Alls er lagt til að lækka útgjöld A-hluta ríkissjóðs um 1 milljarð 20 millj. kr. og hækka arðgreiðslu B-hluta stofnana um 150 millj. kr. eða samtals um 1 milljarð 220 millj. kr.
    Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir, eins og fram kemur í brtt., enn frekari niðurskurði þannig að heildarniðurstaðan er 1 milljarður 493 millj. kr. Það má m.a. geta þess að í þessum mismun er gert ráð fyrir að lækkun til fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli nemi 4 millj. 150 þús. kr., til flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli 4 millj. kr., til Áburðarverksmiðju ríkisins tæpum 2 millj. kr., til Síldarverksmiðja ríkisins um 14 millj. kr., til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um 6 millj. 600 þús. kr. og til Lyfjaverslunar ríkisins um 3 millj. kr. og enn fleiri, t.d. til Innkaupastofnunar ríkisins. En stærsti liðurinn er Póstur og sími. Með þessum tillögum er gert ráð fyrir að hann lækki um 105 millj. kr.
    Ég hef nú reynt að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég hef lagt fram. En það er svolítið einstakt, alla vega í þessari umræðu, að í engum tillögum er gert ráð fyrir skerðingu á ríkisútgjöldum þrátt fyrir háværar raddir a.m.k. ýmissa stjórnarandstöðuflokka þar að lútandi. Þó svo að mér sé það sárt að skerða framlög til ýmissa stofnana tel ég þá skyldu hvíla á okkur sem hér störfum að axla þá ábyrgð að taka á óvinsælum málum þó svo að það kunni að líta þannig út að við séum að ráðast að ákveðnum stéttum eða ákveðnum mönnum.
    Mér hefur fundist sú umræða sem hér hefur farið fram ekki vera þannig að menn geri sér grein fyrir hve staða ríkissjóðs er slæm og hvað illa hefur verið

staðið að málum á síðasta ári. Ég tel mikla nauðsyn á því nú að ríkissjóður verði rekinn hallalaust. Þessar tillögur er m.a. lagðar fram í því augnamiði að það verði tryggt að ríkissjóður geti vegna ástands þjóðmála, og þá sérstaklega ástands atvinnulífsins, tekið á sig að einhverjum hluta þau vandamál og komið þessum atvinnufyrirtækjum til aðstoðar og þá að hluta til með beinum framlögum.
    Ég hef reynt að gera grein fyrir þessum brtt. og vil ítreka það, sem fram kom í máli mínu áðan, að ég harma það að ákveðinn þingmaður, hv. þm. Pálmi Jónsson, skuli hafa séð ástæðu til að ráðast að mér fyrir að bera upp þessa síðari tillögu mína um sparnað í ríkisrekstri. Ég hefði haldið að þeim flokki sem hann vinnur fyrir og sem barist hefur á móti öllum tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar hefði staðið nær að fylgja þessum frv.