Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn sýni spilin, sýni uppskeruna eftir það óvenjulega langa hlé sem hefur orðið á þingstörfum, hlé sem varð til vegna þess að hæstv. ríkisstjórn þurfti að sinna mjög mikilvægum málum, annars vegar að móta framtíðarstefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar og hins vegar að styrkja ríkisstjórnina með því að leita hófanna hjá Borgfl. í því skyni. Nú er þessu leyfi lokið og uppskeran er heldur rýr. Það hefur komið fram í umræðum í dag að það var fyrst í morgun sem hæstv. ríkisstjórn endanlega gekk frá þeim frauðtexta sem hæstv. forsrh. las upp og enn hefur hæstv. forsrh. ekki né lið hans í hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir getað svarað einföldustu fyrirspurnum frá Borgfl. Það sem sýnir kannski þó helst á hve veikum grunni allt þetta er reist er að það hefur komið fram opinberlega að enginn hæstv. ráðherra megi tala í þessari umræðu nema hæstv. forsrh. Líklega er það vegna þess að sú hætta gæti leynst í því ef einhver annar talaði að þá kæmi í ljós að menn væru ekki fyllilega sammála um þann loðna texta sem hæstv. ráðherra las upp. Ég sé um leið og ég segi þessi orð að það færist undrunarsvipur yfir hæstv. ráðherra aðra en forsrh. og vonandi merkir það að þeir hafi fullt málfrelsi í þessari umræðu og vonandi merkir það jafnframt að þeir séu fúsir til að taka til máls í umræðunni og svara þeim fyrirspurnum sem til þeirra hefur verið beint og mun verða beint til þeirra.
    Það merkilegasta sem ég tel að hafi gerst frá því að umræðunni var frestað í dag og menn fóru heim til sín til að fá sér að borða og undirbúa þessa umræðu var að hlusta á einn þingmann stjórnarflokkanna, hv. 10. þm. Reykv., koma fram í sjónvarpi og segja skoðun sína á því sem hér er til umræðu. Það eina sem kannski mætti kalla bitastætt í því sem hæstv. forsrh. las upp sem efnahagsáætlun og aðgerðir ríkisstjórnarinnar var að nú ætti að fella gengið til að koma til móts við undirstöðuatvinnugreinarnar um hvorki meira né minna en 2,5%. Síðan á að vísu að gefa Seðlabankanum heimild til að láta gengið síga um tvo og einn fjórða úr prósenti. Þetta eru öll ósköpin. Og af hógværð og lítillæti sagði hv. 10. þm. Reykv. að hann efaðist um að þetta nægði fyrir sjávarútveginn og útflutningsgreinarnar. Ósköp hefði verið meira gaman að því að fá hv. 10. þm. Reykv. í ræðustólinn til að segja þetta í þessum umræðum og skýra út fyrir okkur hvers vegna hann efaðist um þetta, því það er einmitt það sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja og hefur sagt allt frá því í haust, að engin gengisbreyting eða of lítil gengisbreyting þýddi að ekki yrðu til rekstrarskilyrði fyrir undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar. En það er kannski merkilegt að á sama tíma og hæstv. forsrh. flytur ræðu eftir margra vikna hlé og undirbúning, eftir langa, langa ríkisstjórnarfundi, eftir langa, langa þingflokksfundi, stendur hér uppi í ræðustól, les síðu eftir síðu, 28 vélritaðar síður þar sem ekkert er í innihaldinu sem máli skiptir, a.m.k. fyrir

sjávarútveginn og undirstöðugreinarnar, nema 2,5% gengisfelling, skuli einn af framsóknarþingmönnunum, hv. 10. þm. Reykv., sjá sig knúinn til þess að fara í sjónvarpið og segja við þjóðina: Þetta dugir ekki.
    Það er líklega einn harðasti dómur sem felldur hefur verið um verk hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar hæstv. þegar einn af þingmönnunum, að vísu úr djarfari flokki þeirra, fer fram á völlinn og segir að hann efist um að þetta nægi til þess að bjarga undirstöðuatvinnugreinunum. Nú skora ég á hv. 10. þm. Reykv. að koma hér upp í þennan ræðustól. Ég sé á svip hæstv. ráðherra að þeir eru fúsir til að gefa honum leyfi til þess. Hann fær málfrelsi í kvöld. Þrátt fyrir óskir um að hv. þm. ríkisstjórnarinnar tali sem minnst í þessum umræðum hygg ég að hann fái leyfi til þess. ( Menntmrh.: Steingrímur talaði fyrir hann líka.) Það upplýsist af hálfu Alþb. í þessari . . . ( Forseti: Forseti vill upplýsa að hv. 10. þm. Reykv. svo og hæstv. sjútvrh. eru báðir á mælendaskrá.) Ósköp er ég feginn að fá þessar upplýsingar og er þakklátur fyrir það, virðulegur forseti, því að þá þarf ég ekki að eyða meiri tíma í að fá hv. 10. þm. Reykv. í ræðustól. En ég vil vekja athygli á því, virðulegur forseti, að þetta þýðir í leiðinni að hæstv. menntmrh. fer með tómt fleipur því að hæstv. ráðherra var að enda við að segja að hæstv. forsrh. talaði fyrir þá báða. ( Menntmrh.: Hann talaði fyrir Framsfl.) Hæstv. ráðherra sagði að hæstv. forsrh. talaði fyrir hann líka. (Gripið fram í.) Nú upplýsist það til viðbótar að hæstv. ráðherra segir að hæstv. forsrh. tali fyrir hönd samstarfsflokkanna. Þetta þýðir væntanlega, virðulegur forseti, að hæstv. menntmrh. ætlar ekki að taka til máls í kvöld. ( Menntmrh.: Það er rétt til getið.) Það er nefnilega það. Hann er þá í banni í kvöld, en vonandi fáum við nú að heyra í honum innan tíðar því að auðvitað eiga margir við hann erindi þótt svo standi á um þessar mundir að hæstv. menntmrh. hafi misst ítök sín í Alþb., enda ræður formaðurinn, þessi nýi, þar öllu og reyndar ekki bara í Alþb. heldur líka í hæstv. ríkisstjórn. Og nú er svo komið að hæstv. menntmrh. fær ekki að tala. ( Landbrh.: Ertu ekki feginn?) Ég skal viðurkenna það, virðulegur og hæstv. landbrh., að ég er afskaplega feginn að þurfa ekki að hlusta á þær ræður sem hæstv. landbrh. flytur, alla vega ekki ef hann fer að lesa upp þær sem hann flutti í fyrra. Hins vegar hugsa ég að það gæti hann gert á þorrablótum úti um
allan bæ ef hann vildi fá aðhlátur að því sem hann sagði þá vegna þess að nú hefur hann í þessari hæstv. ríkisstjórn gert þveröfugt við það sem hann boðaði fyrir ári. ( Menntmrh.: Ansi yrði nú hlegið að þér einu sinni.) Það hugsa ég nú, hæstv. ráðherra, að verði gert, a.m.k. verður að koma fram í fundargerð þingsins að hæstv. menntmrh. hefur a.m.k. hlegið þrisvar undir ræðu minni og þakka ég honum fyrir það.
    Nú skulum við halda aðeins áfram, með leyfi virðulegs forseta, því það borgar sig ekki að eyða löngum tíma í þessa ræðu þegar við eigum von á svona góðum ræðum frá hæstv. ráðherrum og hv. 10.

þm. Reykv. Það sem hins vegar skiptir máli í þessu öllu saman er það, sem hefur komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, að það er ekkert, ekkert sem kom fram í kvöld hjá hæstv. forsrh. sem leiðir til þess að sjávarútvegurinn og útflutningsgreinarnar verði rekin með ágóða.
    Þegar hlé var gefið á störfum Alþingis eftir jólin var fjöldi mála óafgreiddur. Það var kannski athyglisvert við þau slit sem þá urðu á þinghaldinu að hæstv. ríkisstjórn kaus að skilja eftir bráðabirgðalögin en hafði þó gefið í skyn að búið væri að afnema það ákvæði í bráðabirgðalögunum sem bannaði verkföll. Ýmsir þeir sem hafa tekið til máls í þjóðfélaginu, jafnvel verkalýðs- og launþegaforingjar, standa í þeirri trú að hæstv. ríkisstjórn hafi afnumið þetta ákvæði. En þetta er auðvitað alrangt. Það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert er að koma fram með tillögu hér á hinu háa Alþingi um það að lagafrumvarpið breytist. En auðvitað fellur ekki verkfallsbannið niður fyrr en að samþykktum staðfestingarlögunum. Það er þess vegna kynlegt að heyra húrrahrópin úti í bæ fyrir einhverju sem ekki er orðið. Hins vegar gerðist það merkilega á þessari stundu að hæstv. fjmrh. krafðist þess við eina af síðari umræðum annars málsins sem fjallaði um bráðabirgðalögin að setja inn heimild til að geta hækkað brennivín og tóbak. Það lá þessi lifandi býsn á þannig að þegar ekki var hægt að ná fram bráðabirgðalögunum kom fram sérstakt frv. sem var togað út úr bráðabirgðalagafrv. til að knýja fram þessa heimild. Síðan eru allmargar vikur. Og mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig stendur á því að hann hefur ekki notað þessa heimild? Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er sú að í fjárlögum sem samþykkt voru í síðasta mánuði er gert ráð fyrir því að Áfengis- og tóbaksverslunin skili ákveðnum ágóða. Það er þess vegna ljóst að eftir því sem þessi hækkun dregst, þeim mun hærri verður hún að vera. Ég veit hins vegar ástæðuna: Ástæðan er sú að hæstv. ráðherra þorði ekki að hækka brennivínið og tóbakið þegar hann sá hvernig hans eigin verk höfðu leikið lánskjaravísitöluna. Ef hækkun brennivíns og tóbaks hefði bæst við á þessari stundu hefði það líklega fyllt mælinn. Þess vegna var réttara að hans áliti að byrja á því að breyta lánskjaravísitölunni en koma síðan með þessar hækkanir til þess að það bæri minna á þeim. Þetta eru vinnubrögð hæstv. fjmrh. og ef hann er ekki sammála þessu bið ég hann vinsamlegast að koma hér á eftir og skýra það hvers vegna lá svona gífurlega mikið á að fá þessa heimild á þessum tíma og hún hefur enn ekki verið notuð.
    Ég spyr einnig vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur aldrei fyrr frá því að hann varð fjmrh. látið fram hjá sér fara tækifæri til að skattpína þessa þjóð eða hækka verð þar sem hann getur, enda kom það glögglega fram í upphafi ársins þegar verðbólgan rauk af stað fyrst og fremst vegna þess að skattar höfðu verið hækkaðir og vegna þess að gengið var fellt lítillega eftir áramótin.
    Það hefði verið svo sem enn fremur full ástæða til að fá hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. til að skýra það

úr ræðustól --- ég tala nú ekki um ef hægt hefði verið að koma upp öðrum ræðustól í þinghúsinu við hliðina á þessum þannig að þeir gætu staðið báðir í ræðustól samtímis eins og þeir gera á skemmtunum sínum um landið --- hvorum það var að kenna að fjárlögin fóru þannig á sl. ári að það vantaði 7,2 milljarða og reyndar 8 milljarða upp á að þau stæðust. Það eru athyglisverð köpuryrði sem ganga á milli þeirra félaga eftir að þeir hættu að stunda sínar skemmtanir Á rauðu ljósi vítt og breitt um landið.
    Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja upp að hæstv. fjmrh. átti ekki orð yfir forvera sínum sem hafði spáð 700 millj. kr. halla á sl. ári og kom í ræðustól, fyrst reyndar í Reykjaneskjördæmi og síðan hér á hinu háa Alþingi, og sagði: Þetta er hneyksli. Það er algjört hneyksli hvernig farið hefur í ríkisfjármálunum. Hallinn verður ekki 700 millj., hann verður líkast til 3 milljarðar. Svo leið hálfur mánuður eða svo og þá kom hann aftur í ræðustól og þá var hallinn orðinn 5 milljarðar. Nú er árið liðið, bráðabirgðatölur liggja fyrir og hallinn er 7,2 milljarðar. Það á að hrópa húrra fyrir svona mönnum eða hvað?
    Hvað hefði nú hæstv. ráðherra sagt ef hann hefði verið í stjórnarandstöðu? Hvernig hefði hann ráðist á fjmrh. ef hann hefði verið t.d. í mínum sporum í stjórnarandstöðu? Hvernig hefði hann látið út í hæstv. utanrrh. ef þetta hefði gerst hjá hæstv. utanrrh. og hann væri fjmrh.? Geta einhverjir hér inni ímyndað sér það? Man einhver eftir því fyrir rúmu ári þegar hæstv. fjmrh.
réðst á þáv. fjmrh. með offorsi? (Gripið fram í.) Ef hæstv. ráðherra biður mig um að hlífa sér við því að rifja upp ræður hans enn einu sinni skal ég gera það í þetta sinn hans vegna.
    Það sem fram kemur hins vegar í þeim langa lestri hæstv. forsrh. þegar frá er skilin þessi litla gengisfelling er það að í stað almennra aðgerða er a.m.k. gefið í skyn að nú eigi að efna til sértækra aðgerða og bókstaflega sagt í sambandi við sjávarútveginn og í stað meira frjálsræðis er núna farið í átt til miðstýringar. A.m.k. er gefið í skyn að það sé gert þótt mér sýnist að hæstv. viðskrh. hafi varist nokkuð í þeim málum sem snúa að hans ráðuneyti.
    En það er athygli vert að hér á Íslandi skuli árið 1989 starfa ríkisstjórn undir forsæti manns sem lýsir því yfir kalt og ákveðið að hér á landi dugi ekki vestrænar aðferðir og við þurfum að hverfa frá frjálsræðinu á sama tíma og allar þjóðir, allar þjóðir í Vestur Evrópu, jafnvel líka í Sovétríkjunum og Kína, fara allt aðra leið, eru að auka frjálsræðið, leggja mun meira upp úr almennum aðgerðum en sértækum til að undirbúa sig undir innri markaðinn í Evrópu, hinn sameiginlega markað Evrópubandalagsríkjanna, og til þess að bæta lífskjörin. Árið 1989 situr á Íslandi ríkisstjórn sem fer í þveröfuga átt. Og þó að maður sjái ekki mikið fyrir þokunni þegar þessar 28 blaðsíður eru lesnar er þetta a.m.k. skrifað með þeim hætti að það er verið að gefa í skyn að nú eigi að

stýra hlutum með handafli. Það er sérstök ástæða til að biðja hæstv. viðskrh. og reyndar hæstv. utanrrh. sem fer með utanríkisviðskiptin að segja okkur frá því hér í kvöld í þessum umræðum hvort það sé skynsamlegra fyrir okkur sem þjóð að hverfa aftur til handaflsstýringar og miðstýringar, þar á meðal í fjármálum og peningamálum, eða hvort við eigum að gera eins og aðrar þjóðir hafa verið að gera, að færa okkur í átt til frjálsræðis. Ég veit að báðir þessir menn hafa verið á ferðalögum erlendis. Þeir hafa báðir hitt kollega sína, þeir hafa fengið næg tækifæri til að ausa úr viskubrunnum þeirra og ég spyr þá í fyllstu hreinskilni: Telja þessir ágætu hæstv. ráðherrar að það sé sérstök ástæða til þess uppi á Íslandi að fara allt aðra leið í þróun efnahagsmálanna en gert er í okkar nágranna- og viðskiptalöndum? Ef þeir svara þessu játandi, að það sé ástæða til þess að fara aðra leið, vil ég spyrja í framhaldi af því: Hvers vegna? Hvað er það sem réttlætir það?
    Hæstv. forsrh. segir í sinni ræðu, og hælir sér af því, að nú hafi verðbólgan náðst niður. Hún sé 9--10% og hafi verið það á undanförnum fjórum mánuðum. ( Forsrh.: Yfir fjóra mánuði.) Yfir fjóra mánuði. Og gefur það í skyn eða manni skilst það a.m.k. að þar með hafi heilmikill árangur náðst. En til þess að hafa ræðuna eins og sagt er á útlensku ,,up to date`` eða með nýjustu upplýsingum: hefði ekki verið ástæða fyrir hæstv. forsrh. að segja okkur hver verðbólgan er í dag, hvernig hún var þegar hún mældist síðast og hver var orsökin fyrir því að hún mældist svona há síðast? Hvort orsakanna geti verið að leita hjá hæstv. ríkisstjórn sjálfri, hvort orsakanna geti verið að leita í því að hæstv. ríkisstjórn hugsaði fyrst og fremst um ríkissjóð en ekkert um atvinnuvegina og hækkaði skatta. Hvers vegna er ekki minnst á það? Nei, það er verið að gefa í skyn að mikill árangur hafi náðst og gefa í skyn að nú sé allt komið í lag, bara halda áfram á þessari leið og þá sé allt komið í lag. Sannleikurinn er sá að ef við teygjum verðbólguna eins og við mælum hana oft með því að kanna lánskjaravísitöluna, teygjum mánaðarlega hækkun yfir heilt ár, þá væri hægt að halda því fram að verðbólga hér væri um 30%. Að vísu, eins og fyrr hefur komið fram í þessum umræðum, kaus ríkisstjórnin að breyta eða búa til nýja --- svo að ég taki nú ekki afstöðu til þess hvað hefur verið gert --- vísitölu til þess að ná verðbólgunni niður í 20% a.m.k. um eins eða tveggja mánaða skeið. Svona galdramenn ætti maður nú eiginlega að leigja til útlanda og athuga hvort maður hefði ekki eitthvað meira upp úr þeim þar en að hafa þá sem ráðherra hérna heima. Það væri a.m.k. gaman að vita hvort þær ríkisstjórnir sem þeir hafa verið að heimsækja að undanförnu mundu ekki vera tilbúnar að ná verðbólgunni niður hjá sér, þó hún sé heldur lítil, með aðgerðum eins og þessum.
    Það er athygli vert þegar kemur síðan að gengismálunum --- og kannski ekki athyglisvert --- að þá er hæstv. forsrh. samur við sig. Hann segir í fyrsta lagi: Gengisfellingar hafa ekki þýðingu fyrir sjávarútveginn. Svo segir hann: Raungengið er allt of

hátt skráð, gengið er rangt skráð. Og svo segir hann: Það er nauðsynlegt að fella gengið um 2,5% og síðan um 2,25%. Og síðan kemur einhver rolla um djúpstæðan skipulagsvanda í útgerðinni o.s.frv. Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. forsrh. ( Forsrh.: Ég hélt að hv. þm. væri með ræðuna.) Ég er með ræðuna. Mér hefur hins vegar ekki gefist tími til að lesa hana alveg frá orði til orðs, en ég hlustaði mjög vel á hana. Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. hvað það er sem hann kallar ,,djúpstæðan skipulagsvanda``. Getur hann skýrt það betur út en kemur fram í ræðu hans? Hvað er ,,djúpstæður skipulagsvandi"? Það er tekið beint upp úr ræðu hæstv. forsrh. Eins þætti mér vænt um það ef hæstv. forsrh. vildi nú einu sinni segja okkur nákvæmlega hvað hann á við þegar raungengi íslensku krónunnar er of hátt: Hvað telur hann að þurfi að fella gengið mikið til þess að raungengið sé eðlilegt?
Er það 10%, 12% eða 15%? Getur hann sagt okkur nákvæmar hvað hann á við? Það veit öll þjóðin að hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. stóðu í slagsmálum í ríkisstjórninni fyrir því að fá einhverja gengisfellingu. Það veit öll þjóðin líka að þeir voru með tölur á borð við 10 og 12% og það vita allir þeir sem stunda fiskvinnslu og útgerð um allt land að þeir áttu von á öðru en þessu. En útkoman var 2,5% og 2,25%. En ég spyr: Hvað var það sem hæstv. ráðherra hafði í huga þegar hann í upphafi sagði og hefur reyndar af og til verið að tala um að gengið sé rangt skráð?
    Ef hæstv. ráðherra kýs get ég verið nákvæmari í minni fyrirspurn. Ég get spurt að því í fyrsta lagi: Er hæstv. forsrh. sammála mér um að það eigi að skrá gengi íslensku krónunnar þannig að stefnt sé að viðskiptajöfnuði við útlönd? Ef hæstv. ráðherra er sammála því, sem ég veit að hann hefur stundum sagt, ef hann er sammála því í dag skulum við segja til að vera enn þá nákvæmari þannig að maður sé ekki að rifja upp fyrri ummæli, hvað telur þá hæstv. ráðherra að þurfi að fella gengið mikið til þess að jöfnuður náist í viðskiptum við útlönd? Og getur nú varla verið nákvæmar spurt.
    Það er talsvert fjallað um málefni viðskrn. í ræðu hæstv. ráðherra. Auðvitað ber texti ræðunnar það með sér að hér er á ferðinni málamiðlun. Það er gefið í skyn að það eigi að vera aðhald, en þegar maður les betur ofan í textann eftir að hafa hlustað á hæstv. forsrh. kemur í ljós að allt það sem þarna stendur fer nákvæmlega eftir því hver framkvæmdin verður.
    Hér segir m.a. að það verði sex mánaða umþóttunartímabil í verðlagsmálum með sérstöku aðhaldi að verðhækkunum. Svo er sagt að fyrirtækjum sé skylt að tilkynna verðhækkanir og ástæður fyrir þeim til verðlagsyfirvalda þegar eftir er leitað og síðan segir, með leyfi forseta: ,,Komi í ljós að verðhækkanir verði umfram það sem brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna gefa tilefni til skulu verðlagsyfirvöld beita tímabundið ýtrustu ákvæðum verðlagslaga eftir því sem efni standa til.``
    Mig langar til að spyrja hæstv. viðskrh., sem ég

býst við að hafi samið þennan texta, hvað þýðir þetta á mæltu máli?
    ,,Brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna gefa tilefni til.`` Þýðir þetta að fyrirtækin mega hækka vöru eða þjónustu ef þau eru rekin með halla af því að það hlýtur þá að vera afkoman sem kallar á slíka hækkun? Hvað eru ,,brýn kostnaðartilefni`` og hvað þýðir það ,,að beita tímabundið ýtrustu ákvæðum verðlagslaga eftir því sem efni standa til"? Þetta fer ákaflega vel í munni, ekki síst í munni forsrh. sem allir vita að stefnir að handaflsstýringu og miðstýringu, en frjálshyggjumann sem ég kalla nú hæstv. viðskrh. sem talar a.m.k. stundum þannig að hann styðji frjálsræðishugmyndir er ástæða til þess að spyrja: Hvað þýðir þetta? Er þetta skrifað fyrir hæstv. forsrh. til þess að hann sætti sig við að hafa fengið einhvers konar aðhald í sinn hlut en þetta þýðir í raun og veru ekki neitt og þannig hafi hæstv. viðskrh. platað hæstv. forsrh. Eða er einhver merking á bak við þetta?
    Það er ýmislegt fleira athygli vert í þessu plaggi sem hæstv. forsrh. las og kallaði yfirlýsingu í efnahagsmálum. Þar á meðal segir hæstv. forsrh. í þessari ræðu sinni, með leyfi forseta: ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til tímabundna breytingu á verðlagslögum þannig að á umþóttunartímanum [sem er sex mánuðir] verði hækkun á orkuverði háð samþykki verðlagsyfirvalda.``
    Treystir ekki hæstv. viðskrh., hæstv. orkuráðherra og iðnrh., fyrrverandi forstjóri og núverandi jafnvel Þjóðhagsstofnunar, Þjóðhagsstofnun í þessu máli? Nú er það ljóst að lögum samkvæmt er það Þjóðhagsstofnun sem fylgist með þessu og þessari hækkun og verður að setja sinn stimpil á hækkunarbeiðni Landsvirkjunar. Er þetta vantraust á þá stofnun sem hæstv. ráðherra hefur stýrt um áratuga skeið eða, sem mig grunar heldur, er þetta gert til að þóknast dyntunum í hæstv. forsrh. sem telur að allt illt sé frá Landsvirkjun komið?
    Og áfram vil ég spyrja: Hvað þýðir þetta þegar það liggur fyrir staðfest frá hæstv. ríkisstjórn að Landsvirkjun þurfi 10% hækkun til að vera rekin með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir og hvað þýðir þetta þegar tekið er tillit til þess að Rafmagnsveitur ríkisins þurfa 10--12% hækkun umfram þessa hækkun? Þýðir þetta að hæstv. ríkisstjórn ætlar um sex mánaða skeið að koma í veg fyrir raforkuhækkun sem þarf að vera 20% til að halda niðri verðlagi en fá þetta síðan allt í hausinn í haust eða í sumar? Er þetta gert til að láta ekki á þessu bera rétt á meðan samningar standa yfir á milli verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda, fela vandamálin, safna uppistöðulóni eins og gert var fyrir 1983? Er þetta gert til þess? Ef ekki, til hvers er þá þessi texti? Hann verður ekki skilinn öðruvísi en svo, þegar slíkt fyrirtæki er tekið út úr eins og þessi orkufyrirtæki og þó einkum Landsvirkjun, að hæstv. viðskrh. hafi annaðhvort sjálfur sett eða verið þvingaður til að setja þennan texta niður til þess að hæstv. forsrh. geti lesið hann hér upp. Þetta er fullt vantraust á Þjóðhagsstofnun. --- Kannski hefði ég átt frekar að snúa mér til hæstv. fjmrh. sem var

stjórnarmaður í Landsvirkjun á sínum tíma.
    En það er athygli vert að um það leyti sem menn voru að ræða hér um
ákvarðanir í verðlagsmálum og vaxtamálum sagði hæstv. viðskrh. orðrétt í forsíðuviðtali í Alþýðublaðinu, nánar tiltekið laugardaginn 28. janúar: ,,Ég held því statt og stöðugt fram að það sé aðall jafnaðarstefnu í nútímaþjóðfélagi að beita frjálsræði í atvinnu- og efnahagsmálum og markaðslausnum þar sem þær eiga við til þess að standa straum af öflugu velferðarríki og jöfnun lífskjara. Þetta séu alls ekki andstæð atriði heldur styðji hvert annað. Menn eigi ekki að stefna að samþjöppun valdsins nema alveg hreint við sérstakar aðstæður þegar ekki verður hjá því komist.``
    Síðar: ,,Það er vont að framlengja tímabundnar ráðstafanir með sams konar eða náskyldum ráðstöfunum því það er ekki tímabundið sem varir. Ég vara því frekar við slíkum vinnubrögðum.``
    Nú spyr ég hæstv. ráðherra við hvað er átt. Er ekki nákvæmlega átt við það að hæstv. ráðherra er að mótmæla því að framlengja verðstöðvun sem verðlagsyfirvöld og einkum og sér í lagi yfirmaður verðlagsmála á Íslandi hefur sagt að ekki sé hægt að gera lengur en um mjög takmarkaðan tíma og fram hefur komið opinberlega af hans hálfu? Átti hæstv. ráðherra við það og ef það er rétt hvernig stendur þá á því að hæstv. ráðherra lætur undan hæstv. forsrh. og lætur líta svo út að nú eigi að halda öllu í járngreipum um sex mánaða skeið? Er þetta ekki gert til að sýnast? Er einhver alvara á bak við þetta? Ætla menn að taka á þessum málum með handaflsstýringu og miðstýringu eða er þetta sett á blað eingöngu til þess að friðþægja hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. og til að geta setið áfram í ríkisstjórn sem flestir sjá nú reyndar að er handónýt þegar kemur að merg málsins sem er auðvitað að reyna að koma atvinnulífinu á flot? Það væri gott ef hæstv. ráðherra gæti svarað þessari fyrirspurn því öðruvísi getur maður ekki skilið hvað hann hefur verið að gera í íslenskum stjórnmálum. Fyrri yfirlýsingar stangast á við þær gjörðir sem hann hefur nú sagst ætla að taka að sér ef það á að skilja þetta sem beina miðstýringu og handaflsstýringu eins og skilja mátti af hæstv. forsrh. sem mikið leggur upp úr slíkri stjórn.
    Hæstv. forsrh. ræddi talsvert um vaxta- og peningamál og hefur reyndar verið ansi iðinn við það og það kemur fram í textanum sem hæstv. forsrh. las upp að sá texti er málamiðlunartexti á milli andstæðra sjónarmiða og getur sjálfsagt hvor um sig haldið sínu fram. Hins vegar skiptir framkvæmdin mjög miklu máli og þess vegna hljóta menn að beina spjótum sínum og spurningum til hæstv. viðskrh. Þar á meðal langar mig til að spyrja hæstv. viðskrh. að því sem reyndar hefur komið fram í fyrirspurnum frá öðrum hér í dag: Til hvers á að kveða á um það að stærstur hluti viðurlaga sem Seðlabankinn innheimtir af innlánsstofnunum renni í ríkissjóð? Getur verið að hér sé um málamiðlun að ræða vegna þess að einhverjir í hæstv. ríkisstjórn hafi haft það hugmyndaflug að láta

sér detta í hug að nota ætti þessa peninga til að kaupa hluti í fyrirtækjum sem standa illa? Getur það verið? Getur það verið að einhver í hæstv. ríkisstjórn hafi átt uppástungu um að þá peninga sem bankarnir verða að borga í Seðlabankann þegar þeir fara yfir á heftinu vegna þess að þeir fá ekki fjármagn til baka frá fyrirtækjum í sjávarútvegi, sem þeir hafa lánað, eigi að nota til þess að ríkið eða ríkisrekinn sjóður gæti keypt hlut í þeim fyrirtækjum? Það er nú fínn þjóðnýtingarkommúnismi ef einhverjum hefur dottið þetta í hug. Getur verið, hæstv. viðskrh., að textinn sem settur er hér inn, að þetta eigi að fara í ríkissjóð, sé málamiðlunartexti vegna þess að einhverjum hafi dottið slík vitleysa í hug? Og finnst hæstv. viðskrh. vera viðeigandi að nota slíkt fé eins og skatta í ríkissjóð, fjármuni sem verða til vegna erfiðleika í viðskipta- og athafnalífinu? Finnst hæstv. viðskrh. og iðnrh., manni sem ber talsverða ábyrgð á stefnu ríkisstjórnarinnar og störfum og ábyrgð á því hvernig gengur í atvinnulífinu, það við hæfi að peningar sem verða til vegna þess að fyrirtækin geti ekki borgað bönkunum, peningar sem verða til vegna þess að bankarnir þurfa að borga yfirdráttarvexti í Seðlabankanum séu færðir beint í ríkissjóð? Ef svo er óska ég eftir því allra náðarsamlegast að hæstv. ráðherra skýri það út fyrir okkur óbreyttum þingmönnum. Ef hér er hins vegar um að ræða einhverja málamiðlun, sem ég hygg nú að frekar sé, þá er hægt að afsaka hæstv. ráðherra fyrir að hafa þó varist miðstýringar- og skattaöflunum með þessum hætti, en þetta er hvergi nærri nóg.
    Hæstv. forsrh. gaf í skyn að nú ætti að endurlífga okurlögin, það ætti að semja lög um misneytingu sem reyndar er ekki okur því að í gömlu okurlögunum var gerður munur á misneytingu og okri og reyndar er misneyting að sjálfsögðu bönnuð í dag samkvæmt almennum hegningarlögum og samkvæmt samningalögum. En ef það er meiningin, sem ekki kemur fram og ekki sést í ræðu hæstv. ráðherra nægilega skýrt, að það eigi að taka upp einhverja okurklásúlu aftur, það eigi að koma í veg fyrir frjálsa vexti sem hæstv. forsrh. kom á á sínum tíma í þeirri ríkisstjórn sem hann stýrði fyrir nokkrum árum, hvernig ætla menn þá að fara að til að þeir lendi ekki í sömu vandræðum og þá? Hvað um afföll, kröfur á þriðja mann? Má selja þær á hvaða verði sem er? Hvernig stendur á því að hér uppi á Íslandi, eina landinu á Vesturlöndum, skuli mönnum detta þetta í hug loksins þegar menn eru lausir við þetta vandamál úr íslenskum lögum?
    Það er full ástæða til þess, hæstv. viðskrh., sem fer með þessi mál, að fá þetta frekar skýrt út. Hér segir, með leyfi forseta, og les ég þá úr ræðu hæstv. forsrh.: ,,Ríkisstjórnin mun flytja frv. um breytingu á vaxtalögum til þess að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu á aðstöðu í lánsviðskiptum.``
    Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Þetta má lesa og skilja með ýmsum hætti og þess vegna skiptir miklu máli hvað þetta þýðir. Lánsviðskipti fara ekki fram bara á milli banka og einstaklinga og banka og

fyrirtækja og ekki heldur eingöngu á milli verðbréfafyrirtækja og einstaklinga og verðbréfafyrirtækja og fyrirtækja. Lánsviðskipti fara líka fram á milli einstaklinga. Og hvað ætla þá hæstv. ráðherrar að gera með afföll sem er gamalt vandamál og þeir þekkja sem þurft hafa að fást við a.m.k. lögfræði og viðskiptafræði og skilja hvernig kaupin gerast á eyrinni í fjármálum einstaklinga og fyrirtækja?
    Það er ákaflega merkilegt að þegar búið var að skýra það út að nú ætti að fylgja efnahagsáætlun Norðurlanda, sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði hér ágætlega að umtalsefni, átti að búa íslenska bankakerfið undir breytingar vegna sameinaða fjármagnsmarkaðsins í Evrópu og síðan segir hæstv. forsrh. orðrétt: ,,Í framhaldi af því verður m.a. kannað hvort heimila megi viðurkenndum erlendum bönkum starfsemi hér á landi.`` Og ég spyr hæstv. viðskrh. Það á að kanna hvort heimila megi. Hver er það sem á að gefa slíka heimild? Alþb.? Við hvað er átt? ( EgJ: Það má ekki tala.) ,,Í framhaldi af því verður m.a. kannað hvort heimila megi.`` Af hverju er þetta orðað með þessum sérkennilega hætti? Getur það verið að einhver í hæstv. ríkisstjórn hafi togað í spotta? Getur verið, og það væri stórkostlega broslegt, að það þurfi að spyrja Alþb. að því hvort þetta skuli ná fram? Eða hvað þýðir þessi texti? Er einhver merking á bak við þetta og hvernig er þetta hugsað? Ég vona svo sannarlega, hæstv. viðskrh., að hérna sé á ferðinni hlutur sem menn ætli sér að gera í raun, en hvers vegna þarf að spyrja um slíkt leyfi eins og textinn gefur til kynna? Getur verið að það hafi verið troðið á tánum á hæstv. ráðherra og hver skyldi hafa gert það? Hæstv. forsrh.? Hæstv. fjmrh.?
    Hæstv. viðskrh. hefur öllum öðrum mönnum fremur á Íslandi skýrt það út hvers vegna vextir eigi að vera frjálsir. Hann skrifaði lærða og góða blaðagrein fyrir rúmu ári. Hann sagði þar m.a., með leyfi forseta:
    ,,Vextirnir verða ekki hrópaðir niður með hástemmdum yfirlýsingum á þingi eða í fjölmiðlum. Bein afskipti stjórnvalda af ákvörðun vaxta kunna heldur ekki góðri lukku að stýra. Íslendingar hafa af því langa reynslu að skömmtun fjármagns í verðbólgu er forskrift af sóun fjármuna og misskiptingu auðs.``
    Nú spyr ég ári síðar: Stendur hæstv. viðskrh. við þá skoðun sína sem kemur fram í þessari grein? Ef svo er, hvað hefur þá gerst sem gerir það að verkum að nú er gefið í skyn í ræðu hæstv. forsrh., sem ég veit að hæstv. viðskrh. hefur farið höndum um og kannski samið að hluta, að nú eigi að fara að stýra vöxtum með handafli? Hvers vegna er þá verið að æpa vextina niður eða eins og hér er orðað ,,með hástemmdum yfirlýsingum á þingi"? Var þetta ekki reynt í haust? Í haust sagði hæstv. ríkisstjórn: Vextirnir fara niður um 3 prósentustig. Þeir bara gerðu það ekki. Þegar þeir voru lækkaðir lítils háttar á spariskírteinum, þá seldust þau ekki. Þegar hæstv. fjmrh. fór að skrifa undir skírteinin var ekki hægt að selja þau. Það er einmitt það sem hæstv. viðskrh. var að segja í sinni grein. Hvernig á að skilja ræðu hæstv.

forsrh.? Að það sé vaxtafrelsi áfram eða að það eigi að stýra vöxtunum eða hrópa þá niður með hástemmdum ræðum? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra skýri það út. Ef hæstv. viðskrh. man ekki eftir því hver kom vaxtafrelsinu á get ég rifjað það upp fyrir honum með hans eigin orðum og leyfi forseta því að í þessari sömu grein sagði hæstv. ráðherra: ,,Frelsi banka til að ákveða vexti sína var leitt í lög í tíð ríkisstjórnar undir forsæti Steingríms Hermannssonar þótt hann virðist ekki lengur vilja kannast við krógann. Með þeirri lagasetningu var beinlínis stefnt að því að takmarka eins og kostur væri afskipti stjórnvalda af vaxtaákvörðunum.`` Þetta rifja ég upp fyrir hæstv. viðskrh. úr hans eigin orðum.
    Það er svo margt í þessari ágætu grein hæstv. viðskrh. sem full ástæða er til að vitna til núna, einmitt núna í dag, vegna þess að nú skiptir það máli þegar þessi sjónarmið takast á hvort hæstv. ráðherra ætlar að hverfa frá þeim grundvallarsjónarmiðum sínum að ná niður vöxtum með jafnvægisstefnu, með því að koma jafnvægi á í íslenskum efnahagsmálum eða hvort hann ætlar að elta hæstv. forsrh. og aðra þá sem telja að það sé hægt að hrópa vextina niður, burtséð frá því hvort það sé grundvöllur fyrir atvinnulífinu eða hvort það sé jafnvægi hérna í efnahagsmálum.
    Mér finnst, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra þurfi að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það er svo margt gott í þessari grein að það er synd tímans vegna, virðulegur forseti, að geta ekki lesið meira upp úr henni. En þó ætla ég að lesa hérna eitt og það er þetta, með leyfi forseta:
    ,,Athyglisvert er``, segir hæstv. ráðherra, ,,að ekkert vestrænt ríki reynir lengur að stýra vöxtum með valdboði. Öll Norðurlöndin fylgja nú eindreginni
frjálsræðisstefnu í þessu efni.`` Punktum, basta.
    Og ég spyr: Hvernig stendur á því að hæstv. viðskrh., þessi gáfaði maður með þá miklu reynslu, þennan djúpa skilning á efnahagslífi þjóðarinnar stendur að því --- (Gripið fram í.) Að hans áliti a.m.k. er hann það. (Gripið fram í.) Ég veit að hann er hógvær og lítillátur, ráðherrann. --- að nú er verið að gefa eitthvað allt annað í skyn í þessum aðgerðum núna? Er það vegna þess að hæstv. viðskrh. er svo klókur. Hann hefur framkvæmdina með höndum og ætlar að afgreiða málið með því að segja við hæstv. forsrh.: Hérna kemur þetta allt. Þetta er aðhald. Þetta er stýring, handstýring. En í raun þýðir þetta það að það á ekkert að gera annað en að halda frjálsræðinu áfram. Textinn sem hæstv. forsrh. er látinn lesa upp er tóm froða. Það skilur ekki nokkur maður sem þetta les hvað þetta þýðir og við verðum þess vegna að fá að vita hvernig á að framkvæma þessa hluti. Það getur hæstv. ráðherra viðskiptamála sagt okkur. Skal ég nú ekki lesa meira úr sérdeilis góðri grein hæstv. ráðherra sem orðin er um það bil ársgömul.
    Það sem er kannski hins vegar brandarinn við þetta allt saman er að það er Seðlabanki Íslands sem á að sjá um þetta, Seðlabankinn, hæstv. utanrrh., 166 starfsmenn í Seðlabankanum. 16 sem vinna og 150

naga blýanta, sagði hæstv. ráðherra á fundi á Akureyri 21. janúar sl., á laugardegi. Ég spyr, hæstv. utanrrh., ef ég má ná þó ekki væri nema öðru eyra þínu, af því að hæstv. ráðherra rakst inn í þingsalinn: Hvort á að þjálfa blýantsnagarana upp í það að hafa eftirlit með þessu kerfi eða á að leggja alla þessa vinnu á þessa 16 sem vinna? Og ætlar hæstv. ráðherra að segja okkur hverjir þessir 16 eru eða a.m.k. segja þeim það til þess að þeir viti hvað sé í vændum --- eða líst hæstv. utanrrh. á það á annað borð að senda öll þessi verkefni í Seðlabankann? Það mundi kannski spara nokkra blýanta ef hætt er að naga þá þar ef taka má orð hæstv. ráðherra trúanleg. ( Utanrrh.: Það á að virkja alla stassjónina.) Það á að virkja alla stassjónina. Þá veit maður það. Hæstv. ríkisstjórn hefur komist að því að nú eigi að virkja þann óvirkjaða kraft sem býr í 150 starfsmönnum Seðlabankans sem hingað til hafa verið að naga blýanta að áliti utanrrh. Nú hefur hæstv. viðskrh. fundið út að það má nota þetta fólk. Og til hvers? Jú, það er til þess að fylgjast með þessum skrýtnu málum sem koma fram í ræðu hæstv. forsrh. um vaxtamálin og peningamálin.
    Kem ég nú að þeim kafla ræðunnar sem fjallar um ríkisfjármál. Ég skal ekki vera langorður um þetta efni frekar en um önnur sem ég hef talað um hér í kvöld. En í þessum kafla, sem áreiðanlega er saminn af hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. las hér upp, segir að það verði að hefja eftirlit með launakostnaði ríkisins og það hert og stefnt að 4% niðurskurði launaútgjalda. Og nú vil ég, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. verði kallaður í salinn. ( Forseti: Var það hæstv. fjmrh. sem þingmaðurinn saknaði?) Að sjálfsögðu saknaði ég hans. ( Forseti: Það verður beðið um að hann gangi í salinn.) ( Forsrh.: Má ég ekki ganga niður augnablik?) Fimm mínútur. Ég vona að virðulegur forseti taki tímann. Það er að forsrh. hafi leyfi í fimm mínútur. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. mun vera í húsinu og kemur von bráðar. Gæti hv. þm. tekið annað paragraf úr ræðu sinni til að flýta fyrir?) Það er alveg sjálfsagt, virðulegur forseti.
    Mig langar aðeins til þess að ræða hér um sjávarútveginn þó lítið sé sagt um hann. Þar er eiginlega gefið í skyn að hæstv. sjútvrh. hafi hitt og þetta í hyggju en nánast gefið í skyn að ekki standi hæstv. ríkisstjórn öll að því sem segir í ræðu hæstv. ráðherra. Þar á meðal segir, með leyfi forseta: ,,Af sértækum aðgerðum sem ætlað er að treysta stöðu sjávarútvegsins til frambúðar vil ég nefna: Sjútvrh. hefur látið semja frv. um úreldingarsjóð fiskiskipa sem er til meðferðar hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar.`` Og nú langar mig til að spyrja hæstv. sjútvrh.: Getur hann frætt okkur um það hvernig viðtökur hafa orðið við þessari hugmynd, sem er nú ekki alveg splunkuný, hún hefur verið nokkrar vikur á ferðinni, í þingflokkum stjórnarflokkanna? Liggur það fyrir að þingflokkar stjórnarflokkanna muni samþykkja þá hugmynd sem þar kemur fram og getur hæstv. ráðherra gefið okkur betri skýringar á því sem á að gerast í þessum málum en komu fram í ræðu hæstv.

forsrh. og þá alveg sérstaklega um þetta atriði? Sjálfur get ég sagt að ég efast mjög um að þessar sértæku aðgerðir séu til góðs. Ég efast um það, eins og reyndar hefur komið fram hjá öðrum ræðumönnum í dag, að nýtt og aukið sjóðakerfi í sjávarútvegi sé til bóta. Ég hygg að það væri miklu betra ef við kæmumst hjá því að stofna til nýs sjóðakerfis en gætum haft hinn almenna rekstrargrundvöll sjávarútvegsins þannig að vel rekin fyrirtæki gætu borið sig og aukið eigið fé sitt. Það er aðalatriði málsins og ég veit að hæstv. sjútvrh. er sammála mér í því efni þó að hans sjónarmið megi sín harla lítils í ríkisstjórninni ef marka má ræðu hæstv. forsrh.
    Það er kannski óþarfi, virðulegur forseti, að fjalla meira um þau mál. Það er þó athygli vert að enn einu sinni skýtur upp kollinum að nú eigi að greiða niður raforku og ef ég skil rétt þann texta sem hæstv. forsrh. fór með mun vera átt við niðurgreiðslur úr ríkissjóði, en á sínum tíma hafði það komið til greina að taka mætti þessa peninga úr raforkugeiranum sjálfum. Ég tek sem
jákvætt svar þá þögn sem kemur fram í þessu efni vegna þess að hugtakið niðurgreiðsla er oftast notað um niðurgreiðslur úr ríkissjóði.
    Það sem auðvitað skiptir máli, virðulegur forseti, er enn og aftur það að þessar aðgerðir, þessar yfirlýsingar, koma engan veginn að því gagni sem þær þyrftu að gera og er raunar furðulegt að hæstv. ríkisstjórn, sem hefur setið í 4--5 mánuði, skuli ekki hafa komið sér saman um aðgerðir sem eru drýgri en þær sem hér eru til umræðu.
    Nú sé ég, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. hefur gengið í salinn og ætla ég þá að snúa mér að honum og æskja þess að hann skýri frekar nokkur atriði sem komu fram í ræðu hæstv. forsrh. og snúa að ríkisfjármálum.
    Í fyrsta lagi langar mig til að vita hvernig eftirlit með launakostnaði verður hert þannig að það sé hægt að ná 4% niðurskurði launa og útgjalda. Mér er kunnugt um að hæstv. ráðherra hefur um þetta fjallað þegar hann beið á rauðu ljósi einhvers staðar úti á landi um daginn, en það er full ástæða til þess að hann hér í þingsal skýri hv. Alþingi frá því hvernig hann hyggist ná þessu meginmarkmiði sem kemur fram í ræðu hæstv. forsrh.
    Auðvitað er þetta hægt. Það er til að mynda hægt með því að flytja þjónustu frá ríki til einkaaðila, láta almenning greiða fyrir þjónustuna beint. Það er auðvitað hægt með því að fækka opinberum starfsmönnum og það er auðvitað hægt með því að lækka launin. Ég kýs hins vegar að giska ekki á það hér hvernig á að fara að þessu, en bið hæstv. ráðherra um að segja okkur það í nokkrum orðum, þau þurfa ekki að vera mörg, hvernig hann hyggst fara að.
    Jafnframt vil ég gjarnan fá frekari hugmyndir um hvernig leggja skuli á svokallaðan fjárfestingarskatt sem á að koma í staðinn fyrir skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég spyr hæstv. ráðherra: Veit hann að fjárfesting í atvinnulífinu hefur að undanförnu verið jafnvel minni en mörg árin þar á undan? Er einhver

sérstök ástæða til þess einmitt á þessari stundu og á þessu ári að reyna að koma í veg fyrir fjárfestingar í atvinnulífinu, jafnvel skynsamlegar fjárfestingar, með nýjum skatti þar sem skattur á að renna í ríkissjóð? Telur hæstv. ráðherra virkilega að þetta sé stýrikerfi sem megi nota til að koma í veg fyrir vitlausar fjárfestingar og er ætlunin að þessi fjárfestingarskattur sé altækur og nái til allra atvinnugreina, einnig til annars húsnæðis en skrifstofu- og verslunarhúsnæðis? Á þetta að ná til iðnaðarins fyrir framleiðsluhúsnæði, til sjávarútvegsins? Hvernig er þetta hugsað? Ég ætla ekki að tala um aðrar hugmyndir skattaráðherrans hæstv., en ég vil hins vegar biðja hann í leiðinni, ef hann vill vera svo góður að standa upp og tala hér á eftir en mér skildist áðan að hann hefði hér fullt málfrelsi, að segja okkur frá því hvernig gengur að selja spariskírteini ríkissjóðs með nýju aðferðinni. Hve mikið hefur verið leyst út, hve mikið hefur verið selt og hver er staðan? Við vitum hver staðan var fyrir nokkrum mánuðum þegar bankarnir neituðu að taka sinn skammt til viðbótar og mig langar til að spyrja hvort hæstv. ráðherra telji, miðað við þá reynslu sem hann hefur á þessu ári eftir að hann hóf herferðina og fór að bera spariskírteini inn á hvert heimili og stinga þeim inn í hvert launaumslag, að nú megi lækka vextina. Þetta langar mig til að biðja hæstv. ráðherra að fjalla um nú í upphafi þinghalds að loknu jólaleyfi.
    Það hefði verið ástæða til þess, virðulegur forseti, að tala nú við hæstv. iðnrh., en hann gegnir bæði viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu, er ráðherra í hvoru tveggja, en hugsanlega getur hæstv. fjmrh. hjálpað upp á sakirnar því að mér skilst að hæstv. forsrh. hafi gefið hæstv. viðskrh. leyfi til að fara í kaffi andartak áðan, að vísu ekki nema í nokkrar mínútur en það er sama. Mig langar til að spyrja: Hvað þýðir það þegar sagt er að það eigi að endurskoða vörugjaldið til að koma til móts við þarfir iðnaðarins? Getur það þýtt að hæstv. ríkisstjórn hafi séð að sér og ætli nú að hverfa frá því vörugjaldi sem sett var á um síðustu áramót? Ef svo er ekki spyr ég hæstv. fjmrh., en það hlýtur að hafa verið haft samráð við hann um þetta efni: Við hvað er átt? Hvernig á að breyta vörugjaldinu og endurskoða það þannig að það komi iðnaðinum til góða?
    Ég ætla ekki að tala meira um iðnaðarmál en það er vissulega gaman að heyra það í ræðu hæstv. forsrh. að ein helsta aðgerðin í iðnaðarmálum er sú sem við undirbjuggum og fórum af stað með og nánast kláruðum í þeirri ríkisstjórn sem starfaði til sl. hausts undir forsæti hv. 1. þm. Suðurl.
    Í lokin, virðulegur forseti, vil ég aðeins minnast á eitt. Það snertir svokallaðan matarskatt. --- Virðulegur forseti. Það þarf að koma fram að ég hef ræðu hæstv. ráðherra undir höndum því að stundum vitna ég orðrétt til þeirrar ræðu ef rétt hefur verið upp lesin. Það segir í ræðu hæstv. forsrh.: ,,Fulltrúar Borgfl. hafa lagt mikla áherslu á lækkun á verði innlendra matvæla. Það gerir ríkisstjórnin einnig eins og fram kemur í málefnasamningi og ég hef ítrekað hér. Eðlilegt er að það gerist í tengslum við

kjarasamninga.``
    Nú er það afar mikilvægt, hæstv. forsrh., að fá það mjög skýrt, afar skýrt fram í þessum umræðum hér í kvöld hvað þetta þýðir. Við vitum og allir þeir sem hlusta á útvarp, horfa á sjónvarp og lesa blöð að Borgfl. hefur gert kröfu
um að matarskatturinn allur eða a.m.k. að hluta verði lagður af núna á næstunni, innan tveggja mánaða. Er hæstv. forsrh. að svara tilboði Borgfl., er hann að svara Borgfl. með því að segja: Við erum sammála ef þetta gerist í næstu kjarasamningum? Ber að skilja þetta svo? Og hvað segir nú hæstv. utanrrh. um rýtinginn? Er það ekki indælt, hæstv. ráðherra, að fá rýtinginn í bakið í næstu kjarasamningum eða fá hann í skipapósti frá Borgfl. eftir tvo mánuði? Man hæstv. ráðherra eftir því í haust þegar við sátum saman í ríkisstjórn að þegar minnst var á það að lækka matarskattinn bara örlítið og taka tekjuskatt á móti hélt hann um hjartað á sér, horfði framan í sjónvarpsáhorfendur og sagði: Þetta er rýtingur í bakið á mér. Og forsrh., sem kom með honum rétt eins og Baldur Georgs kom með dúkkuna sína í gamla daga, sagði: Þetta er alveg rétt hjá honum. Hann er með rýtinginn í bakinu.
    Hvað heitir þetta, virðulegur ráðherra? Heitir þetta að fá rýting í pósti og stinga honum sjálfur í bakið á sér? Heitir þetta það? Eða heitir þetta að það eigi að semja um það að fá rýtinginn í bakið á sér? Nú væri gaman að fá hæstv. ráðherra hingað upp og skýra það út fyrir okkur sem ekki vitum en munum: Hvaða munur er á því að lækka matarskattinn núna eða gera það sl. haust? Er munur á því að fá rýtinginn snögglega í bakið eða fá rýtinginn í bakið í samningum eða fá hann í pósti eða fá hann að kröfu Borgfl.? Svari nú hæstv. ráðherra sem búinn er að ferðast um allt landið og segja: Hér er ég kominn og ég er tilbúinn að svara hverju sem er. Komi hann hér í ræðustólinn og skýri hver munurinn sé. ( EgJ: Hann má ekki tala.) Nú, hann má ekki tala.
    Virðulegur forseti. Það væri vissulega þess virði að fara betur ofan í þessa ræðu, þessa frauðræðu, þessa froðuræðu hæstv. forsrh. sem hann flutti í kvöld. Ég hef nefnt örfá atriði. Ég held satt að segja að það sé alveg rétt sem stóð í Alþýðublaðinu um daginn og þá er verið að lýsa ástandinu hér á landi og þá sérstaklega ríkisstjórninni. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Það er orðið óþolandi ástand í málefnum einnar þjóðar þegar óvissan er það eina sem vissa er fyrir og aldrei hægt að vita nokkurn veginn hver stefnan er næsta dag.``
    Ég held, eftir að hæstv. forsrh. hefur hér lokið sinni ræðu og eftir að hún hefur verið skoðuð og menn hafa séð að í henni er harla lítið sem ekki neitt, að menn geti tekið undir það sem kom fram hjá þessum ágæta manni sem skrifaði í Alþýðublaðið, að í raun og veru hefur maður enga vissu lengur nema fyrir óvissunni í þessu þjóðfélagi.