Fyrirspurn um vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið úrskurðað með atkvæðagreiðslu að það sé óþinglegt að ræða óráðherraleg ummæli á Alþingi. Þingmenn njóta hér ákveðinnar friðhelgi og þinghelgi þegar kemur að því að standa fyrir því máli sem þeir flytja á Alþingi úti í þjóðfélaginu. Það er ekki hægt að sækja þá til saka fyrir það sem þeir láta sér af munni fara hér á Alþingi eða gera þá ábyrga fyrir máli sínu að öðru leyti.
    Ég sé ekki betur en það sé verið að snúa því við núna, virðulegi forseti, þannig að ummæli sem menn láta sér í ábyrgðarleysi um munn fara utan þings megi ekki herma upp á þá á Alþingi í formi fyrirspurna. Og mér er spurn: Er þetta sú túlkun þingskapa sem menn hafa átt að venjast hér á Alþingi? Og er þetta sú framkvæmd á þinghaldinu sem þingmenn vilja? Ég leyfi mér að efast um það og að jafnvel þó að utanrrh. geri sig sekan um að vega að þeirri stofnun sem ríkisstjórnin hefur nú falið lykilhlutverk í hinni nýju efnahagsstefnu sinni sé það svo að hann kæri sig ekki um að það verði rætt hér á Alþingi. Ég held að hér hafi orðið mjög alvarleg mistök, virðulegi forseti, og ég vona að við eigum eftir að sjá hér réttlátari framkvæmd þingskapa framvegis.