Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er lagt fram er samið af starfshópi á vegum félmrn. Ásamt þáv. aðstoðarmanni hæstv. félmrh., Láru V. Júlíusdóttur, eru allir þeir sem þennan starfshóp skipa í störfum sem tengjast sérstaklega hagsmunum barna og þá ekki síst við forsjár- og umgengnisréttarmál, eins og reyndar hæstv. félmrh. gat um hér áðan, þar á meðal formaður barnaverndarráðs og formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur og átti ég sæti í þessum starfshópi. Þykir mér því rétt og skylt að reyna að skýra örlítið nánar hvað hér er átt við.
    Fyrst má þess geta að það sjónarmið hefur komið fram að hér sé um of þröngt svið að ræða þar sem þetta sé frv. til l. um fjölskylduráðgjöf, sbr. hins vegar 1. gr. frv. sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á vegum hins opinbera skal veita ráðgjöf í skilnaðarmálum, fræðslu um málefni barna í tengslum við sambúðarslit foreldra og leiðbeiningar um úrlausn í forsjár- og umgengnisréttarmálum.``
    Þetta sjónarmið, að um of afmarkað svið sé að ræða, kom m.a. fram í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur hér áðan og enn fremur kemur það fram í athugasemdum frá starfshópi um félags- og heilbrigðismál frá Samtökum jafnréttis og félagshyggju, að vísu með örlítið öðrum forsendum og langar mig til þess að gera nánar grein fyrir því.
    Í þessum athugasemdum sem sendar voru hæstv. félmrh. segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Þetta nýja frumvarp um fjölskylduráðgjöf miðar einungis að því að vinna með bráðavanda þeirra fjölskyldna sem eru að flosna upp. Gert er ráð fyrir sérstakri stofnun um þetta afmarkaða svið. Þetta er í andstöðu við alþjóða heilbrigðisstefnu WHO, útfærslu þeirrar úreltu stefnu sem hefur leitt okkur inn á blindgötur skammsýni og tengslaleysis.`` --- Hér þykir mér nokkuð sterkt tekið til orða. Hins vegar er það rétt að vinna á með bráðavanda þeirra fjölskyldna sem eru að flosna upp og á því er full þörf. En aðaltilgangur frv. er að sjálfsögðu, eins og fram kemur í grg., forvarnarstarf og er mat starfshópsins að með auknu fyrirbyggjandi starfi, eins og hér er lagt til, megi oft komast hjá þeim skaða sem illskeyttar skilnaðardeilur foreldra valda börnum. Þetta er að sjálfsögðu meginatriðið. Deilur um það hvort hér sé um of afmarkað svið að ræða hjálpar ekki þeim börnum sem svo sannarlega þurfa á hjálp að halda.
    Þeim sem vinna með barnaverndarmál og forsjár- eða umgengnisréttardeilur ber lagaleg skylda til að komast að þeirri niðurstöðu sem hagsmunum barns er fyrir bestu. Þessi mál geta þó verið erfið viðureignar ef foreldrar eru ekki fúsir til samvinnu og sætta sig ekki við niðurstöður, t.d. hvort hjóna fari með forsjá barns. Slíkt getur komið mjög illa við börnin sem að sjálfsögðu í flestum tilvikum vilja hafa jafngott samband við báða foreldra. Þess vegna er það mjög brýnt að vinna með foreldrum að því að komast að sameiginlegri niðurstöðu t.d. um forsjá eða umgengnisrétt þannig að allir megi vel við una.

    Sérfræðingar munu almennt sammála um það að skilnaðarbörnum getur liðið mjög illa og deilur foreldra geta haft langvarandi áhrif, jafnvel þannig að sá skaði á sálarheill verði aldrei bættur. Það er einnig stutt af mörgum rannsóknum. Þess vegna mun það meginatriðið, sem bæði sálfræðingar, félagsráðgjafar nú eða aðrir svo til sérmenntaðir leggja áherslu á, að foreldrar sýni skilning á þörfum barna þegar um skilnað er að ræða.
    Enn fremur kemur fram í athugasemdum frá Samtökum jafnréttis og félagshyggju, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þegar Alþingi Íslendinga fjallar um málefni fjölskyldunnar hlýtur að vera áríðandi að minnast þess annars vegar að það sérsvið sem hér er til umfjöllunar heyrir nú þegar undir barnaverndarnefndir og félagsmálastofnanir um land allt. Við teljum áríðandi að byggja upp og styðja við starfsemi þessara stofnana þannig að þær verði betur færar um að ná árangri út frá fyrrgreindri heildarsýn í náinni samvinnu við heilbrigðiskerfið í landinu.``
    Þetta er að sjálfsögðu sjónarmið sem full ástæða er til að gaumgæfa. Það er brýnt að barnaverndarnefndir og félagsmálastofnanir nái að sinna störfum sínum sem best og það á ekki síst við víða úti á landi þar sem um lítil byggðarlög er að ræða og fámenn, sérstaklega þar sem barnaverndarnefndir eru til staðar en þær eru jafnmargar og hreppar þessa lands. En í þessu frv. er alls ekki verið að gera lítið úr mikilvægi þessara starfa, heldur er hér um viðbótarþjónustu að ræða. Þetta verða menn að athuga.
    Í þessum athugasemdum er líka talað um heilsugæslu á Íslandi og þar er nefnd sérstaklega til skýrsla, sem ég hef hér undir höndum, um uppbyggingu fjölskylduráðgjafar við heilsugæslustöðina á Akureyri. Þar er talinn upp tilgangur þess að ráða fjölskylduráðgjafa að heilsugæslustöðinni á Akureyri og þar eru sett fram ákveðin markmið sem stuðla að því m.a. að skjólstæðingur fái samhliða núverandi þjónustu félagslega og sálfræðilega ráðgjöf. Að greina vandamálin og meðhöndla áður en skaði er skeður. Að fyrirbyggja félagsleg vandamál og sjúkdóma tengd þeim með einstaklings- og hópfræðslu. Að aðstoða
hina ýmsu faghópa við að greina og finna úrlausn vandamála skjólstæðings síns o.s.frv.
    Hvergi er hér getið nákvæmlega um þann tilgang sem þetta frv. tekur til, né heldur er hér um lögfræðilega þjónustu að ræða sem er að sjálfsögðu mjög mikilvæg í þessum málum því það þarf að hjálpa fólki til þess að leysa deilur varðandi skilnað eða sambúðarslit og það má ekki gleymast að atriði eins og t.d. varðandi skipti á fjárfélagi, húsnæði o.fl. geta haft veruleg áhrif á hagsmuni barna við skilnað og það hvort fólk nær samkomulagi almennt um nokkur atriði. Á þetta legg ég ríka áherslu.
    Ég tel að þetta sé hið besta mál og legg á það ríka áherslu að það verði vakin athygli á vanda þeirra barna þar sem foreldrar hafa lent í skilnaði eða sambúðarslitum. Ég tel enn fremur að sú tímabundna starfsemi, sem gert er ráð fyrir í frv., muni leiða í ljós

hversu mikil þörfin er og hjálpa okkur til þess að gera viðeigandi ráðstafanir. Ég lýsi því yfir stuðningi við þetta frv.