Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er um að ræða hið þarfasta mál, sem þetta frv. fjallar um, og ég kem því hér til að lýsa stuðningi við efnisatriði frv. Það lætur ekki mikið yfir sér, er aðeins tvær greinar, og ég verð að viðurkenna að mér fannst það dálítið óljóst og þröngt markað svið sem fram kemur í frv., en nú vill svo vel til að hér hefur tekið sæti í þessari hv. deild einn af höfundum þessa frv., sem hér kemur nú inn sem varamaður, hv. 8. þm. Reykv. Sólveig Pétursdóttir, og mér fundust koma ágætlega fram í hennar máli rök fyrir þeim atriðum sem eru þýðingarmikil og frv. fjallar um. Hún sagði að þetta frv. væri í raun og veru viðbótarþjónusta við það sem fyrir er í þessum efnum en ekki til höfuðs slíkri þjónustu ef ég skildi hana rétt, þ.e. við það starf sem barnaverndarnefndir og félagsmálastofnanir og jafnvel heilsugæslustöðvar veita í þessum erfiðu og viðkvæmu málum.
    Ég geri ráð fyrir að það sé meiri þörf fyrir slíka þjónustu í fjölmennari byggðarlögum eða í þéttbýlinu og kannski fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu, en mér er til efs að þjónusta sem þessi væri raunhæf fyrir fólk utan af landsbyggðinni ef það ætti að sækja hana hingað, eins og ég skil að er nú fyrirhugað, reyndar kannski aðeins tímabundið á meðan þessi tilraun fer fram, því að ég tel að það sé skilyrði fyrir því að slík þjónusta komi að notum að hún sé sem næst því byggðarlagi sem viðkomandi aðilar eru staðsettir í, þ.e. að slík þjónusta sé færð heim í héruð eins og svo oft er nú talað um. Ég vænti þess að gert sé ráð fyrir slíku seinna meir.
    Ég get tekið undir það sem hv. 2. þm. Suðurl. kom inn á í sínu máli, þ.e. varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir vegna þeirra vandamála sem oft eru grunnurinn að þeim vanda sem hér er ætlað að taka á. Ég get líka tekið undir að vissulega er það hlutverk kirkjunnar og prestanna eða sálusorgaranna að sinna slíkum verkefnum. Það er að því er ég best veit skylda þeirra að reyna að hjálpa fólki til þess að komast yfir slíka erfiðleika þegar sambúðarslit eru á döfinni, reyna sáttaleiðina. Hins vegar held ég að það sé alveg ljóst að í nútímaþjóðfélagi verði ekki hjá því komist að koma á slíkri þjónustu sem þetta frv. fjallar um.
    Ég held að það sé líka hárrétt, sem hv. 8. þm. Reykv. kom hér inn á, að lögfræðiþjónustan er áreiðanlega mikill þáttur í þessu efni, ekki síst vegna þess að fólk veit oft ekki hvaða leiðir það á helst að fara til að leita slíkrar þjónustu og hún getur verið kostnaðarsöm. Ég held að þetta sé vissulega þýðingarmikill þáttur.
    Einnig skiptir staðsetning á þessari þjónustu áreiðanlega miklu máli. Það er því miður þannig að reynsla fólks er ekki góð af embættismannakerfi ráðuneytanna þegar það þarf að leita þangað með erfið og viðkvæm mál, svo sem varðandi skilnaðarmál, forsjármál barna, ættleiðingar eða annað slíkt. Það virðist oft vera ansi þungt í vöfum og fólk á þá í erfiðleikum með að fá afgreiðslu sinna mála. Þess vegna held ég að það skipti miklu máli hvar staðsetning þessarar þjónustu verður hugsuð og eins

og ég sagði áðan held ég að sé þýðingarmikið að hún verði færð sem víðast heim í héruð eftir því sem tímar líða.