Vinnubrögð í Seðlabanka Íslands
Miðvikudaginn 08. febrúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. málshefjanda, að þetta er ekki eða var a.m.k. ekki í upphafi með stærri málum sem þetta þing hefur fjallað um. En viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar og forseta sameinaðs Alþingis eru á þann veg að það sýnist kannski ætla að verða með meiri háttar málum vegna þess að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér í þinginu eru að bera sig undan þessum ummælum og viðhafa mjög sérstök vinnubrögð í tengslum við þá fyrirspurn sem hér var borin fram.
    Það var augljóslega kveðinn upp rangur úrskurður um fyrirspurnina þar sem henni var synjað. Og það er býsna kyndugt þegar hæstv. viðskrh. kemur hér og líkir einfaldri og saklausri fyrirspurn við rannsóknarrétt og rannsóknardóm og heldur því fram að þegar hæstv. utanrrh. hefur borið starfsfólk Seðlabankans þeim þungu ásökunum sem fram koma eigi aðeins starfsfólk Seðlabankans rétt á því að grípa til andsvara, Alþingi eigi ekki rétt á því að krefja viðskrh. svara um það hvort hann er sammála því að 150 eða 155 starfsmenn Seðlabanka nagi blýanta. Alþingi Íslendinga á rétt á því að fá svör um það, þegar hæstv. utanrrh. hefur borið slíkar ásakanir á borð, frá yfirmanni bankamála í landinu. Og að tala um að það sé rannsóknarréttur eða rannsóknardómur er vanvirða við Alþingi Íslendinga. Og að hlaupa hér eins og köttur í kringum heitan graut og vera að vitna í ummæli einhverra annarra manna innan þings og utan í afsökunartón fyrir ummælum sínum er lítilmannlegt og ég tala nú ekki um þegar vitnað er í ummæli sem dæmd hafa verið ómerk fyrir dómi.
    Svo ætla ég að lokum að minna á að að sérstakri beiðni hæstv. fjmrh. úrskurðaði hæstv. menntmrh. að téð yfirlýsing væri ekki gamansemi sem skylt væri að greiða skemmtanaskatt af. ( Menntmrh.: Það er rétt.)