Takmörkun rækjuveiða á næsta ári
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé laukrétt, sem ég hélt fram áðan, að frumkvöðlarnir og brautryðjendurnir í úthafsrækjuveiði fyrir Norðurlandi komu ekki síst frá Árskógssandi og hæstv. sjútvrh. veit jafn vel og ég að þeir menn sem að þeim veiðum stóðu guldu þess í sambandi við þorskkvótann og síðan þegar þeir hafa skipt um skip hafa þeir misst heimildir til rækjuveiða. Ástæðan fyrir þessu er auðvitað sú mikla lausung sem hefur verið á stjórn fiskveiða hér á landi á undanförnum árum sem hefur valdið því að duglegir útgerðarmenn hafa ekki getað séð fram í tímann né getað skipulagt sínar veiðar. Þetta liggur alveg á borðinu og þarf ekki um það að ræða og ég hygg að eftir á hljóti allir menn að vera sammála um að við hefðum betur, Íslendingar, farið gætilegar í rækjuveiðarnar þannig að menn reyndu að sjá svolítið fram í tímann þannig að þeir erfiðleikar sem víða blasa við vegna offjárfestingar í rækjuvinnslustöðvum liggi ekki nú fyrir.
    Varðandi raðsmíðaskip vil ég aðeins segja að það var ríkisstjórn sem Sjálfstfl. stóð ekki að sem bar ábyrgð á því að byrjað var á raðsmíðaskipunum.