Viðvörunarskilti á Reykjanesbraut vegna hálku
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Landbúnaðaarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Vegna þeirra upplýsinga sem hv. fyrirspyrjandi kom með vestan úr álfum um rauð aðvörunarljós verður að setja við það viss spurningarmerki hvort það væri sá litur sem við mundum velja okkur núna eins og málum er háttað hjá okkur.
    En fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda var send Vegagerð ríkisins og mun ég í mínu svari fyrst og fremst styðjast við álit Vegagerðarinnar sem hefur kannað þetta mál í framhaldi af fsp.
    Í flestum nálægum löndum, þar sem svipað háttar til og hjá okkur að hálkumyndun á vegum orsakar hættu fyrir vegfarendur, hefur verið unnið markvisst að því að setja upp einhvers konar viðvörunarkerfi meðfram þjóðvegum. Þessi vinna byrjaði víða á 8. áratugnum í þeim löndum sem fyrst fóru af stað og það er enn þá verið að þróa ný kerfi og lagfæra þau sem fyrst voru sett upp í þeim tilgangi að gera þau öruggari. Ég vek sérstaka athygli á því að þessi vinna hefur fyrst og fremst beinst í þá átt að veita upplýsingar um ástand veganna til þeirra aðila sem eru að sinna þar þjónustu, þ.e. vegagerðar eða slíkra aðila, en það hefur minna farið fyrir því að reynt sé að setja upp sjálfvirk viðvörunarskilti af ástæðum sem ég kem að á eftir.
    Forsenda þess að hægt sé að setja upp svona viðvörunarkerfi þannig að það geri eitthvert gagn er að gera miklar veðurfræðilegar úttektir á vegunum og umhverfi þeirra. Það þarf m.a. að skipta vegunum í kafla með tilliti til ísingarhættu og það þarf að finna þá staði á þjóðvegunum þar sem sérstök hætta er á ísingu miðað við tilteknar veðuraðstæður. Það þarf að safna ef vel á að vera upplýsingum um veðurskilyrði og ísingarhættu í nokkur ár áður en hægt er að nota þær við gerð áætlunar um skipulag svona viðvörunarkerfis. Á grundvelli slíkra upplýsinga er síðan upplýsingastöðvum, nemum eða skynjurum, komið fyrir við þjóðvegina. Fjöldi slíkra skynjana eða stöðva er háður því í hvað marga kafla veginum er þá skipt, marga kafla sem hafa sem líkust veðurfræðileg skilyrði. Þarna getur mismunandi hæð, halli eða nálægð við sjó o.s.frv. allt haft áhrif á flokkun vegarins. Þessar stöðvar þurfa að gefa upplýsingar um hitastig, rakastig, vind og e.t.v. fleira og eru gjarnan með nútímahætti sendar í tölvu í aðalstöð þar sem ákvörðun er tekin um þjónustu við veginn. Það þarf að setja upp sérstakar stöðvar á þá staði þar sem hætta er meiri en annars staðar á ísingu. Ef haft er of langt á milli stöðva geta upplýsingarnar orðið óáreiðanlegar o.s.frv. Það er rétt að menn átti sig á því að svona stöðvar gefa eingöngu upplýsingar um þann stað þar sem mælt er og þess vegna er mikilvægt að það liggi fyrir góðar veðurfræðilegar upplýsingar um vegina.
    Það hefur verið fylgst nokkuð náið með gangi þessara mála í nálægum löndum og þá er það ekki síst með tilliti til Reykjanesbrautarinnar sem er tilefni fsp. Eins og kunnugt er hafa því miður orðið allmörg

og oft og tíðum alvarleg slys á Reykjanesbraut sem rekja má a.m.k. að einhverju leyti til hálku. Það hefur ekki orðið af neinum framkvæmdum, enda er nokkuð ljóst, og þarf ekki annað en vitna til tíðarfarsins eins og það hefur verið undanfarnar vikur, að breytileiki aðstæðna í þessu sambandi er gríðarlega mikill hér og gerir að verkum að það er verulega vandasamt að setja upp svona aðvörunarkerfi og staðla það að þeim skilyrðum sem þarna eiga við. Þetta getur þó breyst og vonandi breytist það með aukinni tækniþróun og Vegagerð ríkisins og samgrn. munu áfram fylgjast með þessari þróun með það í huga að nýta megi þessa tækni hér þegar fært þykir. Ég held að það væri þá eðlilegt að fara að huga að því að gera veðurfræðilegar úttektir, sem eru forsenda svona aðvörunarkerfis á næstunni.
    Ég tel þó að svona aðvörunarkerfi hér muni a.m.k. fyrst um sinn miðast fyrst og fremst við upplýsingagjöf frá slíkum skynstöðvum til Vegagerðarinnar og þeirra aðila sem þjónusta vegina. Síðar má e.t.v. reyna, þegar ákveðin reynsla er komin á þessa upplýsingagjöf, að koma á algerlega sjálfvirkum viðvörunarkerfum sem gefa vegfarendum merki hvort sem það er með rauðu ljósi eða með einhverjum öðrum hætti.
    Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli, það er þarft, og vona að svar mitt hafi getað talist fullnægjandi miðað við aðstæður og hafi skýrt málið nokkuð.