Vegaframkvæmdir á Vesturlandi
Fimmtudaginn 09. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég tók svo eftir að hér væri til umræðu tillaga hv. þm. Skúla Alexanderssonar og Inga Björns Albertssonar um áætlun um vegaframkvæmdir á Vesturlandi. Ég skil út af fyrir sig að stjórnarþingmenn hafi miklar áhyggjur af vegaframkvæmdum eins og þeir hafa verið leiknir af þeirri stjórn sem nú situr, stjórnarþingmenn utan af landi. Við máttum reyna það sjálfstæðismenn í síðustu tveim ríkisstjórnum að Framsfl. var mjög í nöp við það að reynt yrði að halda áfram uppbyggingu vega með sama hætti og verið hafði og hið sama er að segja um síðustu ríkisstjórn ( ÓÞÞ: Er Ingi Björn farinn að styðja stjórnina?) og má raunar segja að áhöld hafi verið um hvorir voru andstyggilegri í garð samgöngumálanna, kratar eða framsóknarmenn, í þeirri ríkisstjórn. Það kemur þess vegna ekki á óvart nú þegar Alþb. hefur bæst í hópinn að hvort tveggja hafi verið skorið duglega niður, framlög til hafnaframkvæmda og framlög til vegaframkvæmda. --- Ég bið hv. 5. þm. Vesturl. afsökunar hafi ég komist svo ógætilega að orði að skilja mætti sem svo að hann væri stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar. En það var alls ekki meiningin og tek ég allt slíkt aftur, enda fer því víðs fjarri að þessi hv. þm. sé stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar fremur en aðrir góðir menn og glöggir, enda er það svo að bestu bænda yfirsýn að þessari ríkisstjórn ber að segja hið fyrsta af sér og nauðsynlegt að þjóðin fái kosningar sem fyrst. ( Forseti: Má ég benda þingmanninum á að hér eru á dagskrá vegaframkvæmdir á Vesturlandi.) Ég skil óróleika hæstv. forseta og geri ráð fyrir að hann hafi verið að hugsa um gatnagerðina hjá Davíð borgarstjóra sem er til fyrirmyndar og eigi sem þingmaður Reykvíkinga erfitt með að skilja áhyggjur okkar landsbyggðarmanna yfir því hvernig gengur með vegagerðina þar. En það get ég sagt hæstv. forseta að hæstv. samgrh., flokksbróðir hæstv. forseta, er mikill eftirbátur Davíðs Oddssonar í vegagerð. Væri mikill kostur þess vegna ef við gætum fengið kosningar sem allra fyrst þannig að sjálfstæðismenn gætu á ný tekið við þessum málaflokki og drifið áfram samgöngumálin, drifið áfram vegagerðina.
    Hæstv. samgrh. var að reyna að grípa fram í fyrir mér. Hann ætlar kannski að útskýra hvernig á því stendur að það á að flytja brtt. nú við lánsfjáráætlun um að enn skuli dregið úr vegafénu. Ég veit ekki hvar það endar, en ástæðan fyrir því að ég stóð hér upp er vitaskuld sú að ég vil mjög taka undir með þeim hv. þm. Skúla Alexanderssyni og Inga Birni Albertssyni að nauðsynlegt er að þingið ýti við ríkisstjórninni. Það er líka nauðsynlegt að stjórnarþingmenn eins og Skúli Alexandersson og aðrir slíkir, sem kynnu að hafa áhyggjur af vegagerðinni, ýti duglega við sinni ríkisstjórn áður en vegáætlunin verður lögð fram á þinginu nú í vetur. Svona tillaga er auðvitað alger sýndarskapur, algerlega máttlaus nema henni verði fylgt eftir með vegalögum og vegáætlun nú í vetur og þykist ég mega skilja það á brosi hv. 4. þm. Vesturl. að hann muni standa með

okkur sjálfstæðismönnum í þessu máli eins og svo mörgum öðrum a.m.k. móralskt þó vera kynni að hann láti undan þrýstingnum og rétti höndina upp á vitlausum stöðum eins og hann hefur lofað að gera og gerir stundum í Ed. þvert gegn hug sér. Þá veit ég að hann stendur með okkur hinum um að reyna að koma vegunum áfram.
    En ég verð þó að segja að mér finnst að því leyti skammsýni í þeirri þáltill. sem hér liggur frammi að inn í hana skuli ekki tekið hvernig lokið verði við uppbyggingu og frágang vega norður í land sem ég veit að þeir á Vesturlandi bera líka mjög fyrir brjósti. Er það raunar til skammar fyrir Alþingi að hafa ekki komið því í verk að leggja og byggja upp veginn alla leið til Akureyrar og ganga frá því að bundnu slitlagi verði komið á hann helst ekki síðar en á næsta ári. Eyjafjarðarsvæðið er auðvitað þungamiðjan úti á landi. Það er eini þéttbýliskjarninn sem getur storkað Reykvíkingum og það er þess vegna mikið þjóðþrifamál, ég vil segja nauðsynlegt mál, að hægt sé að greiða sem mest fyrir samgöngum milli Eyjafjarðarsvæðisins og Faxaflóasvæðisins. Ég vil líka segja að nauðsynlegt er að hraða uppbyggingu vega til annarra þeirra byggðakjarna sem halda uppi heilum landsfjórðungum og nefni ég sérstaklega Ísafjörð í því sambandi.