Ástand í raforkumálum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með málshefjanda, hv. 4. þm. Vesturl., að rafmagnsleysi eins og hér varð á síðasta sólarhring er vissulega alvarlegt ástand og ber að taka á því, eins og hann lýsti því, sem neyðarástandi því langvarandi rafmagnsleysi á þessum tíma árs er auðvitað ákaflega alvarlegur hlutur. Það er rétt, áður en ég sný mér að því að svara hinum mörgu spurningum málshefjandans, að lýsa aðeins því sem þarna gerðist. Hvað var það sem olli þessum alvarlegu rafmagnstruflunum? Þær stöfuðu í langflestum tilfellum af sjávarseltu sem barst með óvenjulega hvössum vestanvindi yfir landið. Í mjög fáum tilfellum var um línusamslátt eða staurabrot að ræða. Langmest röskun varð vegna sjávarseltu á tengivirkjum Landsvirkjunar við Geitháls. Þau tengivirki eru ákaflega umfangsmikil og reyndar í hættu, útsett fyrir svona truflanir, en þegar þau voru byggð var varla um aðra tækni að ræða. Hins vegar er nú kominn á markaðinn tengibúnaður sem hægt er að koma fyrir innan húss og er gaseinangraður en ekki einangraður á þann hátt sem er í Geithálsstöðinni. Það er einmitt sú tækni sem verður notuð í nýrri aðveitustöð fyrir höfuðborgarsvæðið, Reykjavík og Reykjanes sem sett verður upp fyrir sunnan Hafnarfjörð í haust. Það heitir Hamranes. Ég tel að sú stöð muni auka afhendingaröryggi á raforku mjög mikið hér á þessu svæði og létta á Geithálsstöðinni sem vissulega er of ásetin í kerfinu. Um hana fer mikið af þeirri orku sem hér er dreift þannig að því fylgir meiri áhætta en verjandi er til langframa. Einmitt þess vegna er verið að byggja Hamranesstöðina og nú hefur líka komið í ljós að sú einangrun sem notuð er hér á landi, þótt hún þyki mikil í samanburði við það sem gerist í öðrum löndum, er ónóg þegar slíka vestanátt ber að landinu eins og nú varð raun á.
    Á Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem ástandið hefur verið erfiðast er sömu sögu að segja. Það eru tengivirki utan húss sem salthúð sest á. Rafstraumurinn hleypur yfir salthúðina frekar en um tenglana sem eiga að tengja saman. Þannig gerist þetta þrátt fyrir að allar virkjanir framleiði og meginlínur flytji straum um landið. Til þess að bæta úr þessu eru ekki aðrar leiðir en að taka strauminn af, þvo viðkvæma staði þar sem saltið hefur safnast upp, annaðhvort með vatni eða með terpentínu. Það segir sig sjálft að þetta er ekki viðfangsefni sem menn leysa auðveldlega í stormi eða stórhríð eins og nú hefur verið um nokkurt skeið sums staðar á landinu. Og svona truflanir koma fyrir, það er erfitt að verjast þeim með þeirri tækni og því fjármagni sem við höfum yfir að ráða. Við höfum einfaldlega ekki efni á 100% afhendingaröryggi fyrir orkuna. Við höfum á undanförnum árum stöðugt verið að auka þetta afhendingaröryggi, bæði með styrkari búnaði og með hringtengingu byggðalínunnar sem ég tel að hafi komið sér vel í þetta sinn og mun víkja að því nánar þegar ég svara einni af spurningum hv. málshefjanda.
    Þá sný ég mér, virðulegi forseti, að hinum beinu

spurningum málshefjanda. Sú fyrsta var hvort forsvarsmenn orkumála telji ekki að bregðast þurfi við slíku ástandi sem neyðarástand væri. Svarið er já. Þeir telja það og þeir hafa líka gert það að mínu áliti.
    Í öðru lagi var spurt hvort skipulegt samstarf væri milli starfsliðs Landsvirkjunar, rafveitnanna og Almannavarna. Svarið er já. Það er um sérstakt samstarf að ræða. Það eru sérstakar símalínur og sérstakt fjarskiptakerfi sem tengir Landsvirkjun við Almannavarnir. Rekstrarstjóri Landsvirkjunar hafði í gær samband við forstöðumann Almannavarna.
    Í þriðja lagi er spurt hvort Vegagerð ríkisins sé kölluð til þegar starfsmenn rafveitnanna eiga erfitt með að komast á bilanastað. Svarið er líka já. Að sjálfsögðu er til þeirra leitað. Ég get því miður ekki svarað því hvernig þessu hafi verið háttað undanfarna sólarhringa í einstökum atriðum. Ég heyrði á máli málshefjanda að hann teldi þar misbrest á hafa orðið. Mér þætti gott að fá að vita nákvæmlega við hvað er átt til þess að úr því mætti þá bæta.
    Í fjórða lagi var spurt hvort ekki væri von til að bætt yrði úr búnaði spennistöðva sem illa eru varðar og valda síendurteknu straumrofi. Ég hef nú þegar svarað þessu að nokkru almennum orðum og vil láta það koma fram að hvenær sem skipt er um einangrunarbúnað í tengivirkjunum, þá er bætt um betur og sett inn einangrunargildi sem hærri eru en fyrir voru. Ég get ekki svarað þessu á annan hátt. En ég hef einmitt núna fyrir þennan fund rætt við bæði forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins og forstjóra Landsvirkjunar ásamt rekstrarstjóra hennar þar sem þessi mál voru rædd í þaula.
    Síðan spurði hv. málshefjandi hvort það væri rétt að ýmsar hringtengingar raforkuflutningslína hafi nú að litlu haldi komið vegna vandræða í aðveitustöðvunum. Ég get svarað því á þann hátt að það er rétt að það kom ekki að nægilegu haldi að hringtenging er nú fengin um landsins hring með byggðalínu vegna þess að sums staðar var selta á línum og aðveitustöðvum. Hins vegar bendi ég á að það er einmitt vegna byggðalínunnar sem unnt var að halda öllu Norðurlandi með rafmagni vegna þess að þegar tengingin hingað brást, þá komu aðrar tengingar að haldi, m.a. að austan frá Kröflu. Á þennan hátt hefur byggðalínan í þetta sinn sannarlega sannað sitt gildi.
    Loks var í sjötta lagi spurt: Eru ekki starfsmenn Landsvirkjunar og rafveitna þjálfaðir og búnir undir það með æfingum að bregðast við aðstæðum eins og þessum? Ég tel að þeir hafi slíka þjálfun og hafi sýnt í þetta sinn eins og endranær að þeir kunni líka að nýta sér hana.
    Í lokin var svo spurt hvort ekki væru aðrar flutningsleiðir fyrir hendi fyrir raforku til Reykjavíkur og Reykjaness ef svipuð bilun endurtekur sig í Geithálsstöðinni og varð í gær. Svarið hefur að nokkru leyti þegar komið fram í mínu máli. Það er verið að byggja Hamranesstöðina sem er, eins og ég sagði áðan, undir þaki með gaseinangrun í stað hefðbundinnar einangrunar og alls ekki á sama hátt í

hættu fyrir seltu eins og Geithálsstöðin. Með því að koma Hamranesstöðinni inn í kerfið verður létt af að nokkru því álagi sem hvílir á Geithálsi, þar með verður rekstraröryggi rafmagnsdreifingar hér um þetta þéttbýlasta svæði landsins aukið og bætt.
    Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar, tek undir með málshefjanda að þetta er okkur áminning um það hversu mikilvægt það er að bæta dreifikerfið fyrir raforkuna, en ég vil að endingu bara segja þetta: Þegar svona truflanir koma fyrir, þá reynir mikið á starfsmenn rafveitnanna og Landsvirkjunar og þeir hafa sýnt það núna að þar eigum við góðum liðsmönnum á að skipa sem ótrauðir leggja nótt við dag til þess að koma raforkukerfinu í lag á nýjan leik.