Kynferðisleg misnotkun á börnum
Mánudaginn 13. febrúar 1989

     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Sú ályktun sem hér er lögð fram fjallar um kynferðisbrot gagnvart börnum og er það virðingarverð viðleitni til þess að varpa enn frekara ljósi á umfang og tíðni þessara afbrota. Ég tel það mjög mikilvægt að þeir sem með löggjafarvaldið fara átti sig á því hversu mikilvægt það er að hugað sé að réttarstöðu barna á hinu háa Alþingi jafnt og annarra þjóðfélagsþegna, ekki síst þegar á það er litið að börn geta ekki myndað þrýstihópa til þess að hafa áhrif á framgöngu sinna mála líkt og fullorðnir geta gert.
    Ég get þó ekki látið hjá líða að minna á það hér að á síðasta þingi fór fram allnokkur umræða um einmitt þessa tegund afbrota á sama tíma og umræðan í þjóðfélaginu var mjög mikil um þessi mál. Hv. 6. þm. Reykn. lagði þá fram frv. um forgang þessara mála í dómskerfinu og var það afgreitt sem lög á síðasta þingi. Enn fremur lagði hv. þm. fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um fjölda þessara mála. Á síðasta þingi, nánar tiltekið í nóvember 1987, lagði ég fram frv. til breytinga á hegningarlögum um kynferðisbrot og þá ekki síst gagnvart börnum. Þessu máli var vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem heildarendurskoðun stæði yfir á þessum hluta hegningarlaganna. Þetta reyndist ekki alls kostar rétt þar sem nefnd sú sem þáv. hæstv. dómsmrh. vísaði til, svokölluð nauðgunarmálanefnd, skilaði að vísu nýlega frá sér skýrslu um afmarkaðan hluta þessara lagaákvæða eða 194.--199. gr. hegningarlaga, en tók ekki til lagaákvæða svo sem eins og 203. gr. hegningarlaga, sem fjallar um kynferðismök persóna af sama kyni, en 2. gr. frv. sem vísað var til ríkisstjórnarinnar fjallaði einmitt um þetta lagaákvæði svo sem eins og sagði í greinargerð, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,2. gr. frv. fjallar um kynferðismök við persónu af sama kyni og hefur falið í sér miklu lakari vernd en ákvæði er snerta önnur kynferðisbrot þegar litið er til refsimarkanna. Refsihámarkið hefur verið bundið við 6 ára fangelsi sem er miklu minni refsing en er lögbundið t.d. í 194. gr. og 1. mgr. 200. gr. hegningarlaganna. Slíkt fær ekki samrýmst nútímaviðhorfum, hvorki efnislega né réttarfarslega. Hér er breytingar þörf og mótast sú þörf ekki síst af fjölda alvarlegra mála nú á síðustu árum þar sem brotaþolar eru einatt ungir drengir og afbrotamaðurinn karlkyns. Læknisfræðilegar líkur benda til þess að einmitt þessi tegund afbrota geti haft mjög skaðlegar afleiðingar fyrir brotaþola og er þá m.a. átt við kynsjúkdóm eins og eyðni. Því þykir full ástæða til þess að lögum óbreyttum að í lagaákvæði þessu sé einnig vísað til 2. mgr. 202. gr. sem getið er í frv.``
    Á þessum lagaákvæðum hefur ekki verið tekið né heldur lagt fram frv. í samræmi við skýrslu nauðgunarmálanefndarinnar. Það er von mín að úr þessu verði bætt sem fyrst. Það er greinilega ekki nóg að hv. þm. sýni þessum málum áhuga ef framkvæmdarvaldið sinnir þeim ekki, í þessu tilviki hæstv. dómsmrh. Þó er unnið að ýmsum réttarbótum er snerta hagsmuni barna. T.d. er verið að endurskoða lög um vernd barna og ungmenna, en það er mjög

mikilvægt að barnaverndarnefndir víðs vegar á landinu verði betur í stakk búnar til að sinna ýmsum lagalegum skyldum og þá ekki síst í kynferðisbrotamálum gagnvart börnum þar sem fórnarlömbin þurfa oft mikla aðstoð sérfræðinga sem og oft fjölskyldur í heild sinni. Og vissulega eru þetta mjög vandmeðfarin mál.
    Í grg. með þessari till. sem hér liggur fyrir segir svo, með leyfi virðulegs forseta, og þar er vísað í mynd sem sýnd var í sjónvarpi:
    ,,Af umræddri heimildarmynd og umræðum, sem fylgt hafa í kjölfarið, hefur komið skýrt fram að ríkrar tilhneigingar gætir til að neita tilvist þessara brota hér á landi eins og raunar víða annars staðar. Má ef til vill segja að þessi sjónarmið séu eðlileg þar sem hér er um dulin afbrot að ræða sem eru af fjölskyldu- og tilfinningaástæðum sjálfsagt sjaldnast kærð.``
    Ég held að það sé e.t.v. fullmikið sagt að ríkrar tilhneigingar gæti til að neita tilvist þessara brota. Þvert á móti hafa félagsráðgjafar og sálfræðingar lagt sig fram um að reyna að skilgreina þessi vandamál og leita úrbóta, þá ekki síst í sifjaspellsmálum.
    Ég hef nýlega fengið í hendurnar skýrslu frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur, þar sem fjallað er um fjölda og vinnslu kynferðisafbrotamála er bárust Félagsmálastofnun Reykjavíkur á árinu 1988. Þar kemur reyndar fram að þessum málum hefur fjölgað en sérfræðingar telja að það eigi e.t.v. ekki síst rætur að rekja til þess að þessi umræða hefur verið opnuð í þjóðfélaginu. Í þessari grg. er bæði lýst ástandi og bent á úrbætur. Og nú þegar er hafin mjög ítarleg samvinna við ýmsar stofnanir sem taka á þessum málum, ekki síst í heilsugæslunni.
    Ég tel þar að auki að viðhorfsbreyting hafi átt sér stað hjá almenningi, en samt sem áður get ég tekið fyllilega undir það hjá hv. flm. þessarar tillögu að betur má ef duga skal og upplýsingar um tíðni og umfang kynferðislegrar misnotkunar á börnum eru nauðsynlegar. Ég lýsi því yfir stuðningi við þessa tillögu, en spyr jafnframt hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að hér sé um að ræða öll kynferðisbrot gagnvart börnum en ekki einungis
sifjaspellsmál. Og ég tek undir orð síðasta ræðumanns sem taldi þessa umræðu mjög þarfa.