Viðskiptabankar
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör sem hann gaf mér hér áðan, en það sem ég vildi taka fram í þessu tilefni er að það hefur verið þannig í bankakerfinu að bankarnir hafa farið út á þá braut eins og fjármagnsmarkaðirnir að kaupa viðskiptakröfur með afföllum til þess að þurfa ekki að hækka raunvöxtun í bönkunum, og til þess að mæta því hækkunartilefni sem annars hefði verið hafa þeir farið inn á þessar brautir. Og þá kem ég að atriði sem ég vil gera örlítið að umtalsefni. Ef sú væri staðan að bönnuð væru eða þá minnkuð kaupin á viðskiptaskuldabréfunum, er þá ekki óhjákvæmilegt að bankarnir þurfi að mæta sínum kostnaði með því að hækka vexti?. Svo er annað frv. um Seðlabanka sem eiginlega bannar að hækka vexti og þá er spurningin, hvernig á bankakerfið að koma sínum kostnaði út ef á að vera tap á rekstri bankakerfisins? Þetta var nú kjarni þess sem ég sagði hér áðan.
    Varðandi þessa fjármagnsmarkaði sem verður að tala um um leið og bankakerfið á ég erfitt með að sjá það í framkvæmd að þeim verði bannað að kaupa skuldabréf eða viðskiptavíxla eða kreditnótur eða reikninga án affalla. Á því byggist þessi markaður og á því byggist það að þessi markaður geti borið hærri ávöxtunarkjör en bankakerfið. Þetta er nú það sem ég vildi koma hér að í tengslum við þetta. Ég held að við verðum að vara okkur á því að setja svona reglur um mjög viðkvæman markað, bæði fjármagnsfyrirtækin eða verðbréfafyrirtækin og bankakerfið þar sem eftirspurn er mjög mikil eftir fjármagni og þeir sem spara eru mjög tortryggnir gagnvart öllum þeim breytingum sem á þessum markaði verða.