Ríkisreikningur 1979
Þriðjudaginn 14. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Það er ekki að undra þótt þingmönnum blöskri sú afgreiðsla sem hér er til meðferðar. Þetta frv. sem nú er verið að afgreiða mun hafa verið lagt fram hér á Alþingi á þinginu 1982--1983 en ekki hlotið afgreiðslu vegna þess hve þinghaldið þá var stutt og síðan af einhverjum ástæðum gleymst í kerfinu. Auðvitað er þetta, alveg eins og frv. sem í kjölfarið fylgir, um meðferð ríkisreikninga fyrir árin 1981--1986, öllum viðkomandi til vansæmdar og auðvitað í engu samræmi við kröfur um nútímaleg vinnubrögð á sviði ríkisfjármála og meðferð þessara mála hvort heldur er í stjórnsýslunni eða hér á hv. Alþingi.
    Það er nú þannig að vinnubrögð um ýmislegt í þessum efnum eru úrelt orðin og þeim þarf að breyta. Hv. 5 þm. Vestf. Sighvatur Björgvinsson vék að nokkrum atriðum í því efni sem ég er í aðalatriðum sammála. Hins vegar er spurning hvort breytingar á meðferð mála hér á Alþingi skipta þar mestu eða ekki. Ég er ekki alveg sannfærður um það. Hins vegar er það ljóst, eins og hv. 5. þm. Vestf. gat um, að til þess að eitthvert gagn sé af ríkisreikningi, þá verður hann að liggja frammi eins fljótt og auðið er.
    Það er mín skoðun að það eigi að gera það að reglu hér á Alþingi, og binda hana þá í lög ef ekki vill betur, að fjárlög komandi árs verði ekki unnt að afgreiða og samþykkja hér á Alþingi fyrr en búið er að staðfesta ríkisreikning fyrir árið þar næst á undan. Þetta hefði t.d. þýtt það að fjárlög ársins 1989 hefði ekki mátt afgreiða hér fyrr en búið væri að staðfesta ríkisreikning ársins 1987. Þetta er ekki flókið mál eða sérstaklega erfitt í meðförum. Ég tel að það eigi að vera metnaðarmál allra sem að þessum málum vinna að koma þessu í þannig horf.
    Yfirskoðunarmenn ríkisreiknings fyrir árið 1987, og ég er í hópi þeirra, tóku þá stefnu þegar eftir að þeir höfðu verið kjörnir að að þessu skyldi stefnt sem ég var hér að lýsa og einsettu sér að ljúka sínu verk þannig að unnt væri að leggja ríkisreikning 1987 fyrir Alþingi nú fyrir jólin. Skýrslu yfirskoðunarmanna ásamt skýrslu Ríkisendurskoðunar var dreift hér fyrir jólaleyfi þó svo að frv. um ríkisreikning fyrir árið 1987 hafi ekki enn komið fram né heldur frv. til fjáraukalaga. Ég hef hins vegar orð hæstv. fjmrh. fyrir því að hann hyggist beita sér fyrir því að bæði þessi þingmál verði lögð fram hér á Alþingi von bráðar og fagna ég því á sama hátt og ég fagna því að hann skyldi hafa tekið sig til og hreinsað upp þessi frumvörp frá löngu liðinni tíð. Mig langar til þess að lesa, með leyfi forseta, aðeins upp úr skýrslu yfirskoðunarmanna. Þar segir m.a.:
    ,,Yfirskoðunarmenn telja eðlilegt að þeirri reglu verði komið á að fjáraukalög liðins árs verði afgreidd á Alþingi samhliða fjárlögum komandi árs. Slík regla auðveldar allan samanburð milli ára auk þess sem eldri ríkisreikningar og frumvörp til fjáraukalaga fyrir löngu liðin ár veita hvorki framkvæmdarvaldshöfum tilskilið aðhald né gera fjárveitingavaldinu nægilega vel kleift að fylgjast með afleiðingum ákvarðana

sinna.``
    Þetta hygg ég að sé kjarni málsins. Ég hygg að Alþingi og framkvæmdarvaldið hafi nú ákveðið tækifæri til þess að byrja frá grunni að nýju, hrista af sér slyðruorðið í meðferð þessara mála og koma á þeirri reglu sem hér var, að meðferð þessara reikninga og fjáraukalaga sé þannig í fyrsta lagi að eitthvert gagn sé að því og í öðru lagi að það aðhald sem í þessu á að felast sé fyrir hendi.
    Ég skil það mætavel að formaður fjvn. uni því afar illa hvernig að þessum málum hefur verið staðið að undanförnu. Ég tel að það sé mikið svigrúm fyrir umbætur og endurbætur á þessu sviði. Með tilfærslu Ríkisendurskoðunar undir Alþingi hefur verið stigið mjög mikilvægt skref í að efla og endurbæta endurskoðun með ríkisútgjöldum. Það er ljóst að það er hægt á öld þeirrar tækni sem við lifum í dag að flýta mjög öllum frágangi og meðferð þessara mála og það á vissulega að gera. Um það held ég að allir hljóti að vera sammála.
    Ég held að við ættum að láta þessi tvö þskj., ríkisreikning fyrir 1979 og ríkisreikning fyrir 1981--1986 okkur öllum að kenningu verða þannig að menn taki sig á og geri það átak sem hér er nauðsynlegt til þess að útrýma úreltum vinnubrögðum og taka upp eðlilega og nútímalega starfshætti í þessu efni. Um það þurfa allir að sameinast í fjvn., og fjárveitingavaldið í heild, fjmrn., ríkisbókhald, Ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreiknings.