Þjóðminjalög
Miðvikudaginn 15. febrúar 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Ég fagna því að sjálfsögðu að frv. til þjóðminjalaga er lagt fram. Ég tel að það sé löngu tímabært að taka þá löggjöf til rækilegrar endurskoðunar og gera tilraun til að færa þessa löggjöf í það form að hún sé í takt við nútímann og framtíðina betur en eldri lög gerðu og það þurfi vissulega eins og reynsla tímans hefur sannað að taka þarna til hendi og gera þessi lög, sem eru svo mikilvæg fyrir íslenska þjóð, skilvirkari en eldri lög hafa verið.
    Ég hefði kosið, án þess að ég ætli að fara efnislega út í það hér, að lögð hefði verið meiri áhersla á sérgreiningu í þessum lögum heldur en hér kemur fram. Þegar maður skoðar löggjöf og það sem er í gildi hjá öðrum þjóðum og ekki síst þeim þjóðum sem við viljum sækja mest til á þessu sviði, t.d. hjá okkar nágrannaþjóðum á Norðurlöndum, sem hafa vissulega skarað fram úr á þessu sviði meðal þjóða heims, að því er fornleifavernd og verndun minja varðar, og geta þess vegna verið okkur leiðarljós þegar við erum að fjalla um svona viðamikið mál eins og þjóðminjalög og verndun fornleifa, þá tel ég að við höfum reyndar vísi að þessu þar sem elstu lög sem við höfum um íslenskar fornleifar eru frá 1907 og voru einmitt sniðin að löggjöf Norðurlandaþjóða. Þar af leiðandi hefði ekki verið neitt óeðlilegt að fylgja þeirri þróun sem þar hefur verið þegar við semjum ný lög að þessu leyti til.
    Ég ætla ekki að fara efnislega út í þetta hér og nú, en þar sem það er alveg ljóst að í framkvæmd þessara mála á undanförnum árum erum við náttúrlega á eftir nágrannaþjóðum hvað fornleifavernd varðar, það er alveg hægt að segja það eins og er, þá tel ég að það hefði vel komið til greina að skoða það betur en kemur fram í þessu frv. að veita meira sjálfstæði að því er varðar fornleifavörsluna sjálfa og fornleifameðferð heldur en kemur fram í þessu frv. og ég tel að það sé ástæða til að láta skoða það í menntmn. þegar farið verður að skoða þetta mál nánar.
    Eins og hv. flm. kom inn á er ljóst að Þjóðminjasafn, og allt sem varðar geymslu á ýmsum minjum sem varða menningu þjóðarinnar fyrr og síðar, á auðvitað að vera lifandi stofnun sem þarf að vera sem næst fólkinu í landinu á öllum stigum. Með nútímaþekkingu stendur þetta miklu nær fólki, þörfin á þessu heldur en verið hefur áður og ég tek undir það með hv. frsm. að auðvitað hefur skort á þetta hjá okkur. Það má sjálfsagt mörgu um kenna, en það er viðurkennt að safnið okkar, Þjóðminjasafnið, hefur verið í allt of mikilli fjarlægð frá fólkinu. Auðvitað þarf þetta að breytast.
    Ég er þess vegna inni á því að alla þætti þessa frv. til þjóðminjalaga, sem Alþingi hefur nú fengið til afgreiðslu, þurfi að skoða vandlega, hvernig við náum mestum árangri í sambandi við meðferð þessa máls þannig að þetta verði lifandi safn, þetta verði safn sem almenningur í landinu hafi mikinn áhuga á og sem flestir kynni sér og stuðli að framgangi þess á

hverjum tíma.
    Það sem ég vil einnig leggja áherslu á er það að mér finnst að fornleifaverndin, við skulum kalla það svo, hafi orðið út undan í meðferð þessara mála á undanförnum áratugum. Við eigum gífurlega merkilegar minjar alls staðar í okkar landi sem betur fer og það er fyrir löngu kominn tími til þess að við hefjum miklu meiri sókn að því að draga þessar minjar fram í dagsljósið og gera nútíma Íslendingum og raunar öllum þjóðum kunnugt hvaða verðmæti við eigum á þessu sviði. Til þess að þetta sé hægt þurfum við auðvitað að sérmennta fólk og ég er ansi hræddur um það að okkar hlutur í sérmenntuðu fólki á þessu sviði sé ákaflega rýr. Því miður. Auðvitað kostar þetta allt peninga og við Íslendingar í dag og ekki síst Alþingi þarf að gera sér grein fyrir því að fornminja- og þjóðminjavarsla á árinu 1989 --- það ætti náttúrlega að vera löngu ljóst að þetta kostar óhemju fjármagn miðað við það sem er í gildi hjá öðrum þjóðum, og miðað við það sem við höfum verið að láta í þetta sem eru smáaurar á hverjum tíma.
    En ég ætla ekki að tefja þessar umræður. Ég vil aðeins vekja athygli á því, og ég geri ráð fyrir að það séu fleiri sammála mér í því, að við meðferð þessa máls þarf að skoða það vandlega hvort það er virkilega rangt að gera meiri aðskilnað á milli fornleifavörslu og þjóðminjasöfnunar eða safnastarfsemi á því sviði. Þetta er atriði sem þarf a.m.k. að skoða miklu nánar heldur en að afgreiða þetta frv. hratt eins og mér fannst koma fram hjá frsm. fyrir þessu frv.
    Frsm. nefndi hér fjárveitingar og annað slíkt. Auðvitað hafa þær verið eins og við vitum alltaf af skornum skammti, en ég verð að segja það hér og ég hef sagt það hér áður úr þessum ræðustól að ég varð fyrir miklum vonbrigðum á vissu árabili þegar fjárveitingavaldið tók frumkvæði í því að reyna að laga safnið þannig að t.d. fatlaðir hefðu þar aðgengi. Fjvn. lagði fram sérstakar fjárveitingar ár eftir ár sem áttu að nægja til þess að gera þessa sjálfsögðu aðgerð að veruleika, en slík verkefni eiga í sjálfu sér samkvæmt íslenskum lögum að hafa forgang til þess að veita fötluðu fólki á hvaða fötlunarstigi sem er aðgang að slíku menningarsafni eins og við eigum hér. En því miður fór framkvæmdin á þessu alltaf í handaskolum þannig að ár eftir ár varð fjvn.,
m.a.s. ný fjvn., að þola það að ákvörðun um sérstakar sérmerktar fjárveitingar til safnsins á þessu sviði hefðu aldrei verið framkvæmdar. Og þetta er náttúrlega ekki gott. Ég skal ekkert segja um það hverjum það er að kenna að þetta er svona. Það getur vel verið að það sé samspil við þann aðila sem á að sjá um þessar framkvæmdir, sem hv. frsm. nefndi, að húsameistaraembættið hafi brugðist þarna, en alla vega varð þetta bæði Alþingi og safninu og mörgum aðilum til háborinnar skammar að ekki var hægt að framkvæma það sem Alþingi var búið að samþykkja. Þannig eru ýmsar brotalamir í þessum málum, en auðvitað eigum við að stefna að því sameiginlega að vera sammála um það hér á Alþingi að við þurfum að

efla þennan málaflokk, við þurfum að ná því marki að við eigum lifandi safn af þjóðminjum, fornminjum. Og ég vil bæta því við að ég tel að við þurfum að huga vel að því í sambandi við afgreiðslu þessa máls hvort við eigum ekki að skoða betur aðskilnað eða sérstöðu, það þarf ekki að búa til nýja stofnun, sérstöðu fornleifaþáttarins í þessari löggjöf okkar.