Endurunninn pappír
Fimmtudaginn 16. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svör hans þó að ég hafi orðið fyrir talsverðum vonbrigðum að ekki skuli vera vakandi viðhorfsbreytingar innan Stjórnarráðsins í ríkara mæli en kom fram í svari hans. En ég fagna því þó að hann hyggist láta kanna frekar hvernig þessum málum er varið og hvernig þessu megi breyta.
    Hæstv. ráðherra minntist á að einhver hefði í hans eyru talað um að pappírinn væri lakari. Það væri gaman að fá nánari útskýringu á því hvernig orðið ,,lakari`` væri skilgreint. Ég er hér með afskaplega falleg bréfsefni frá Skógræktarfélagi Íslands sem hefur tekið upp endurunninn pappír í sitt bréfsefni og lætur þess getið í vinstra horni blaðsins að neðanverðu að pappírinn sé endurunninn. Sama gerir Samband ísl. hitaveitna og lætur þess einnig getið í hægra horni neðan til að pappírinn sé endurunninn. Ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að þetta hefur uppeldisgildi, þetta hefur fordæmisgildi og það hefur fræðslugildi fyrir allan almenning sem fær slík bréf. Og það vekur virðingu þeirra sem fá slík bréf fyrir náttúrunni og það vekur umhugsun um siðferðilega skyldu okkar Íslendinga að ýta ekki mengunarvanda eða náttúruspjöllum yfir á aðrar þjóðir vegna efnahagslegrar hagkvæmni sem svo hefur verið orðuð.
    Ég minnist þess að hafa heyrt í fréttum nú nýlega að einhverjir spekúlantar hyggist leggja í eyði svæði í Suður-Ameríku sem jafnast á við eitt eða tvö Íslönd, ef svo mætti segja, það er a.m.k. tvisvar sinnum stærð Íslands ef ég man rétt og e.t.v. er það aðeins stærra, vegna virkjunarframkvæmda og þarna liggja lungu jarðarinnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Alþjóðabankinn kemur til með að hafa sitt að segja í þessum framkvæmdum og það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli hvernig fulltrúi Íslendinga t.d. bregst við á þeim vettvangi.
    Varðandi möguleika á endurvinnslu pappírs hérlendis hefur það komið fram hingað til að þau fyrirtæki sem hafa reynt slíkt hafa ekki getað spjarað sig og hafa ekki talið hagkvæmt að standa í slíkri vinnslu. Það fyrirtæki sem reynt hefur að framleiða eggjabakka hefur sannarlega barist í bökkum vegna þess að á sama tíma eru fluttir inn eggjabakkar úr plasti sem eru í beinni og mjög harðri samkeppni við þetta virðingarverða framtak sem er að endurnýta pappír hérlendis.
    Ég vil enn og aftur brýna hæstv. forsrh. á að taka þessi mál föstum tökum, að fá betur skilgreint í sín eyru hvað ,,lakari`` þýðir. Kvennalistinn notar í fréttabréf sitt pappír sem er endurunninn. Hann fæst í ýmsum litum, mjög fallegum litum. Það er hægt að nota þessi blöð bæði sem rissblöð og ekki síður sem bréfsefni eða í orðsendingar eða fréttabréf þannig að reynsla okkar er góð. Reynsla annarra sem hafa notað þetta er góð og siðferðileg ábyrgð okkar allra er mikil.