Albert Guðmundsson:
    Forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa réttilega sagt að við stöndum frammi fyrir nýjum tímum og það eru vandamál sem skapa þær breytingar sem fram undan eru, en ég held við gerum okkur ekki nokkra grein fyrir því að það þarfamál sem hér er talað um er bara lítið brot, það er minna en dropi í hafinu af því sem er á leiðinni, vegna þess að það sem verið er að vinna að er ekki bara samræming tollskjala, einföldun á tollskjölum eins og kom fram hér hjá hv. 7. þm. Reykn. Tollskjöl breytast ekkert út af fyrir sig þó uppsetningin sé einfölduð. Það eru sömu upplýsingar sem verða þar eftir sem áður en tollskjalameðferðin er einfölduð á þann hátt að það eru færri liðir sem koma inn á nýju tollskjölin þótt tollskjölin verði þau sömu fyrir Efnahagsbandalagsþjóðirnar allar. Það breytir ekkert um hvaðan varan kemur því hún er ekkert öðruvísi skráð í uppruna sínum en hún er í dag. Það vantar ekki dálk á tollskjölin í dag, hvorki hér né neins staðar annars staðar, til að skrá uppruna vörunnar. Það er farið á bak við þessa skráningu og hún er umskráð í móttökulandinu. Það eru ekki bara fyrirtæki í öðrum löndum í Evrópu en Íslandi. Það eru líka fyrirtæki á Íslandi sem láta framleiða fyrir sig í ódýrari löndunum og koma því svo heim í gegnum þriðja land. Þeir sem kvarta í iðnaði hafa tekið þátt í þessum leik.
    En það sem er að ske er að það er verið að gera Evrópu að eins konar ríkjasambandi þar sem bæði peningarnir og allt annað í sambandi við daglega þörf almennings er samræmt. Það er talið að það verði ECU gjaldmiðill fyrir alla Evrópu. Francois Mitterand hélt tveggja tíma sjónvarpsþátt fyrir fjórum dögum í franska sjónvarpið sem hægt var að sjá hér og ég fylgdist með. Þar var hann að tala um þessi væntanlegu framtíðarmál, breytingarnar sem eru að verða á rekstri Evrópuþjóðanna. Að vísu kom það vel fram að Stóra-Bretland er á móti þessum breytingum eins og er. En þar er verið að tala um ein landamæri, eina lögreglu, eina tollgæslu við landamæri Evrópu, ekki bara hvers lands fyrir sig. Þegar allar þessar breytingar sem eru í vændum koma saman í eitt, þegar Evrópa verður orðin það ríkjasamband sem stefnt hefur verið að frá stríðslokum og tekið hefur miklum framförum í undirbúningi síðustu mánuðina og síðustu árin er ég hræddur um að við séum illa undir það búnir að taka þátt í þeirri gríðarlega miklu breytingu, því gríðarlega stóra skrefi sem við tökum frá ekki bara fortíðinni heldur nútímanum yfir í þá tíma sem eiga að vera framtíðin. Það eru þessar breytingar, sem unnið er að í Evrópu, sem við verðum að fylgjast vel með. Það er ekki bara hver gerir hlutina rétt, hver gerir hlutina rangt. Það út af fyrir sig er stórt mál en er dropi í stóru breytingahafi sem er á leiðinni.