Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil nota tímann sem hér er til reiðu þar til hæstv. landbrh. kemur til þess að víkja nokkuð að einstökum atriðum sem hér hafa komið til umræðu. Ég vil þá aðeins geta þess að það er nú ekki af skorti á virðingu hæstv. landbrh. gagnvart þessari umræðu sem hann er fjarstaddur, heldur er hann, eins og hv. þm. er kunnugt, einnig samgrh. og eins og þegar hefur verið vikið að í þessari umræðu eru málefni eins af stærri fyrirtækjum þessa lands, Arnarflugs, mjög til umfjöllunar þessa sólarhringa. M.a. hefur hæstv. samgrh. nú þegar átt fund með fulltrúum stjórnarandstöðuflokka um það mál og er að undirbúa annan slíkan ásamt umfjöllun ríkisstjórnarinnar um helgina um það mál. Ég vona því að hv. þm., sem hér hafa talað og eðlilega óskað eftir nærveru hæstv. landbrh., sýni því skilning að það vill svo til að mjög brýnt mál er á miklu vinnslustigi þessa sólarhringana og getur auðvitað haft áhrif á vinnuáætlanir hæstv. landbrh.
    Ég vil hins vegar nota þennan tíma meðan við bíðum eftir að hann komi til umræðunnar til að þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir mjög mikla og ítarlega vinnu sem hún hefur lagt í frv. Eins og frsm. meiri hl. nefndarinnar gerði grein fyrir hefur nefndin kallað til sín mikinn fjölda fulltrúa, sérfræðinga og embættismanna til þess að geta áttað sig vel á efni málsins. Frv. hefur tekið nokkrum breytingum, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, af eðlilegum ástæðum, m.a. vegna þess að nú liggur skýrar fyrir hver útkoma síðasta árs varð og einnig að nauðsynlegt hefur verið af tæknilegum ástæðum að flytja inn í þetta frv. lántökuáform ýmissa annarra aðila.
    Það var nokkuð vikið að því af hv. þm. Júlíusi Sólnes að nauðsynlegt væri að fjalla einnig um það hér í tengslum við þetta frv. hvaða áform og áætlanir ríkisstjórnin hefði varðandi flutning á fjármagni til landa og frá og þær breytingar sem eru að verða í Evrópu í þeim efnum og tengsl Íslands við þá þróun.
    Hv. þm. Júlíus Sólnes var, eins og hann vék að sjálfur, fjarverandi fyrr í þessari viku, en þá var allítarlega fjallað um þetta efni. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafði þá frumkvæði að því að taka til ítarlegrar umfjöllunar þróun markaðsmála á peningamarkaði í Evrópu og á Norðurlöndum í sérstökum tengslum við efnahagsáætlun ráðherra Norðurlanda, en eins og hv. þingmönnum er kunnugt hafði ég sem fulltrúi Íslands fyrirvara við þá vinnu varðandi þann kafla í áætluninni sem snýr að þróun fjármagns- og peningamarkaðarins. Hins vegar hefur orðið samkomulag um það að á vegum ríkisstjórnarinnar verði á næstu missirum unnið rækilega að því að ræða og móta reglur sem m.a. munu taka hliðsjón af þeim atriðum sem greint er frá í þessari áætlun og ég lýsti því yfir við umræður fyrr í þessari viku að nauðsynlegt væri að allir þingflokkar tækju þessi málefni til ítarlegrar meðferðar þannig að hér innan þingsins sem og á vettvangi ríkisstjórnarinnar gæti myndast í senn nægileg þekking og síðan afstaða til þeirra mikilvægu atriða sem þarf

að taka ákvarðanir um.
    Ég vil í þessu sambandi rifja það upp að þegar hv. þm. Júlíus Sólnes varð formaður þingflokks Borgaraflokksins lét ég hann fá formlega, eins og formenn annarra þingflokka, efnahagsáætlun Norðurlanda skömmu eftir að ráðherrarnir höfðu gengið frá henni í nóvember og það var gert af minni hálfu gagngert til þess að hvetja þingflokkana til þess að taka þau mikilvægu efni til umfjöllunar, ekki vegna þess að ég væri bara að póstsenda skýrslur sem væru á mínu starfssviði, heldur sérstaklega til þess að vekja athygli þingflokkanna á því að þarna væru á ferðinni málefni sem nauðsynlegt væri að þingflokkarnir, þrátt fyrir miklar annir, gæfu sér ítarlegan tíma til að fjalla um á næstu mánuðum. Þess vegna vildi ég aftur víkja nokkrum orðum að þessu því að þetta er auðvitað eitt af stóru málunum á sviði peningamála og fjármagnshreyfinga í okkar þjóðfélagi og þeim heimshluta sem næst okkur stendur á komandi árum og hárrétt hjá hv. þm. Júlíusi Sólnes að vekja jafnrækilega athygli á því eins og hann gerði.
    Ég vænti þess að tími gefist til þess að víkja e.t.v. aftur að þeim málum þegar þau frv. um peningamál sem mælt var fyrir fyrr í þessari viku, þegar þessi umræða fór fram sem ég er hér að rekja lauslega, koma til umfjöllunar hér í hv. deild eftir að fjh.- og viðskn. hefur haft tækifæri til að skoða þau.
    Þá hefur einnig, virðulegi forseti, verið vikið nokkuð að því í umræðunum hvort innheimtur yrði svokallaður lántökuskattur af ýmsum þeim erlendu lánum sem tekin verða í þágu mikilvægra útflutningsgreina, byggðavandamála og annarra verkefna. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt var gerð sú breyting á lögunum við meðferð þeirra hér á Alþingi skömmu fyrir jól að fjmrh. var falin sú heimild að gera undanþágu á þessum skatti varðandi lántökur sem sérstaklega væru ætlaðar verkefnum á sviði mikilvægrar atvinnustarfsemi útflutningsþróunar og annarra þeirra sviða sem að dómi ríkisstjórnarinnar væru nauðsynleg og mikilvæg verkefni. Ég hef kosið, áður en veitt eru endanleg svör um einstaka lántökur, að móta þau almennu sjónarmið sem farið verður eftir við slíkar ákvarðanir vegna þess að ég tel óheppilegt að tína úr eitt og eitt atriði og taka afstöðu til þeirra hvers fyrir sig. Hins vegar get ég sagt það að það er
alveg augljóst að þau verkefni sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, sérstaklega varðandi skipasmíðar og almenna byggðaþróun, eru auðvitað einna efst á blaði varðandi þetta atriði.
    Síðan spurði hv. þm. Halldór Blöndal um nokkur atriði sem hann vildi inna eftir hvort væru til umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar og milli ráðherra og það er nú þannig með öll þau atriði sem hann vék þarna að eru til umfjöllunar á einn eða annan hátt milli ráðherra. Það á t.d. við ýmis þau málefni sem snerta landsbyggðina og atvinnuvegina sem hv. þm. spurði um. Þau eru nánast daglega og vikulega til umfjöllunar milli ráðherra og niðurstöður þeirra hafa verið að birtast að undanförnu og munu birtast á næstunni. Sama gildir einnig um málefni

flugfélagsins Arnarflugs sem einnig var spurt um hér og ég hef nú þegar í upphafi míns máls greint frá því að er ein af ástæðum þess að hæstv. samgrh. hefur hingað til verið fjarverandi þessa umræðu.
    Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að vandamál margra byggðarlaga eru mjög erfið af margvíslegum orsökum. Hins vegar er það ljóst, og ég ætla ekki að gera það að ítarlegu umræðuefni hér, að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið þá afstöðu eftir ítarlega athugun á vandamálum þessara fyrirtækja að gengisfelling af stórri gráðu sé ekki það lausnartæki sem þessum atvinnufyrirtækjum kemur til bjargar. Sú afstaða er mótuð af því að hafa skoðað rækilega reikninga og fjárhagsstöðu þessara fyrirtækja, skuldastöðu þeirra og annað.
    Ég hef í grófum dráttum viljað skipta fyrirtækjum í útflutningsgreinum í fjóra flokka eins og ástandið er nú.
    Í fyrsta flokknum eru fyrirtæki sem nú ganga vel sem betur fer. Það heyrist e.t.v. ekki mikið frá þeim í okkar þjóðfélagi, en þau eru sem betur fer mörg.
    Í öðru lagi eru fyrirtæki sem nú þegar hafa fengið skuldbreytingar lána og telja að þær skuldbreytingar dugi þeim vel miðað við þær breytingar sem orðið hafa m.a. á raungengi og í vaxtamálum og er rétt að ítreka það að það hefur orðið allveruleg breyting á raungengi síðustu mánuði.
    Í þriðja lagi eru fyrirtæki sem þurfa nokkuð aukið eigið fé inn í reksturinn og sá hlutabréfasjóður sem stjórnarandstaðan flutti upphaflega tillögu um og ríkisstjórnin gerði síðan að sinni á að gegna mikilvægu hlutverki í þeim efnum, m.a. sem tæki til þess að auðvelda fjárfestingarlánasjóðum og bankastofnunum að breyta lánum í aukið eigið fé viðkomandi fyrirtækja.
    Í fjórða lagi eru fyrirtæki sem því miður hafa fjárfest á þann veg eða búa af öðrum ástæðum við slíka hlutfallsstöðu eigna og skulda að skynsamlegasta leiðin er uppgjör fyrirtækisins með einhvers konar gjaldþrotameðferð. Þegar fyrirtækin hins vegar gegna lykilhlutverki í atvinnugrein í viðkomandi byggðarlagi og atvinnulífi þess mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að atvinnulífið í byggðarlaginu verði tryggt með nýju fyrirtæki og nýrri starfsemi.
    Ég get hins vegar fullvissað hv. þm. um það að almenn sjónarmið munu fyrst og fremst ríkja í þessum aðgerðum eins og hingað til. Ég vil rifja það upp í því sambandi að þegar Atvinnutryggingarsjóður var settur á laggirnar töldu ýmsir að hann mundi vinna pólitískt, hann mundi þjóna einhverri pólitískri fyrirgreiðslustarfsemi, hann var jafnvel kenndur við bjargráðasjóðsskussana. Nú er það samdóma álit allra sem til þekkja, m.a. forsvarsmanna í atvinnulífinu og bankastofnunum, að á vegum Atvinnutryggingarsjóðs hafi verið unnið betur og með faglegri vinnubrögðum að þessari ákvarðanatöku en jafnvel hafi þekkst áður í íslensku bankakerfi og lánasjóðum. Hingað til er mér ekki kunnugt um að nokkur maður hafi getað bent á eitt einasta tilvik í meðferð Atvinnutryggingarsjóðs sem ber eitthvert pólitískt fyrirgreiðslusvipmót nema

síður sé. Og það er auðvitað mjög mikilvægt að það sé viðurkennt nú þegar sjóðurinn hefur starfað um allmarga mánuði og reynsla er fengin af því, svo að þær spásagnir um pólitíska fyrirgreiðslu eða annarleg sjónarmið sem settar voru fram í upphafi reynast núna dauðar og ómerkar í ljósi reynslunnar. Sömu faglegu vinnubrögð munu auðvitað verða viðhöfð varðandi hlutafjársjóðinn sem lagt er til að stofna og það almenna mat ríkisstjórnarinnar á því að tryggja atvinnuhagsmuni byggðarlaga alveg óháð því hvers konar pólitískur meiri hluti kann að ríkja í viðkomandi byggðarlögum. Þessi ríkisstjórn ætlar sér ekki að fara að mismuna mönnum eftir pólitík eða greiða sérstaklega fyrir fyrirtækjum á pólitískum forsendum, heldur viðhafa fyrst og fremst almenn atvinnuleg, byggðarleg og rekstrarleg sjónarmið þegar þessar aðgerðir eru framkvæmdir.
    Þetta taldi ég nauðsynlegt að segja hér vegna þess að sumar af þeim spurningum sem hér voru bornar fram voru e.t.v. sprottnar af ótta, kannski eðlilegum ótta við það að einhvers konar annarleg sjónarmið kynnu að ríkja við ákvarðanatökur af þessu tagi, en ég get fullvissað hv. þingdeild um það eins og ég gerði hér í upphafi þings þegar málefni Atvinnutryggingarsjóðs voru til umræðu að svo verður ekki. Þá fullyrti ég að Atvinnutryggingarsjóður mundi starfa með strangari og faglegri kröfur heldur en bankar og fjárfestingarlánasjóðir hafa gert hingað til og það hefur reynst rétt. Á sama hátt fullyrði ég að hlutabréfasjóður Byggðastofnunar, sem gerð hefur verið
tillaga um við meðferð bráðabirgðalaganna hér á Alþingi, muni starfa í sama anda. Það er auðvitað mjög mikilvægt að bæði fulltrúar hér á Alþingi og fólkið í landinu geti treyst því að fagleg, atvinnuleg og rekstrarleg sjónarmið ásamt hagsmunum fólksins sjálfs í byggðarlögunum verði það sem verður látið ráða þegar ákvarðanir verða teknar um þróun fyrirtækjanna.
    Það er svo alveg rétt ... ( HBl: Hæstv. fjmrh., ber að skilja ummælin svo að enginn pólitískur þrýstingur sé inni í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs? Þorir hæstv. ráðherra að fullyrða það að engir einstakir ráðherrar hafi beitt pólitískum þrýstingi á stjórn Atvinnutryggingarsjóðs?) Mér er ekki kunnugt um það, hv. þm. Halldór Blöndal, að slíkum pólitískum þrýstingi hafi verið beitt og vil þess vegna ekki dæma neitt um það. Það eina sem ég sagði var það að niðurstöður Atvinnutryggingarsjóðs lægju fyrir, faglegar greinargerðir þess mats lægju fyrir og mér væri ekki kunnugt um nokkurn mann sem gæti bent á nokkra jákvæða afgreiðslu Atvinnutryggingarsjóðs á þann veg að hún væri ekki byggð á faglegu mati heldur einhverjum pólitískum sjónarmiðum. ( HBl: En ráðherrann getur ekki dæmt um hvort pólitískum þrýstingi hafi verið beitt.) (Forseti hringir.) Það er nú ekki rétt hjá hv. þm. vegna þess að það er alltaf erfitt að meta slíkan þrýsting, hann er nú ekki þannig eining að hægt sé að setja á hann tommustokk. ( Gripið fram í: Það eru til þrýstimælar.) Já, þeir eru

að vísu til en þeir mæla nú ekki þetta. Það sem er hins vegar hægt að mæla eru niðurstöðurnar. Þær tala sínu máli og það eru þær sem eru höfuðatriðið. Þær eru á þann veg sem ég hef hér lýst.
    Það er hins vegar rétt sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði að reynslan af meðferð lánsfjárlaga á undanförnum árum er oft á þann veg að hér er í eðli sínu meira e.t.v. um áætlun að ræða heldur en endanlegar ákvarðanir. Ég hef þó lýst því yfir, bæði við meðferð fjárlaga og eins hér, að það er full ætlun mín að reyna að framfylgja þeim ákvörðunum eftir bestu getu. Ég geri mér hins vegar alveg ljóst að það er ekki í mínu valdi að tryggja það fullkomlega hér og nú að svo verði. Ég hef þess vegna kosið að orða þetta á þann veg að þetta sé alvarleg tilraun til þess að haga málum á þann veg að þær ákvarðanir sem hér er um fjallað og í fjárlagafrv. standist. Ég hef verið að skoða ýmsa starfshætti fjmrn. og stjórnvalda á þessu sviði. Ég vænti þess að hv. alþm. hafi tekið eftir því að ég hef lagt hér fram á Alþingi ríkisreikninga margra undanfarinna ára sem vanrækt hefur verið að leggja fram, nánast í áratug, og hef einnig tekið til athugunar að flytja hér inn á þingið á viðkomandi fjárlagaári og framkvæmdaári lánsfjárlaga þær breytingar sem hugsanlega kann að þurfa að gera til þess að þingið geti þá sjálft staðið frammi fyrir þeim ákvörðunum.
    Ég er alveg sammála því að þau vinnubrögð sem tíðkast hafa í þessum efnum um langt árabil eru hvorki holl fyrir ríkisstjórn, fyrir fjmrn., fyrir þingið né fyrir þjóðina og að mikil nauðsyn sé á að koma meiri festu og meiri reglu á þessi vinnubrögð. Það verður auðvitað mikill áfangi ef þinginu tekst núna fyrir vorið að hreinsa borð ríkisreikninga og fjáraukalaga fyrir undanfarin ár og þar með fyrir sl. ár vegna þess að þá er búið að vinna upp verk sem vanrækt hefur verið um langa hríð.
    Ég hef einnig á haustmánuðum og fyrir áramót jafnóðum gert þinginu grein fyrir nýjustu vitneskju um afkomu ríkissjóðs. Ég hef tekið eftir því að þingmenn hafa stundum haft þau orð í flimtingum og gert að þeim góðlátlegt grín eða haft af því gaman, eins og skein nú í hjá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur. Ég kaus hins vegar að láta þingið vita jafnóðum um þá vitneskju sem fyrir lá á mínum borðum vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að þingið og þjóðin vissi það, jafnvel þótt það stangaðist á við þær yfirlýsingar sem ég hafði áður gefið. Ég mun einnig leitast við það á þessu ári að sinna þeim upplýsingum mjög rækilega og koma þeim á framfæri. Ég hef óskað eftir ítarlegri samvinnu við fjvn. um það atriði, hef þegar átt mjög fróðlega og góða fundi með fjvn. og mun halda því áfram á næstu dögum, um útkomu ársins 1988 og um framkvæmd aðhalds og eftirlits í fjárlögum fyrir þetta ár. Og vegna þess hvernig störfum þingsins er háttað hvað lánsfjárlögin snertir finnst mér fyllilega koma til greina að sams konar vinnubrögð verði tekin upp varðandi fjh.- og viðskn., að reglubundnir fundir fjmrn. og fjh.- og viðskn. beggja deilda verði um framkvæmd lánsfjárlaganna svo að viðkomandi

þingnefndir fái tækifæri til þess að skoða þau mál jafnóðum.
    Það er að mínum dómi hins vegar galli á stjórnskipan þingsins að fjvn. kemur ekki að þessum þætti málsins og e.t.v. gæti verið nauðsynlegt að efna til einhverra sameiginlegra funda fjvn. og fjh.- og viðskn. um þennan þátt. En ég tel að þetta samráð og þessi umræða okkar í fjmrn. og fjvn. á undanförnum vikum hafi verið til góðs og mun hugleiða mjög alvarlega að leita eftir sams konar fundum með fjh.- og viðskn. um framgang og framkvæmd lánsfjárlaga.