Lánsfjárlög 1989
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur verið drepið á margt. Margt af því snertir reyndar almenn peninga- og vaxtamál og efnahagsmál sem þegar hafa verið nokkuð rædd hér í þinginu, bæði í hv. Ed. og í Sþ., reyndar í Nd. einnig en þó mest í Ed. og Sþ. Ég vil ekki lengja þá umræðu með því að hefja hér almenna umræðu um vaxtastefnuna en vildi vísa á þær umræður og svo hugsanlegt framhald þeirra. En mig langar til þess að segja hér nokkur orð um þrennt:
    Það er í fyrsta lagi þær athugasemdir sem fallið hafa hjá öllum sem talað hafa, hv. 2. þm. Norðurl. e., hv. 6. þm. Reykv., hv. 7. þm. Reykn. og fjmrh. og það fjallar eiginlega um gerð og framkvæmd lánsfjárlaga og lánsfjáráætlunar. Það er alveg rétt að það er engin tilviljun að umræða um þessi mál vill fara út um víðan völl. Það er einfaldlega af því að viðfangsefni og vettvangur þessa lagafrv. er ekki nógu skýrt mótaður. Það er í honum viss tvíhyggja, það er annars vegar nauðsynlegar heimildir vegna lántöku sem ríkið sjálft þarf að taka og tengist beinlínis fjárlögunum og framkvæmd þeirra eins og fyrstu tvær greinar þessa frv. Svo eru þetta margvíslegar heimildir til annarra opinberra aðila, sveitarfélaga, sameignarfélaga ríkis og sveitarfélaga og svo loks fjárfestingarlánasjóða sem enn starfa ýmsir á ábyrgð ríkisins. Þetta tel ég tvímælalaust nauðsynlegt að taka til endurskoðunar því margt af því sem hér er á borðum eru ekki raunverulegar ákvarðanir eða fyrirætlanir ríkisins heldur áætlanir lausar í reipum sem ekki eru hentugar til lagasetningar. Þetta hefur komið fram hvað eftir annað og ég tel þess vegna fulla ástæðu til þess að bæði ráðuneytin sem undirbúa þetta, og þá fyrst og fremst Fjárlaga- og hagsýslustofnun en í samráði við önnur ráðuneyti, og þingið velti því fyrir sér hver á að vera vettvangur þessa frv. og þessara laga og tengsl lánsfjárlaga og lánsfjárætlunar við fjárlagagerðina sjálfa.
    Það var athyglisvert sem kom hér fram hjá fjmrh. um samráð við þingið um framkvæmd þessa þáttar í fjárhagsmálefnum ríkisins. Ég held að þarna sé líka nauðsynlegt og reyndar löngu tímabært að losna við hinn þráláta ,,þráttar"-kafla í þessum lögum þar sem eru þessi mörgu ákvæði um að ,,þrátt fyrir`` ákvæði annarra laga skuli svo og svo haga fjárveitingum til málaflokka sem þar eru. Þetta er auðvitað verkefni sem þarf að taka fyrir á vettvangi löggjafans og að reyna að víkja frá þessum málum á einhvern annan hátt en þann sem við gerum hér árlega og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt í því máli.
    Þetta eru nú þessi almennu mál sem hér hafa verið rædd og ég held að þau séu á margan hátt mjög þörf. Það er þarft að þingmenn skuli vekja máls á því að endurskipuleggja þetta starf. Og vegna þess sem hv. 7. þm. Reykn. sagði, að menn gætu alltaf haldið sömu ræðuna um málið, þá held ég að það megi eiginlega ekki láta þau sannast miklu oftar. Það þarf að taka þetta tæki þingsins til vandlegrar athugunar að nýju.
    Hv. 6. þm. Reykv. gekk svo langt að kalla þetta sýndarreikningsdæmi. Það fannst mér nú nokkuð fast

að orði kveðið um þann þátt málsins sem lýtur að ákvörðunum um lántökur vegna alveg fast ákveðinna verkefna ríkisins sjálfs og stofnana á vegum þess. En ýmislegt annað í þessu eru áætlanir og þar er dreifð ákvarðanataka sem er ekki vel fallin til löggjafar af því tagi sem stundum er reynt að hafa hér uppi. Þetta er mál sem bæði framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið þarf að draga lærdóm af, eins og hv. 6. þm. Reykv. drap hér á, og búa betur um málið.
    Næsta mál sem ég vildi víkja að eru málefni skipasmíðanna sem bæði hv. frsm. fjh.- og viðskn., hv. 2. þm. Norðurl. e., og hv. 7. þm. Reykn. viku að. Til mín var beint þeirri spurningu hvernig ætlunin væri að standa að lánveitingum til innlendrar skipasmíði á þessu ári. Ég vil lýsa hér yfir stuðningi við þá brtt. hv. fjh.- og viðskn. sem hér er gerð við 6. gr., að Byggðastofnun fái heimild til erlendrar lántöku að fjárhæð allt að 200 millj. kr. á þessum lánsfjárlögum vegna skipaviðgerða hér á landi. Andvirði þessa láns verður auðvitað notað til að endurlána þeim aðilum sem láta gera endurbætur á skipum sínum hér á landi. Hér er líka gert ráð fyrir því að Byggðastofnun ákveði endurlánin á grundvelli almennra reglna, líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Ég vil þó taka það fram að ég tel að með þessari heimild, 200 millj., ætti að vera unnt að hækka hámark þessara lána úr 80% af endurbótunum í allt að 85%. Það teldi ég hyggilegt og miðað við allar aðstæður má ætla að stundum sé þetta nauðsynlegt til þess að jafna metin við framboð á fjármagni þegar viðgerðirnar fara fram erlendis.
    Um lánskjör og vexti og lánstíma fer auðvitað eftir almennum reglum Byggðastofnunar sem hún setur með staðfestingu ríkisstjórnarinnar.
    Þetta mál hefur verið rætt á vettvangi ríkisstjórnar eins og kom fram hér hjá hæstv. fjmrh. Hann var eðlilega nokkuð varkár í tali en ég tel það alveg einsýnt að þessi lán verði undanþegin lántökuskatti á grundvelli laganna um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum og vitna enn til 4. tölul. 3. mgr. 19. gr. þeirra laga. Þessi lagaákvæði segja að heimilt sé að undanþiggja lán sem tekin eru vegna sérstakra aðgerða
stjórnvalda í þágu útflutningsgreina og ég tel einmitt að þessi sérstaka lánafyrirgreiðsla við útveginn og skipasmiðjurnar falli undir þetta ákvæði. Þeirri skoðun hef ég lýst og almenn ákvörðun hefur verið tekin á vettvangi ríkisstjórnarinnar um þetta mál sem er falið Byggðastofnun til framkvæmdar eins og verið hefur undanfarin ár.
    Þriðja málið sem ég vildi víkja nokkuð að er það sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn. og laut að áformum um breytingar á fjármagnshreyfingum milli Íslands og annarra landa, þeim reglum sem um það hafa gilt. Hv. þm. var ekki viðstaddur þegar fram fóru hér umræður um peninga- og vaxtamál, þar sem hv. 14. þm. Reykv. gerði einmitt þetta að sérstöku umtalsefni, en ég vildi leyfa mér, virðulegur forseti, að fara um þetta örfáum orðum.
    Það er auðvitað deginum ljósara, eins og kom fram

í máli hv. 7. þm. Reykn., að tilkoma innri markaðar Evrópubandalagsins, sem verður að veruleika í áföngum fram að árinu 1992, hlýtur að hafa það í för með sér að mikilvægar reglur varðandi fjármagnshreyfingar verða mjög breyttar. Margar þeirra verða niður felldar, skilveggir milli landa innan Evrópubandalagsins falla niður að þessu leyti. Það er því mikilvægt verkefni fyrir öll lönd sem standa utan við þetta bandalag og sérstaklega í norrænu samstarfi að opna fjármagnsmarkaðinn, annars vegar milli þeirra Norðurlandanna sem ekki eiga aðild að Evrópubandalaginu og hins vegar að tengja Norðurlöndin hinum alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Þetta er ekki mikilvægt í sjálfu sér heldur einmitt, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, mikilvægt fyrir norrænt atvinnulíf þannig að það geti búið við sömu samkeppnisskilyrði og atvinnuvegirnir innan Evrópubandalagsins.
    Ég geri ráð fyrir því að ef okkur auðnast að koma á frjálsari hreyfingu fjármagns milli Norðurlanda muni það líka örva annað samstarf á milli þeirra, sérstaklega á sviði atvinnumála. Það er rétt að við meðferð þessarar áætlunar á vettvangi norrænu fjármálaráðherranefndarinnar í haust gerði hæstv. fjmrh. nokkurn fyrirvara vegna efnahagslegrar sérstöðu Íslands sem gerði það að verkum að nauðsynlegt væri að taka þessi mál til sérstakrar athugunar frá íslenskum sjónarhóli, ákveðnari var þessi fyrirvari nú ekki. Þetta hefur síðan mótast eins og eðlilegt er í svo stóru máli og eins og kom fram í máli hæstv. fjmrh. hefur ríkisstjórnin ákveðið og samþykkt að vinna að því að móta reglur á grundvelli þessarar samþykktar ráðherranna. Það er mikilvægt að áður en sameiginlegur fjármagnsmarkaður Norðurlanda næst þarf að byrja á því að einfalda og fella niður ýmsar reglur sem nú gilda um fjármagnshreyfingar milli landa.
    Til þess að gera það skiljanlegra hvað við er átt langar mig, virðulegur forseti, til að telja upp nokkur þau atriði sem ráðherrarnir á Norðurlöndum hafa komið sér saman um að stefna að því að ljúka á þessu og næsta ári. Það er í fyrsta lagi að setja miklu rýmri reglur um viðskipti með hlutabréf milli landa, þ.e. innlendum aðilum verði heimilt að kaupa erlend hlutabréf sem örugg geta talist og skráð eru í kauphöllum.
    Í öðru lagi að leyfa erlendum aðilum að kaupa hlutabréf í íslenskum fyrirtækjum eftir ákveðnum reglum, svo ég tali nú út frá sjónarmiði Íslands, að leyfa viðskipti með verðbréf yfir landamæri, fyrst og fremst markaðsverðbréf, örugg verðbréf eftir ákveðnum reglum. Nágrannalönd okkar hafa sett rýmri reglur um þetta efni en áður hafa gilt, þó alls ekki þannig að fullt frelsi ríki.
    Ég hef látið undirbúa drög að reglum sem leyfa viðskipti af því tagi sem ég hef hér lýst í tveimur liðum. Þær reglur tel ég óráð að staðfesta fyrr en settar hafa verið almennar lagareglur um starfsemi verðbréfamiðlara og verðbréfaviðskipti yfirleitt, en eins og kunnugt er er slíkt frv. til meðferðar hjá hv. Nd.

    Í þriðja lagi lúta tillögur Norðurlandaráðherranna að heimildum fyrir innlenda aðila til að eignast fasteignir erlendis.
    Í fjórða lagi eru tillögurnar um heimildir til þess að taka fjárfestingarlán án ábyrgðar opinberra aðila erlendis. Slíkar reglur eru nú þegar orðnar mun rýmri hér á landi en áður var.
    Í fimmta lagi eru margvíslegar reglur um heimildir til þess að taka vörukaupalán við innflutning eða útflutning með greiðslufresti innan eins árs. Ég vil taka það fram að fyrsta skrefið í þessa átt hefur þegar verið stigið með því að heimila alveg almennt, án ríkisábyrgðar, að taka vörukaupalán til allt að þremur mánuðum og var það sett í reglur í byrjun þessa árs.
    Í sjötta lagi vil ég nefna útlán gjaldeyrisbanka í erlendum gjaldeyri til erlendra aðila, þ.e. að þeir geti starfað að nokkru leyti utan landamæra Íslands því auðvitað hljótum við að líta á þetta þannig að um leið og okkar fjármagnsmarkaður tengist nánar erlendum fjármagnsmarkaði felist líka í því að innlendar lánastofnanir geti að einhverju leyti starfað erlendis.
    Í sjöunda lagi er fjallað um heimildir fyrir atvinnufyrirtæki að eiga erlenda reikninga í takmarkaðan tíma vegna inneigna erlendis.
    Eins og hv. þingdeild heyrir af þessari upptalningu um þær reglur sem
ráðherranefnd Norðurlanda, fjármálaráðherrarnir, hefur sett sér að hafa lokið við að rýmka fyrir árslok 1990, þá er mjög margt af þessu þegar í deiglu hér á landi en þarfnast frekari athugunar og umræðu, ekki síst út frá því að okkar tengsl við erlenda fjármagnsmarkaði helgast fyrst og fremst af því að skapa íslenskum atvinnuvegum jöfn starfsskilyrði við erlenda atvinnustarfsemi en alltaf með það í huga að varðveita yfirráðarétt okkar og sjálfsákvörðunarrétt um íslenskar auðlindir, fyrst og fremst þær sameiginlegu auðlindir sem allt hvílir á í þessu landi.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið mínu máli og þakka fyrir hljóðið.