Frestun þingfundar
Föstudaginn 17. febrúar 1989

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Ég vek alveg sérstaka athygli á því að nú er fundi frestað og ástæðan fyrir þessari frestun er sú að stjórnarliðið er ekki tiltækt til þess að ganga til atkvæða. Ég óskaði eftir því fyrr á þessum fundi að landbrh. yrði viðstaddur umræðuna og ég hafði sérstaklega leitað eftir því fyrir einum degi að svo yrði. Þetta var tekið heldur óstinnt upp og sérstaklega var það forustumaður stjórnarliðsins í þessari deild, hv. 3. þm. Vesturl., sem hafði mörg orð um þetta, bæði í hliðarherbergjum og eins úr þessum stóli.
    Ég hlýt að mótmæla þessari frestun, herra forseti, og ekki síst með tilliti til þeirra aðdróttana sem hafa komið fram fyrr á þessum fundi í garð stjórnarandstöðunnar um vinnubrögð í þessari þingdeild á þessum degi.