Aðgerðir í efnahagsmálum
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að spyrja hæstv. forsrh. einnar spurningar er varðar atkvæðagreiðslu um frv. sem nú er til lokameðferðar á hinu háa Alþingi. Það snertir gildistökuákvæðið, en í 12. gr. frv. segir að lög þessi öðlist þegar gildi og gildi til 10. apríl 1989. Það vekur hins vegar athygli eftir að frv. hefur verið breytt að nánast í öllum atriðum hafa dagsetningar breyst og má segja að nánast allar greinar ljúki sínu ætlunarverki í síðasta lagi 1. mars nema ef vera skyldi 5. gr. frv. 8. og 9. gr. eru teknar upp í öðrum lögum sem nú eru til umfjöllunar og klárast fyrir 1. mars á ég von á en það er ekki víst að það sé svo. En ef þetta er rétt sýnist mér að það eina sem eftir standi frá 1. mars til 10. apríl sé að atvinnurekendum sé óheimilt að hækka laun, þóknanir og hvers konar hlunnindagreiðslur umfram það sem samið hefur verið um í kjarasamningum eða kveðið er á um í lögum þessum. Mig langar áður en atkvæðagreiðslan fer endanlega fram að spyrja hæstv. forsrh. hvort þetta sé rétt skilið og það virðist þá vera ástæðan fyrir því að ekki er hreyft við gildistökuákvæðinu.