Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að þakka fyrir að fá að opna umræðu utan dagskrár. Ég hafði óskað eftir því á miðvikudaginn var að fá tækifæri til þess vegna blaðamannafundar sem hæstv. utanrrh. þá boðaði til og birti bréf sem hann hafði þá fengið varðandi það mál sem nefnt hefur verið ,,varaflugvallarmálið``. Forseti tjáði mér þá að ástæður væru fyrir því að óskað væri eftir því að samkomulag næðist um frestun til mánudags og hafði ég ekki neinar athugasemdir við það og þess vegna er þessi umræða í dag.
    Eins og öllum er kunnugt hefur flugumferð um hið íslenska flugumsjónarsvæði stóraukist á undanförnum árum. Með tilliti til öryggissjónarmiða er þörf fyrir varaflugvöll því brýnni og þá flugvöll sem þjónað gæti þeirri flugumferð sem Keflavíkurflugvöllur gerir þegar flugvöllurinn lokast vegna veðurs eða veðurskilyrða.
    Af þessum sökum var 1980 skipuð nefnd undir forustu Jóhannesar Snorrasonar yfirflugstjóra, það var flugráð sem skipaði þessa nefnd, sem ætlað var að gera tillögur um staðsetningu slíks varamillilandaflugvallar. Á árunum 1984--1985 starfaði nefnd um flugmál sem sérstaklega undirbjó flugmálaáætlun og tillögur um fjármögnun í þeim efnum, nefnd sem þáv. samgrh. Matthías Bjarnason skipaði og var undir forustu Birgis Ísl. Gunnarssonar alþm.
    Það var svo síðla árs 1985 að flotastjórn Atlantshafsbandalagsins, SACLANT, ásamt fulltrúum varnarliðsins hér á landi lýsti áhuga á því að kannaðir yrðu möguleikar á lagningu alþjóðlegs varaflugvallar sem gæti þjónað sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll jafnframt því sem möguleikar á aðild mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins yrðu kannaðir. Að tillögu þáv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar og að höfðu samráði við þáv. samgrh. Matthías Bjarnason samþykkti ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar í janúar 1986 að taka upp viðræður varnarmálaskrifstofu utanrrn. og samgrn. undir forræði samgrn. við flotastjórn Atlantshafsbandalagsins og fulltrúa varnarliðsins.
    Viðræðurnar fóru síðan fram og þeim lauk í janúar 1987 með þeirri niðurstöðu að samstaða var um að varaflugvöllur sem byggður yrði yrði að nýtast fyrir allt flug sem um Keflavíkurflugvöll annars gæti farið. Í öðru lagi að notkun varnarliðs yrði aðeins undir þeim kringumstæðum að Keflavíkurflugvöllur væri lokaður. Í þriðja lagi að varaflugvöllurinn yrði ávallt undir umsjón Íslendinga og kæmi til hættuástands eða átaka yrði varaflugvöllurinn afhentur varnarliðinu og Atlantshafsbandalaginu með sama hætti og hin nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli.
    Eftir nokkrar umræður ákvað samgrh. Matthías Bjarnason að athugun yrði gerð af Flugmálastjórn og sú athugun greidd af Íslendingum. Flugmálastjórn fól sérstakri nefnd undir formennsku Jóhanns H. Jónssonar að gera skýrslu sem hún gerði og var hún lögð fram og rædd í flugráði. Þessi skýrsla var síðan afhent samgrn. 19. júlí sl. og lögð fram í ríkisstjórn

og afhent alþingismönnum og kynnt í fjölmiðlum. Stjórnarskipti fóru fram eins og kunnugt er í september. Skömmu eftir að ríkisstjórnin tók við völdum lagði núv. samgrh. þá nefnd niður sem hafði óskað eftir í þessari greinargerð, nánar tiltekið 12. okt. á sl. ári.
    Núv. hæstv. utanrrh. fór til Brussel á fund utanrríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins síðla sl. ár og átti þar viðræður við nýjan framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, Manfred Wörner, og fóru þær umræður fram 7. og 8. des. Merkilegt er að þann sama dag, 7. des., skipaði núv. samgrh. nýja nefnd. Fól hann Flugmálastjórn það verkefni að gera tillögu um millilandaflugvöll sem þjónaði innanlandsflugi og íslensku farþegaflugi.
    Eins og ég gat um áðan var þetta sama daginn og hæstv. utanrrh. átti viðræður við Manfred Wörner, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, um möguleika á byggingu alþjóðlegs varaflugvallar eins og fram kom á blaðamannafundi utanrrh. sl. miðvikudag og vísað er til í því bréfi sem utanrrh. birti, svarbréfi frá framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Þar er að finna svör framkvæmdastjórans við upplýsingum sem óskað hafði verið eftir af hæstv. utanrrh. varðandi hernaðarlegt hlutverk slíks flugvallar á friðartímum. Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, lesa upp hluta úr þessu bréfi, en þar segir:
    ,,Að höfðu samráði við hlutaðeigandi stjórnunaraðila innan Atlantshafsbandalagsins get ég staðfest að flugvöllur sá sem tillaga liggur fyrir um mun á engan hátt gegna hernaðarhlutverki á friðartímum. Flugvöllurinn yrði mannaður og starfræktur af óbreyttum borgurum og ekki talinn herflugvöllur nema á stríðstímum. Þannig yrði í öllu tilliti litið á þennan flugvöll sem borgaralegan flugvöll. Að sjálfsögðu yrði að gera ráð fyrir að herflugvélum jafnt sem borgaralegum flugvélum yrði beint til þessa varaflugvallar þegar veður eða neyðarástand gerði slíkt óhjákvæmilegt.``
    Að þessum formála höfðum og með vísan til þessa bréfs sem ég las hér úr og vísar til viðræðna hæstv. utanrrh. og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins leyfi ég mér að spyrja hæstv. utanrrh. fjögurra spurninga varðandi þetta mál:
    1. Er á því nokkur vafi að mati utanrrh. að utanrrn. fari með ákvörðunarvald varðandi heimild til handa mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins til þess að
gera umbeðna forkönnun á alþjóðlegum millilandaflugvelli?
    2. Telur hæstv. utanrrh. slíka forkönnun, ef leyfð verður, meiri háttar hernaðarframkvæmd samkvæmt því sem fram kemur í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar?
    3. Hyggst hæstv. utanrrh. veita umbeðna heimild til forkönnunar og sé svo, þá hvenær?
    4. Telur hæstv. utanrrh. að sú flugvallarbygging sem fjallað hefur verið um og kostuð yrði af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins, sbr. bréf framkvæmdastjóra þess, sé ,,meiri háttar

hernaðarframkvæmd`` samkvæmt áður tilvitnuðum orðum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar?