Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Það skal upplýst að það er við stjórnarandstöðuna eina að sakast að þessi umræða fer nú fram. Þetta mál hefur verið á dagskrá á hverjum einasta fundi síðan hæstv. forsrh. flutti tilkynningu frá ríkisstjórninni. Stjórnarandstaðan, einkum Sjálfstfl., hefur gert allt sem í hennar valdi hefur staðið til að koma í veg fyrir að umræðunni yrði lokið. Samstarf hefur ekkert verið milli þingforseta og hv. þm. Sjálfstfl. Þess samstarfs var leitað með fundi með þingflokksformönnum. Því samstarfi var hafnað og hv. þm. Sjálfstfl. hafa satt að segja gert forseta allt til erfiðis við að láta þinghaldið ganga fram með eðlilegum hætti.
    Þessari umræðu verður haldið áfram. Hæstv. fjmrh. verður ekki sóttur. (Gripið fram í.) Má ég ljúka máli mínu. --- Skýringin á því er sú að þetta mál getur ekki verið á dagskrá á fimmtudaginn. Næsta vika er ekki starfsvika á hinu háa Alþingi þannig að þetta mál yrði þá enn á dagskrá í næsta mánuði. Slíkt tel ég ekki koma til greina og því verður þessari umræðu að ljúka nú og það er mitt síðasta orð um þetta mál.