Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það var nú svo að ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu sem hér fer fram í dag, en þegar hv. 2. þm. Norðurl. e. fór að býsnast yfir ástandinu og þeim vandræðum sem íslenskur sjávarútvegur stæði frammi fyrir núna, eins og þetta væri fyrst og fremst þeim að kenna sem sitja hérna vinstra megin við mig, það væru engir aðrir sem ættu sök á því, þá fannst mér alveg nóg komið. Mér fannst dálítið merkilegt að heyra ræðu hv. þm. hér, eingöngu kvörtun um það hvernig þau bjargráð sem núv. ríkisstjórn er að reyna að beita, er að reyna að gera til þess að bæta stöðu sjávarútvegsins, hvernig þau væru útfærð. Hlutirnir eru nefnilega þeir að ástandið í sjávarútveginum er ekki sök þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það er fyrst og fremst sök þeirrar ríkisstjórnar sem var hér á undan og sat þar til í september í haust. Það sem verið er að reyna að gera núna eru fyrst og fremst leiðréttingar á þeirri stöðu sem þá var komin upp. ( Gripið fram í: Hefur hún batnað?) Hún hefur ekki batnað. Það er alveg rétt. Það er hægt að deila um það en það er ekki hægt að deila um hitt hvernig staðan var þegar núv. ríkisstjórn tók við völdum. Og það sem verið er að gera núna með þeim efnahagsaðgerðum og þeim bráðabirgðalögum sem hér er verið að staðfesta er fyrst og fremst það að verið er að reyna að bæta um þá stöðu sem við var tekið.
    Það er vitaskuld hægt að ræða um þann tíma sem síðan er liðinn. Ekki ætla ég að segja það, og get engan veginn haldið því fram, að hlutirnir hafi lagast mikið á þeim tíma. Því miður. Það virðist vera flest á þann veg haldið sem áður var og lítil breyting þó að átt hafi sér stað breyting á flokkum í ríkisstjórninni.
    Þær upplýsingar komu frá hæstv. forsrh. í upphafi umræðunnar að af 90 fyrirtækjum sem hefðu sótt um lán til Atvinnutryggingarsjóðs hefðu aðeins 55 fengið afgreiðslu í þeirri stofnun, 35 fyrirtæki af 90 eru þannig á sig komin að það er ekki talið mögulegt að skuldbreyta þeirra lánum. Það sem verið er að gera með hlutafjársjóði, sem hér er lagt til að stofnaður verði, er að það er verið að reyna að bjarga þessum fyrirtækjum. Og hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur lítið annað til málanna að leggja en að býsnast yfir því hvaða aðferðir eru notaðar til þess að reyna að bjarga þeim og, sem mér fannst nú dálítið merkilegt, að sú aðferðin sem ég hélt að hv. þm. mundi ekki sérstaklega óska eftir, þ.e. auknar og auknar ríkisábyrgðir, hann gerði sérstakar kröfur til þess að staðið yrði við það að þær 800 millj. kr. sem lagðar voru til Verðjöfnunarsjóðs --- að það yrði að vera öruggt að ríkið stæði að því að borga það lán sem þangað var veitt.
    Ég hélt að hlutirnir væru nú þannig hjá tveim flokkum í landinu, Sjálfstfl. og Alþb., að menn vildu forðast sem mest ríkisábyrgðir, og ekki að láta hlutina ganga á ríkinu. Ég man m.a. eftir því að stuttu eftir að hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson hafði sest í fjármálaráðherrastólinn þá lýsti hann því yfir með

mikilli pommp og prakt að nú væri tími ríkisábyrgða búinn. Og ég hef heyrt sjálfstæðismenn lýsa því yfir sýknt og heilagt að þetta væri eitt af því sem við ættum að forðast og með ýmsum ráðum að komast hjá því. En því miður eru öll bjargráðin sem núv. ríkisstjórn hefur lagt til einmitt á þessa bókina lærð, ríkisábyrgð ofan á ríkisábyrgð. Ég hélt að það hefði verið verðugra verkefni hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að benda á þessa staðreynd, heldur en það að vera að kvarta undan ýmsum smáhlutum í sambandi við framkvæmd þessara laga sem mér fannst nú í flestum tilfellum að væru algjör aukaatriði. Miðað við þennan stóra þátt, það sem verið hefði gert og verið er að gera hér eftir að Sjálfstfl. hrökklaðist út úr ríkisstjórninni og skildi við sjávarútveginn í því ástandi sem hann er, þá eru bjargarleiðir núv. ríkisstjórnar fyrst og fremst á þeim grunni að koma með ríkisábyrgð til þess að sjávarútvegurinn geti haldið áfram hallarekstri. Sem sagt: Sjávarútvegurinn á Íslandi í dag er við svipaða stöðu og þegar Sjálfstfl. fór út úr ríkisstjórninni. Hallareksturinn áfram. Núna er búið að ganga á eiginfjárstöðu sjávarútvegsins á þann veg sem lýst hefur verið hér bæði af hv. 2. þm. Norðurl. e. og forsrh., af forsrh. reyndar í öðrum umræðum hér fyrr í vetur, að 13 milljarðar úr eiginfjárstöðu sjávarútvegsins, eða helmningur eiginfjárstöðu sjávarútvegsins, hefur brunnið upp á síðustu missirum undir stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Það er ekki búið að gera neitt, því miður, til þess að breyta þessari rekstrarstöðu sem heldur áfram. Eiginfjárstaða sjávarútvegsins heldur áfram að brenna upp. Og þeir koma hér upp, forsrh. og hv. 2. þm. Norðurl. e. og tala hér um aukaatriði, um stjórnarmenn í þessum sjóðum og annað eftir því.
    Eins og ég hef sagt hér áður tel ég að því miður sé verið að halda áfram sömu hlutunum. Það er kannski gert á svolítið ábyrgari hátt en áður. Á meðan Sjálfstfl. var í ríkisstjórn var gengið beint á eiginfjárstöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna. En núna er þessu breytt yfir á þann veg að nú skal öll þjóðin standa á bak við það. Það er svolítið heiðarlegra og kannski neyðarráðstöfun. Það verður að viðurkenna að það sé neyðarráðstöfun á meðan annað er ekki gert raunhæfara í málunum.
    Mitt erindi hér upp í þennan ræðustól var fyrst og fremst að benda á þessa
ríkisþróun í sambandi við sjávarútveginn. Og á hinn veginn það ... ( Gripið fram í: Ríkisábyrgð.) já, það er vitaskuld verið að ríkistryggja hallarekstur sjávarútvegsins. Það er verið að ríkistryggja hann. Það mætti segja ýmislegt fleira um það af hverju þetta er að gerast. Það mætti náttúrlega nefna það að það er búið að ganga þannig á fiskistofnana, t.d. þorskstofninn, að við getum ekki sótt núna nema --- ja, við gerum ráð fyrir kannski 300 þús. tonn á þessu ári og næsta í staðinn fyrir það að ef þar hefði verið stjórnað á eðlilegan og réttan máta, þá hefðum við átt að eiga þar 400 þús. tonna veiðistofn. Ég ætla ekki að fara að rifja ýmislegt svoleiðis upp, sem er margt úr samstjórn Sjálfstfl. og framsóknar. En Sjálfstfl. þurfti

endilega að koma hér með smábrtt. og ég ætla aðeins að nefna þær. Og Kvennalistinn taldi það sjálfsagt að standa að því að styðja Sjálfstfl., eða gagnkvæmt, við flutning á brtt. við þær tillögur sem hér eru. Flm. á brtt. á þskj. 530 eru Halldór Blöndal, Eyjólfur Konráð Jónsson og Birna K. Lárusdóttir:
`` 1. Lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skal undanþegið stimpilgjaldi og endurgreiðist úr ríkissjóði.
    2. Byggðastofnun, Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og hlutafjársjóður Byggðastofnunar skulu undanþegnir opinberum gjöldum, sköttum o.s. frv.``
    Sjálfsagt er hægt að segja það í þessum tilfellum báðum að verið sé að gera visst réttlætismál gagnvart sjávarútvegi. Og eins og síðasti ræðumaður sagði: Með því móti að láta Byggðasjóð bera lántökugjöld og aðra skatta þá er verið að færa á milli vasa. En hvað er verið að gera gagnvart almenningi í sambandi við húsnæðislán og annað eftir því? Þá er ekki verið að undanþiggja skatta. Ég sé það ekki að þegar verið er að sækja lengra og lengra inn á þessi fríðindi fyrir þennan og þennan að það verði þá ekki að fella þessa skatta algjörlega niður. Sumir eru að biðja um sérstaklega fyrir Byggðasjóð og fyrir þetta, því ekki að leggja þessa lántökuskatta alla niður? ( EKJ: Það er sjálfsagt að gera það.) Það er sjálfsagt að gera það. En að vera að undanþiggja þetta og undanþiggja hitt, það held ég að sé ekki mikil og raunhæf pólitík. Og það að fara að togast á um hvernig þessum sjóðum skuli stjórnað það finnst mér, eins og ég sagði hér áður, þó nokkuð mikið aukaatriði. ( HBl: Talaði þingmaðurinn ekki um það í haust? Mig minnir það.) Ég nefndi það í haust að það væri svolítið sérstakt stjórnarmynstur sem væri á Atvinnutryggingarsjóði. Ég gerði það. En vitaskuld eftir fjögurra mánaða setu ríkisstjórnarinnar og það að ekkert raunhæft hefur verið gert í sambandi við rekstur sjávarútvegsins þá eru þetta algjör aukaatriði. Algjör aukaatriði.
    Það er nú svo að hlutirnir eru á þann veg, eins og ég sagði hér áðan, að við stöndum frammi fyrir því að sjá til þess að sjávarútvegurinn stöðvist ekki og þær tillögur sem hér liggja frammi eru til þess að láta hlutina ganga. Það hafa ekki komið neinar sérstakar tillögur frá stjórnarandstöðunni aðrar en þær sem liggja hér, a.m.k. ekki í þessa deild, til þess að breyta þar neinu um. Og vitaskuld er málflutningur Sjálfstfl. hér ekkert annað en til þess að reyna að láta fólk gleyma því hversu illa var stjórnað á undanfarandi missirum og hvernig fyrrv. ríkisstjórn skilaði hlutunum frá sér. Þetta öfluga lið sem stóð bak við síðustu ríkisstjórn hafði ekki tök á því að sjá til þess að sjávarútvegurinn hefði almennilegan rekstrargrundvöll.