Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Í morgun var haldinn fundur í hv. fjh.- og viðskn. svo sem raunar hefur verið getið um hér áður en þó ekki greint mjög náið frá því sem þar fór fram og þá var hæstv. sjútvrh. raunar ekki kominn hér í deildina. Því held ég að það sé ekkert úr vegi að rifja aðeins upp hvað á þessum fundi gerðist þó að hæstv. ráðherra sé vafalaust um það kunnugt meira og minna hvernig staða sjávarútvegsins er, hvernig þeir sem þar eru að berjast líta á málin og hvaða álit þeir hafa á þeirri stefnu sem fylgt er. Er þá skemmst frá því að segja að þar var lagt fram bréf sem er ályktun stjórnar Samtaka fiskvinnslustöðva frá því í gær, 20. febr. 1989. Um þetta bréf er raunar getið í a.m.k. einu dagblaðanna í morgun. En þeir sem þarna mættu, Ágúst Einarsson, Árni Benediktsson og raunar fleiri, fóru mjög hörðum orðum um ástandið eins og það er núna. Einna daprast fannst mér að hlusta á eftirfarandi ummæli Árna Benediktssonar sem ég hygg að ég hafi skrifað orðrétt niður. Hann segir: ,,Ég dreg í efa að nokkurt eigið fé sé eftir í sjávarútvegi í heild sinni.``
    Sem sagt, sjávarútvegur, meginatvinnuvegur Íslendinga er gjaldþrota. Það er ekki þjóðargjaldþrot en það er gjaldþrot meginatvinnuvegarins að dómi þessa manns og undir þetta tóku aðrir fundarmenn. Raunar voru sýndar einhverjar kúrvur sem byggðar voru á upplýsingum Seðlabanka sem sýna hvernig raungengi annars vegar og verðlag frystra afurða hefur breyst. Það sýnir að vísu verulega hagstæðar aðstæður á árinu 1986 en síðan á árinu 1987 hvolfist þetta gjörsamlega yfir og verður verulega mikill halli á atvinnugreininni og það sem ávannst árið 1986 er horfið og vel það.
    Ég veit ekki hvort ég á að hlaupa aðeins á þessari ályktun stjórnar Samtaka fiskvinnslustöðva. Ég hygg að það sé kannski rétt þó að það hafi verið gert af öðrum ræðumanni áður. Þetta er örstutt. Með leyfi forseta hljóðar þetta á þennan veg:
    ,,Meðal ráðstafana núv. ríkisstjórnar við upphaf starfstíma síns var ákvörðun um að verðbætur skyldu greiddar á frystar sjávarafurðir til skamms tíma en Verðjöfnunarsjóði heimiluð lántaka að upphæð 800 millj. kr. með ríkisábyrgð til að standa undir þessum greiðslum. Þessi bráðabirgðaleið var farin í stað þess að taka á vandanum með almennum efnahagsaðgerðum sem tryggt hefðu rekstrarafkomu fiskvinnslunnar. Engar líkur eru á að Verðjöfnunarsjóður eða fiskvinnslan muni geta greitt þetta lán af tekjum sínum og í umfjöllun ráðamanna, m.a. sjútvrh., hefur ætíð verið gert ráð fyrir að það félli á ríkissjóð.
    Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva mótmælir því að stjórnvöld skuli ekki breyta texta bráðabirgðalaganna nú þegar verið er að afgreiða þau á Alþingi. Gera þarf ráð fyrir endurgreiðslu ríkissjóðs á láninu og að þar verði tekin af öll tvímæli. Þá mótmælir stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva harðlega stofnun hlutabréfasjóðs Byggðastofnunar. Þessi sjóðsstofnun getur leitt til mismununar fyrirtækja og byggðarlaga og virðist einungis eiga að tryggja kröfu

skuldareigenda í fyrirtækjum sem eru komin í þrot.
    Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva ítrekar að almennar aðgerðir sem breyta langvarandi rekstri fiskvinnslustöðva í hagnað er eina leiðin út úr vandanum.``
    Aðspurðir svöruðu viðmælendur okkar því að þessi ályktun væri samþykkt samhljóða og virtust vera á einu máli í þessu efni.
    Ég skal ekki rekja öll rök þeirra fyrir því að þeir mótmæli eindregið stofnun hlutabréfasjóðs Byggðastofnunar með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir en þeir töldu að menn gengju á bak orða sinna ef ekki yrði breyttur lagatexti þannig að ótvírætt væri að þessar 800 millj. kr. í Verðtryggingarsjóð yrðu greiddar af ríkisvaldinu. Við buðum þá upp á það í stjórnarandstöðu að við mundum reyna að greiða sem mest við mættum fyrir framgangi þessa frv., hvort sem við værum nú samþykk því eða ekki, ef formaður nefndarinnar vildi hlutast til um það að reynt yrði að ná um það samstöðu að með einhverjum hætti yrði fellt inn í frv., ef það yrði lögfest með þessu frv., að þessar 800 millj. kr. kæmu örugglega frá ríkissjóði. Því hefði verið lofað og ég hygg að það sé rétt fullyrðing hjá þeim. Ég held ég muni það rétt að hafa heyrt hæstv. sjútvrh. segja það að auðvitað yrðu þessir peningar greiddir úr ríkissjóði. Hann leiðréttir mig þá ef ég hef eitthvað misskilið hann annaðhvort í ræðu hans eða í sjónvarps- eða útvarpsviðtali.
    En þeir sem best þekkja til í sjávarútvegi fullyrða að þessu hafi verið lofað og þeir hafi margítrekað farið fram á að það yrði þá lögfest þannig að menn vissu hvar þeir stæðu. Af því að hv. formaður fjh.- og viðskn. gekk nú einmitt í salinn endurtek ég að það var stungið upp á því af okkur í stjórnarandstöðunni, eða mér, að reynt yrði að ná um það samkomulagi að í gegnum báðar deildir gæti í dag gengið þetta frv. með örlitlum breytingum, þ.e. að lögfest yrði að greiddar yrðu 800 millj. kr. í Verðjöfnunarsjóð úr ríkissjóði. Hv. formaður nefndarinnar tjáði mér í upphafi fundar að hann hefði orðað þetta en ekki væri um þetta samstaða, en ef hún hefði orðið hefði ekki verið þörf á miklum ræðuhöldum hér. Vonandi verður það ekki heldur. Ekki ætla ég að halda uppi neinu málþófi.
    Vonandi getum við komið málum áfram. En það hefði verið mjög hyggilegt, og ég beini því nú til hæstvirtra ráðherra af því að það er enn hægt, að gera þetta, ná um það allsherjar samstöðu í þinginu að fella þessa fyrstu brtt. sem við flytjum hér úr stjórnarandstöðunni inn í þetta frv., rúlla því hér í gegn og jafnvel þá í gegnum Nd. líka strax á eftir. Það mundi áreiðanlega mjög milda hug þeirra sem nú berjast í bökkum og vita ekki hvernig þeir eiga að gera út skip sín eða reka frystihúsin frá degi til dags. Það eru menn sem ekki eru öfundsverðir margir hverjir sem eytt hafa allri lífsorku sinni í þennan meginatvinnuveg þjóðarinnar og horfa nú á það allt hrynja í rúst. Þeim finnst við hér á hinu háa Alþingi ekki taka allt of alvarlega aðvörunarorð þeirra. Ég skal ekkert vera að rífast um það við hv. þm. Skúla

Alexandersson eða neinn annan hvers sökin sé. Þetta hefur grafið um sig á löngum tíma og vafalaust er það rétt að í þessa svokölluðu fastgengisstefnu hafi verið haldið of lengi. Ég get raunar persónulega trútt um talað því að það hefur margupplýst verið, var strax í maímánuði í fyrra --- þá flutti ég í þingflokknum tillögu um að fella gengið um 12--15% og lækka jafnframt söluskatt um 5% ef það hefði nægt til þess að engar almennar verðhækkanir hefðu orðið í þjóðfélaginu þrátt fyrir þessa lækkun. Ég flutti þessa tillögu raunar fyrst í febrúar, síðan aftur í maí og loks í september, alltaf sömu tillöguna. Það fór ekki gegnum fyrrv. ríkisstjórn. Það væri öðruvísi ástatt hér á þessu landi nú ef það hefði verið hægt að koma í veg fyrir almennar verðhækkanir með því að lækka söluskattinn um 5%. Allir þeir sem ég hef borið það mál undir eru sammála um að 5% lækkun söluskatts mundi hafa vegið algjörlega upp 13% gengisfellingu því að auðvitað er söluskatturinn á svo miklu víðtækara sviði en innflutta varan. Það er öll þjónusta og öll innlend framleiðsla sem verður að greiða söluskattinn af en hækkunina á erlendum peningum einungis af gjaldeyrisnotkuninni.
    Þetta var sem sagt ekki gert og það er ekkert um það að fást úr þessu, en hitt er ljóst, og nú ætla ég að biðja hæstvirta ráðherra að hlusta, að nú segja þessir menn sem voru hjá okkur í morgun að þrátt fyrir þær gengisfellingar sem nú hafa orðið sé alveg ljóst að það sé ekki unnt annað en fella gengið um 10--12%, einn sagði 13%, alltaf þessar sömu tölur, að enn þurfi þessa við, öðruvísi verði sjávarútveginum ekki borgið. Og það er auðvitað alveg rétt þegar eiginfjárstaða fyrirtækjanna er skoðuð, ég tala nú ekki um ef hún er jafnbágborin og Árni Benediktsson sagði, að hún væri horfin, að verið er að þjóðnýta meginatvinnuveg Íslands, gera hann gjaldþrota, og síðan eiga einhverjir og einhverjir að taka við þrotabúinu.
    Þetta er auðvitað of alvarlegt til þess að ég geti gantast með það. Mér finnst ástandið vera svo raunverulegt að við þetta sé ekki hægt að búa, það geti engin ríkisstjórn búið við þetta, það geti engin stjórnarandstaða búið við þetta, það geti engir í atvinnuvegunum búið við þetta, fólkið í landinu, launþegarnir, geti ekki búið við þetta. Þá fer auðvitað að nálgast þjóðargjaldþrot ef meginatvinnuvegurinn hrynur og síðan hinir atvinnuvegirnir á eftir, ef kaupmáttur fer niður úr öllu valdi og skattar jafnvel hækkaðir og atvinnuleysi sívaxandi. Þetta er sú mynd sem við okkur öllum blasir og við hljótum auðvitað að ræða þetta alvarlega. Ég veit það fyrir fram úr því að ekki náðist málamiðlun um þessa litlu breytingu sem við fórum fram á. Kannski næst hún enn þá ef hæstv. ráðherrar vilja koma þessari samstöðu á á næstu mínútum eða næsta klukkutímanum, en þá veit ég auðvitað að þetta fer hér í gegnum þingið. Ég held að ekki sé hægt að segja að þetta eitt sér geti úr því sem komið er skaðað mikið, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson raunar vék að. Skaðinn er skeður og hann hefur skeð auðvitað ekki bara á þeim fjórum mánuðum sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur verið við

völd. Hann var að búa um sig og það var ekki nægilega góð samstaða um raunhæfar aðgerðir í fyrrv. ríkisstjórn. Það er alveg ljóst. Þetta er ekki til nokkurra minnstu bóta. Þetta dugir kannski í nokkrar vikur eða mánuði. En það er líka rétt sem Árni Benediktsson vék að í morgun. Hann sagði að þegar eiginfjárstaða væri orðin með þeim hætti sem hann raunar sagði að væri núll eða verri, þá yrði slíkur þrýstingur að fá lánsfé til þess að halda fyrirtækjum gangandi að vextir færu upp úr öllu valdi. Það væri barist um hverja krónu hvað sem hún kostaði. Það væri kannski meginskýringin á því hve raunvextir eru háir hér á landi, það væri slegist um krónurnar. Fyrst eru þær skammtaðar, þær eru frystar eins og menn vita, 23% af öllu sparifé eru fryst inni í Seðlabanka og það eitt náttúrlega hækkar vexti um nokkur prósent. Síðan þegar þrýstingurinn kemur svona gífurlegur frá atvinnuvegum sem eru að reyna að halda sér fljótandi, bæði af hugsjónum og eins auðvitað af einhverri eigingirni, þeir vilja ekki láta lífsstarf sitt hrynja í rúst, þeir vilja reyna að bjargast í von um batnandi tíma, hærra verðlag, kannski gengisfellingu o.s.frv., þá auðvitað berjast menn. Þeir borga okurvexti fyrir þessa litlu peninga sem skammtaðir eru í þessu þjóðfélagi.
    Það kom hér fram hjá hv. þm. Júlíusi Sólnes, sem við auðvitað höfum rætt í þessari Evrópustefnunefnd t.d., að líklegasta leiðin kynni að vera --- það eru kannski ekki allir í nefndinni sammála um það en við höfum rætt þann möguleika að opna algjörlega fyrir gjaldeyrisviðskiptin eins og önnur ríki eru öll að
gera núna meira og minna. Núna er talað um alheimsopnuð gjaldeyrisviðskipti. Þá getur enginn skammtað peninginn. Það getur enginn haldið uppi þeim okurvöxtum sem eru hér á landi. Þá yrðu vextir eins og í öðrum löndum og menn gætu fengið lán með nákvæmlega sömu kjörum og annars staðar. Auðvitað gætu menn tapað einhverju á því að taka lán í þessari mynt en ekki hinni, en sumir spá því nú að þetta sé kannski að renna saman meira og minna í eina mynt. Evrópumyntin svokallaða er raunar engin mynt. Það eru bara viðmiðunarreglur og síðan er þetta allt saman reiknað út í tölvum, það eru engir peningar gefnir út og þeir eru kannski að hverfa úr umferð. Það eru gífurlegar breytingar að gerast á fjármagnsmarkaði og án þess að ég búist við því kannski að núv. hæstv. ríkisstjórn muni taka þá tillögu upp gef ég henni þau ráð að athuga það hvort ekki væri rétt að gera þetta, að hafa eitt allsherjar glaldeyrisviðskiptakerfi.
    Það kom fram einmitt á þessum fundi í morgun að menn teldu að 70% af lánum sjávarútvegsins væru erlend lán nú þegar, viðbótin að einhverju leyti verðtryggð. Það er ekki bara sjávarútvegurinn sem fær erlend lán, afurðalán. Öll útflutningsframleiðslan býr við erlend lán og þau eru kannski hagstæðari en verðtryggðu lánin. Ég efast um að það séu meira en 30% af íslenskum peningum í umferð yfirleitt, að 70% séu erlend. Það eru ekki bara öll afurðalánin, það er líka svo að fyrirtæki, ekki síst í sjávarútvegi,

hafa um langt skeið aldrei fengið nein önnur lán en erlend. Þó að svo væri látið heita í bönkunum og sjóðunum að þetta væru innlend lán hafa þau öll verið gengistryggð, meira og minna. Og hvað notum við núna þegar við verslum? 60--70% af peningunum í smásöluversluninni eru erlend greiðslukort, og sum þeirra eru komin upp í 6 mánuði, bjóða 6 mánaða greiðslufrest, eðlilega með okurvöxtum. Auðvitað vilja þessir kortaeigendur og fjármögnunarfyrirtæki erlendis græða á vitleysunni hér á Íslandi. Það erum við ein sem töpum, þjóðin, á þessari ofstjórn og ofstýringu á öllum sviðum. Og það sem er auðvitað verst við þetta frv., sem hér verður væntanlega afgreitt endanlega nú á eftir, er að það er aukið á ofstjórnina en ekki úr henni dregið. Þetta kann að slampast næstu vikur og mánuði en þetta bjargar engu. Það eykur skuldabyrðina og gerir erfiðleikana enn þá meiri í sjávarútveginum, því miður.