Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989 sem lagt var fyrir Alþingi í nóvembermánuði hefur nú verið afgreitt frá hv. Ed. Í meðförum Ed. voru gerðar nokkrar breytingar frá upphaflegu frv. Heildarlánsfjárráðstöfun hækkar um 7 milljarða 940 millj. kr., þar af hækka lántökur ríkissjóðs um 5,7 milljarða kr., mestmegnis vegna halla ríkissjóðs sem varð á árinu 1988. Einnig hafa heimildir opinberra fjárfestingarlánasjóða í lánsfjáráætlun að fjárhæð 1 milljarður 750 millj. kr. verið teknar inn í lánsfjárlögin af ástæðum sem ég mun skýra innan stundar. Það sem eftir stendur af hækkuninni eða um 450 millj. kr. er vegna nýrra verkefna eða breytinga á gengi frá því að frv. var fyrst lagt fram.
    Samkvæmt þessu verða heildarlántökur innan lands og erlendis á árinu 1989 áætlaðar 36 milljarðar 570 millj. kr. Þar af eru innlendar lántökur 15 milljarðar 750 millj. kr. og erlendar lántökur 20 milljarðar 820 millj. kr. Af þeirri fjárhæð eru 5 millj. kr. til að gera upp skuld við Seðlabankann vegna yfirdráttar ríkissjóðs á árinu 1988. Bráðabirgðatölur gefa til kynna að heildarlánsfjárráðstöfun á árinu 1988 hafi numið tæpum 30 milljörðum kr. Þar af voru innlendar lántökur 13,4 milljarðar og erlendar lántökur 16,4 milljarðar.
    Erlendar lántökur skiptast þannig að 6 milljarðar 860 millj. kr. renna til opinberra aðila, 4 milljarðar 860 millj. kr. til opinberra lánastofnana og 9 milljarðar 100 millj. kr. til atvinnufyrirtækja og fjármögnunarleiga.
    Rétt þykir, þó að ég reyni að stytta mál mitt sérstaklega samkvæmt óskum forseta, að fara fáeinum orðum um helstu breytingar sem gerðar voru í Ed. Lántökuheimild fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs hækkar, eins og áður segir, um 5,7 milljarða kr. og verður samtals 10,4 milljarðar. Eins og ég hef áður greint frá liggja fyrir bráðabirgðatölur um afkomu ríkissjóðs á árinu 1988. Samkvæmt þeim varð tekjujöfnuður neikvæður um 7,2 milljarða kr. Á fjárlögum fyrir það ár hafði hins vegar verið gert ráð fyrir hallalausum rekstri. Hinn mikli munur sem er á útkomu ársins og upphaflegri fjárlagaáætlun á sér ýmsar orsakir sem ég ætla ekki að fara nánar út í að þessu sinni en tími gefst til að ræða síðar á þessu þingi. Þrátt fyrir 3,3 milljarða kr. lántöku í árslok 1988 stendur eftir skammtímaskuld við Seðlabankann að fjárhæð 5 milljarðar kr. sem þarf að gera upp fyrir lok marsmánaðar 1989. Af þeirri fjárhæð eru 800 millj. kr. vegna skuldar frá árinu 1987. Þessu til viðbótar hækkaði lántökuþörf ríkissjóðs vegna ársins 1989 í meðförum Alþingis á fjárlögum um 735 millj. kr. og verður 5,4 milljarðar. Stafar sú hækkun af minni tekjuafgangi en frv. til fjárlaga gerði ráð fyrir og áhrifum gengisbreytingar á krónu árið 1989. Engu að síður gera fjárlög 1989 ráð fyrir því að snúa 7,2 milljarða kr. tekjuhalla á árinu 1988 yfir í rúmlega 600 millj. kr. tekjuafgang á árinu 1989. Hef ég áður vikið að því að það mun reynast ærið verkefni að tryggja framkvæmd þeirra áforma.

    Þá voru í Ed. tekin inn í lánsfjárlögin heimildarákvæði fyrir 1,7 milljarða kr. lántöku fjárfestingarlánasjóða sem skiptast þannig: Fiskveiðasjóður 1,2 milljarðar, Iðnþróunarsjóður 150 millj. kr., Iðnlánasjóður 350 millj. og Útflutningslánasjóður 50 millj.
    Í lánsfjárlögum 1988 var sú stefna mörkuð að afnema ríkisábyrgð á lántökum opinberra fjárfestingarlánasjóða að undanskildum Framkvæmdasjóði Byggðastofnunar og byggingarsjóðum ríkisins. Af þeirri ástæðu voru engar lántökuheimildir þeim til handa í lánsfjárlögum 1988. Ekki hefur þó orðið úr lagasetningu um afnám ríkisábyrgða að sinni og sjóðirnir hafa áfram ríkisábyrgðir á lántöku. Þó svo að núv. ríkisstjórn hafi ekki fallið frá þeirri stefnu að afnema ríkisábyrgð á lántökum verða þær ekki afnumdar að sinni. Það er einkum tvennt sem gerir nauðsynlegt að taka inn í lánsfjárlög heimildarákvæði fyrir erlendum lántökum opinberra fjárfestingarlánasjóða: Annars vegar að lögfesta ákveðið hámark á erlendri lántöku og hins vegar að lánardrottnar erlendis hafa ekki látið sér nægja ákvæði sérlaga viðkomandi sjóða um ríkisábyrgð. Samfara sterkri eiginfjárstöðu þessara sjóða hefur síðarnefnda atriðið fengið minna vægi. Ákvæði í sérlögum þessara sjóða um að ríkissjóður ábyrgist allar skuldbindingar þeirra gefur þeim möguleika til erlendrar lántöku með lægri vöxtum og til lengri tíma en ella væri án þess að nokkurt gjald komi í ríkissjóð fyrir þá ábyrgð. Það er því ekki óeðlilegt að stjórnvöld vilji hafa eitthvað um það að segja hversu mikið fé sjóðirnir taka að láni erlendis á meðan lögin gera ráð fyrir ríkisábyrgð. Þannig hefur það verið og fram til þessa.
    Ed. tók einnig inn í nokkur erindi sem bárust fjh.- og viðskn. eftir að frv. var lagt fram. Við það hækkuðu lántökuheimildir um samtals 355 millj. kr. Samþykkt var að veita Hitaveitu Suðureyrar lántökuheimild að fjárhæð 60 millj. kr. vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar og er sú heimild í samræmi við samkomulag fjmrh. og hreppsnefndar Suðureyrarhrepps frá 30. des. sl. Það samkomulag var gert á grundvelli heimildarákvæða í lánsfjárlögum 1988. Einnig var samþykkt að heimila Hríseyjarhreppi 35 millj. kr. lántöku til að kaupa
notaða ferju sem á að annast fólks- og fraktflutninga á milli Hríseyjar, Grímseyjar og lands. Kaupin tengjast uppstokkun á rekstri Ríkisskipa og þeirri ákvörðun að hætta við að reyna að endurbæta hafnaraðstöðu fyrir hafskip í Grímsey. Jafnframt hafa Hríseyingar sótt um að fá stærri ferju.
    Þá var Byggðastofnun veitt viðbótarheimild til erlendrar lántöku að fjárhæð 200 millj. kr. vegna lánveitinga til viðgerða og endurbóta á skipum. Hér er þó ekki um nettóaukningu á erlendum lántökum að ræða, heldur er verið að veita þessum lánveitingum um annan farveg en áður var ætlað. Loks var Framleiðnisjóði heimiluð 60 millj. kr. lántaka sem varið verður til sérstakrar endurskipulagningar á fjárhag og rekstri loðdýrabænda. Er þetta í samræmi

við áform ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til stuðnings loðdýraræktinni á árinu 1989.
    Að lokum voru gerðar breytingar að fjárhæð 105 millj. kr. vegna gengisfellingar krónunnar í janúar og febrúar 1989 og annarra breytinga á verðlagsforsendum. Af þeirri fjárhæð eru um 60 millj. kr. til Landsvirkjunar og 15 millj. kr. til ýmissa hitaveitna og 25 millj. kr. til flóabátsins Baldurs en gert er ráð fyrir að smíði hans ljúki á þessu ári. Þá var fallist á beiðni Byggðastofnunar um að stofnunin fái 150 millj. kr. af 500 millj. kr. lántöku sem Framkvæmdasjóði var ætlað að taka og endurlána fyrirtækjum í fiskeldi. Er það gert með hliðsjón af því að Byggðastofnun lánaði á árinu 1988 þriðjung af þeim 300 millj. kr. sem þáv. ríkisstjórn heimilaði til að endurlána fyrirtækjum í fiskeldi.
    Í II. kafla frv. til lánsfjárlaga 1988 voru gerðar breytingar í samræmi við breytingar á fjárlagafrv. 1989 í meðförum fjvn. og Alþingis. Framlag í ríkissjóð af hækkun bensíngjalds og þungaskatts var hækkað úr 600 millj. kr. í 680 millj. kr. og framlag til Félagsheimilasjóðs var hækkað úr 15 millj. kr. í 21 millj. kr. Þá var tekin inn ný grein sem gerir ráð fyrir að framlag til Listskreytingasjóðs ríkisins verði eigi hærra en 6 millj. kr. á árinu 1989 þrátt fyrir ákvæði laga um sjóðinn.
    Loks var samþykkt umorðun á frumvarpsgrein sem snertir greiðslu kostnaðar af forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum. Þar er gert ráð fyrir að Stofnlánadeild landbúnaðarins þurfi ekki að vera milligönguaðili um greiðslu þessa kostnaðar sem er kostnaður af þeim hluta framleiðendagjalds sem tekinn hefur verið inn í verðlag búvara.
    Tvær breytingar voru gerðar á III. kafla frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1989. Felld var niður 35. gr., en hún fól í sér heimild til fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs til lántöku á árinu 1988. Eins og nefnt var að framan var þeirrar heimildar aflað með lögum nr. 94 frá 23. des. 1988, um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og heimildir til lántöku á árinu 1988. Þá var í 36. gr. leiðrétt heimild fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs ti lántöku innan lands á árinu 1988, úr 600 millj. kr. í 900 millj. umfram heimild í lánsfjárlögum 1988.
    Nýframkomin þjóðhagsspá fyrir árið 1989 gerir ráð fyrir að halli á viðskiptum við útlönd verði 9,6 milljarðar sem er um 3,3% af áætlaðri landsframleiðslu 1989. Er rétt að taka fram að inni í þeirri tölu er m.a. þriggja milljarða greiðsla vegna flugvélakaupa Flugleiða sem er ekki árlegur viðburður, og ber að líta á tölur fyrir árið 1989 hvað viðskiptahalla snertir sérstaklega í ljósi þess að þar er inni þessi þriggja milljarða tala vegna flugvélakaupa Flugleiða.
    Þessi 9,6 milljarða kr. halli er verulega minni en spár frá í haust gerðu ráð fyrir. Til samanburðar má nefna að viðskiptahallinn á árinu 1988 er talinn vera 4,1% af landsframleiðslu. Forsenda þessarar lækkunar viðskiptahallans er samdráttur þjóðarútgjalda um 3,5% á móti tæplega 2% lækkun þjóðarframleiðslu, svo og lækkun raungengis krónunnar um 4% á árinu 1988.

    Við þetta má bæta að spá Þjóðhagsstofnunar gerir ráð fyrir tæplega 1 milljarðs kr. afgangs á vöruskiptajöfnuði og einnig á þjónustujöfnuði að vöxtum frátöldum. Vaxtajöfnuðurinn verður hins vegar neikvæður um rúmlega 11 milljarða kr.
    Greiðslur þjóðarbúsins á löngum erlendum lántökum eru áætlaðar 18,8 milljarðar kr. á árinu 1989. Þar af eru afborganir 8,5 milljarðar og vextir 10,3 milljarðar. Greiðslubyrði af erlendum lánum í hlutfalli við útflutningstekjur af vörum og þjónustu er talin verða um 18,8% á árinu 1989, en á árinu 1988 var hlutfallið 16,8%. Greiðslubyrði erlendra lána í hlutfalli við útflutningstekjur fer því vaxandi sem skýrist af samdrætti í útflutningi, hækkun vaxta á erlendum markaði auk skuldaaukningar.
    Að öðru óbreyttu mun aukin erlend lántaka á þessu ári auka enn á greiðslubyrðina. Það er því rík ástæða til að staldra við þegar fimmta hver króna af útflutningsverðmæti okkar fer til að greiða afborganir og vexti af erlendum lánum. Með því að stefna í jafnvægi í fjármálum ríkissjóðs vill ríkisstjórnin fyrir sitt leyti reyna að stuðla að því að blaðinu verði snúið við. Það verður ekki auðvelt að ná því markmiði eins og ég sagði áðan, sérstaklega þegar litið er til afkomu ríkissjóðs á síðasta ári. En staða
þjóðarbúsins gagnvart útlöndum setur auknar kröfur á hendur stjórnvalda að það sé staðið við þetta markmið.
    Það hefur dregist nokkuð, virðulegi forseti, að afgreiða lánsfjárlög og á því eru skýringar sem hv. alþm. eru kunnar. Á meðan lánsfjárlög hafa ekki verið samþykkt og heimildir til erlendrar lántöku skortir kunna einhverjir aðilar að verða fyrir óþægindum og fjárhagstjóni af þeim sökum, þar á meðal ríkissjóður sem þarf að gera upp skammtímaskuld sína við Seðlabankann fyrir lok marsmánaðar. Ég vil því í fullri vinsemd mælast til þess við þessa virðulegu deild og hv. fjh.- og viðskn. sérstaklega að reynt verði eftir föngum að flýta afgreiðslu lánsfjárlaga frá hinu hv. Alþingi.
    Ég mælist svo til þess, virðulegi forseti, að þessu máli verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.