Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Það hefur reyndar lengi verið beðið eftir því að fram kæmu tillögur frá ríkisstjórn að reglum um starfsemi verðbréfasjóða, eða verðbréfafyrirtækja og fjármagnsleiga og annarra þeirra sem starfa á fjármagnsmarkaði. Umsvif slíkra fyrirtækja hafa vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum og velta nú stórum fjárhæðum eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Mörgum hefur þótt frelsi þessara fyrirtækja og hlutdeild þeirra í veltu fjár með endemum og hafa mörg orð verið höfð um hinn svonefnda ,,gráa markað`` og reyndar löngu tímabært að beisla ,,þann gráa``. Það ber því að fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram nú og hljóta allir að fagna því að tryggar og réttlátar reglur verði settar um þessa starfsemi og hún lögbundin. Það er hagur neytenda og hlýtur einnig að vera hagur þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir, svo og annarra aðila sem fara með fé landsmanna, svo sem banka og sparisjóða.
    Eins og kom fram við afgreiðslu málsins í Nd. studdu fulltrúar Kvennalistans frv. þar og skrifaði fulltrúi Kvennalistans, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, undir meirihlutaálit fjh.- og viðskn. þó að hún hefði fyrirvara um þennan stuðning. Við vorum að vísu ekki á allt sáttar um efni frv. en töldum þó að meginefni þess væri til bóta og því studdum við það. Fram komu ýmsar brtt. við umfjöllunina í Nd. og vera kann að fleiri brtt. komi fram við umfjöllun þessarar hv. deildar og fjh.- og viðskn. hennar um málið og mun áheyrnarfulltrúi okkar þar fá aðild að þeirri umfjöllun.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nú og ekki reifa efnisatriði frv. en vildi aðeins að þetta álit kæmi í ljós við 1. umr. málsins.