Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég þarf ekki að ítreka það að ég fagna þessu frv. Alberts Guðmundssonar vegna þess að þau ólög sem voru afgreidd fyrr á þessu þingi eru með því versta sem hér hefur verið afgreitt. Frv. grípur á einum þætti þess, þ.e. því sem snýr að þeim þjóðfélagsþegnum sem njóta ellilífeyris og hafa ekki tekjur til að standa undir þeim sköttum sem nú verða lagðir á íbúðarhúsnæði og eru mikil undur að gerast þegar þeir flokkar sem nú sitja í stjórn, sem hafa lagt á matarskattinn, hafa nú lagt á annan skatt, íbúðaskattinn. Það er einhver sú mesta eignaupptaka sem um getur á eignum sem þarna er um að ræða og með þeim hætti að við það verður ekki unað. Það er hvergi, ekki einu sinni á Norðurlöndunum þar sem þó margir þingmanna hér sækja sínar hugmyndir, lagður slíkur skattur á íbúðarhúsnæði. Skattur á íbúðarhúsnæði er ekki sá skattur sem þarf að leggja á. Það eru ekki þeir menn sem eru stóreignamenn. Og eigið húsnæði, sem oft verður stórt með árunum, á ekki að nota sem tekjustofn með þeim hætti sem hér er um að ræða. Ég fullyrði að það er hvergi í heiminum lagður slíkur skattur á íbúðarhúsnæði sem hér hefur verið ákveðið að leggja á nema í Tékkóslóvakíu, í Búlgaríu og fleiri ríkjum. Þegar kommúnistar komust þar til valda, var lagður á svona skattur sem endaði með því að fólkið missti íbúðarhúsnæðið. Það er alveg ljóst að þessi eignarskattur er einhver versti skattur sem hér hefur verið lagður á. Og ég vil styðja frv. hjá Albert Guðmundssyni um að lækka þessar álögur á ellilífeyrisþegum sem þegar hafa lagt sitt af mörkum í þessu þjóðfélagi, hafa borgað sína skatta, bæði af launum og af sínu húsnæði áður, og ég tel að ef nokkurt mál er réttlætismál, þá sé það þetta.
    Þá er annað. Það hefur verið talað um eignaupptöku í sambandi við lánskjaravísitölu. En þetta er verri eignarupptaka og það einhver sú versta sem um getur og ég fagna því að hæstv. fjmrh. gengur í salinn því að hann gæti e.t.v. upplýst okkur um það hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að þessir eignarskattar lækki og styðji þetta frv. frá Albert Guðmundssyni. Það væri ekki ófróðlegt að fá að vita það því að flokkur hans, sem hefur nú sungið á þessu þingi í fjölda ára um hjálp til þeirra sem minna mega sín, ætti kannski að taka það upp núna og breyta þeim sköttum sem þeir hafa þegar lagt á fólkið með þeim hætti að lina álögur á fólkið. Ég held að það sé alveg ljóst að eignarskattana á ellilífeyrisþega verði að lækka eins og gert er ráð fyrir með þessu frv. og ég er alveg viss um að ef það verður gert mun mörgum létta. Ég er líka viss um að það er ábyggilega þingmeirihluti fyrir því að samþykkja frv. og þykist vita að hér muni koma upp fleiri ræðumenn til að tjá sig um það að þeir séu samþykkir því.