Kynferðisafbrot gagnvart börnum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 476 er þeirri fsp. beint til mín hvað líði gerð og úrvinnslu afbrotaskýrslna um kynferðisbrot gagnvart börnum.
    Á síðasta ári á þskj. 89 var fsp. beint til þáv. dómsmrh. um fjölda mála þar sem kæruefni var kynferðisbrot gegn börnum. Í svari þáv. dómsmrh. á þskj. 535 kom fram að erfitt væri að veita umbeðnar upplýsingar bæði vegna þess að skráningarkerfi væri ekki nógu fullkomið og að skráning væri ekki tölvuunnin en unnið væri að úrbótum.
    Rannsóknarlögregla ríkisins hefur látið útbúa nýjar tillögur um skráningu á brotum sem eru mun fullkomnari en eldra kerfi og einnig miðað við að skráning verði tölvuunnin. Dómsmrn. heimilaði rannsóknarlögreglunni með bréfi dags. 1. febr. sl. að taka þetta nýja kerfi í notkun og verður það gert á allra næstu dögum. Verða öll mál sem berast rannsóknarlögreglunni á þessu ári skráð samkvæmt nýja kerfinu.
    Jafnframt var rannsóknarlögreglunni falið að útfæra kerfið þannig að hægt væri að nota það á öllu landinu og einnig að semja leiðbeiningar um notkun á því. Miðað er við að þetta nýja kerfi verði reynt hjá rannsóknarlögreglunni á þessu ári og endurbætt ef þarf, en síðan verði það tekið í notkun í öðrum lögsagnarumdæmum frá og með næstu áramótum. Jafnframt er unnið að tölvuvæðingu á sakaskrá og er miðað við að hægt verði að nota skráningu þar til gerðra skýrslna um dæmd mál. Tekið skal fram að hér er ekki eingöngu um að ræða kerfi sem miðast við kynferðisafbrot gegn börnum heldur heildarskráningu og mun því í framtíðinni verða hægt að veita á einfaldari hátt en nú upplýsingar um einstaka brotaflokka.